10.02.1930
Neðri deild: 20. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1777 í B-deild Alþingistíðinda. (2412)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Frsm. meiri hl. (Héðinn Valdimarsson):

Mér þótti gaman að heyra það hjá hv. 2. þm. G.-K., að þeir menn, sem nefndir voru til þess að meta Íslandsbanka — Jakob Möller og Pétur Magnússon —, væru ekki pólitískt litaðir, þar sem annar þeirra er núverandi en hinn fyrrverandi fulltrúi Íhaldsins í bæjarstjórn Reykjavíkur og annar þeirra, bankaeftirlitsmaðurinn Jakob Möller, situr í miðstjórn Íhaldsflokksins. Annars vil ég segja það, að ég er hræddur um, að brtt. á þskj. 93 geti valdið hættulegum drætti fyrir þetta mál, ef ekkert er aðhafzt fyrir 1. marz næstk. Nefndin hefir ekki átt kost á að ræða þessa till. og enga ákvörðun tekið um hana. En það verður að leggja áherzlu á, að skiptin komist sem allra fyrst í framkvæmd, til þess að menn geti flott viðskipti sín hið bráðasta úr Íslandsbanka yfir í Landsbankann.