10.02.1930
Neðri deild: 20. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1774 í B-deild Alþingistíðinda. (2408)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Magnús Guðmundsson:

Það er rétt, að við minnihl.menn höfðum ekki ástæðu til að tefja þetta frv., sem hér liggur fyrir, eins og nú er komið; og það gleður mig, að hæstv. fjmrh. hefir fundið og viðurkennt, að við höfum ekki viljað draga málið á langinn með löngum umr. Svör hæstv. ráðh. viðvíkjandi till. minni um greiðsludrátt fyrir viðskiptamenn Íslandsbanka eru sprottin af misskilningi. Ég átti ekki við það, að skuldunautar bankans yrðu hart úti, heldur þeir menn, sent ekki geta borgað kröfur, sem á þá falla, vegna þess að þeir eiga innieignir í Íslandsbanka eða hafa skipt við hann og hafa þess vegna fengið þar loforð fyrir lánum, sem ekki verða uppfyllt nú. Fyrir þessum mönnum er ekkert hugsað í frv., en það er brýn þörf. Ég sé ekki fært að gera þetta með reglugerð, því í 6. gr. frv. stendur aðeins, að fjmrh. skuli heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um skiptameðferðina. Um greiðsludrátt þann, sem ég á við, held ég að ekki sé unnt að gefa reglur, nema um það sé ákveðið með lögum. Ég vænti þess, að hæstv. stj. leggi ekki kapp á að ljúka þessu máli í nótt hér í deildinni. Því að ef einhverjir gallar eru á frv., sem nauðsynlegt er að bæta úr, verður að breyta því í Ed., og þá vinnst enginn tími, því frv. verður þá að koma hingað aftur.

Ég skil ekkert í því, að hæstv. fjmrh. skuli ekki geta útnefnt matsnefndina, þó að ekki sé búið að afgreiða frv. hér út úr deildinni. Hann veit svo vel um sinn sterka meiri hl. hér í deild og að frv. verður samþ. Hann getur því gert allar nauðsynlegar ráðstafanir í sambandi við það; og þó að frv. félli, þá gerir það ekkert til, þó að n. verði byrjuð á starfi sínu. Það er vitanlega sjálfsagt að sníða ekkert af þeim tíma, sem n. á að hafa til starfa, því að samþykkt frv. mun vera fyrirfram tryggð.

Annars vil ég geta þess um brtt. á þskj. 93, að ég mun greiða þeim atkv., því að á samþykki þeirra veltur það, hvort enn er nokkur von um, að bankinn verði látinn lifa. Það leiðir því af sjálfu sér, að ég fylgi þeim.

Ég vil endurtaka það, að nauðsynlegt er, að nefndin byrji starf sitt á morgun. Og fyrst ekki stendur á öðru en að útnefna mennina, þá þykist ég vita, að hæstv. ráðh. sé búinn að hugsa svo um það mál, að hann viti upp á hár, hvaða menn hann setur í nefndina.