10.02.1930
Neðri deild: 20. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1780 í B-deild Alþingistíðinda. (2418)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Frsm. meiri hl. (Héðinn Valdimarsson):

Hv. 2. þm. G.-K. virðist ekki geta skilið það, að t. d. Jakob Möller og Pétur Magnússon geti kallazt pólitískir öfgamenn engu síður en hann getur nefnt suma jafnaðarmenn svo. Hv. þm. getur verið viss um, að í flokki jafnaðarmanna eru þessir íhaldsmenn taldir mjög svo öfgafullir í skoðunum. Þetta fer auðvitað eftir því, frá hvaða bæjardyrum litið er á málin, og er það því ekki sagt þessum mönnum til lasts, því að ég geri ráð fyrir, að hugsunargangur þeirra sé þeim varla sjálfráður í þessu efni.

Þá vil ég geta þess í sambandi við Jakob Möller, að þegar hann var ásakaður fyrir að hafa ekki rannsakað Íslandsbanka, þá skaut hann sér undir það, að hann hefði ekkert erindisbréf um, í hverju starf hans væri fólgið, og hefði honum því ekki borið nein skylda til slíkrar stöðugrar rannsóknar. En fyrir hvað fær hann þá laun sín sem bankaeftirlitsmaður? Sýnir þessi framkoma bezt, hvert traust menn mega bera til þessa embættismanns þjóðarinnar.