10.02.1930
Neðri deild: 20. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1781 í B-deild Alþingistíðinda. (2419)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Ég vildi aðeins segja, að ég tel það með öllu óforsvaranlegt af hæstv. stj. að skipa öfgamenn í matsnefndina, sem sérstök ástæða væri til að halda, að væru fyrirfram ráðnir í að loka bankanum til fulls, eins og hv. 2. þm. Reykv. og fleiri samherja hans.

Ég vek athygli á því, að ég held það flýti ekki fyrir afgreiðslu málsins að taka það fyrir aftur kl. 10 í fyrramálið. Menn þurfa dálítinn tíma til þess að átta sig á, hvort þeir vilja koma með brtt. Mér finnst því, að það ætti að vera nógur tími að taka málið fyrir á venjulegum fundartíma, kl. 1, og reyna að koma því til hv. Ed. á morgun.

Ég mun að sjálfsögðu greiða atkv. gegn þessu frv. Það er hlálegt að samþ. frv. um skiptameðferð á bankanum áður en þó er tekin fullnaðarákvörðun um örlög bankans. Það er rétt eins og ef ættingjar sjúklings tækju sig til og auglýstu, að ef sjúklingurinn andaðist, þá færi jarðarförin fram þennan eða hinn daginn.