11.02.1930
Neðri deild: 21. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1783 í B-deild Alþingistíðinda. (2425)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Magnús Guðmundsson:

Ég ætlaði aðeins að fara fram á það við hæstv. stj., að þetta mál verði tekið út af dagskrá, vegna þess að ég hefi fengið að vita, að símað hafi verið til sendiherra okkar í Kaupmannahöfn viðvíkjandi lausn á þessu máli, og að menn úr bankaráði bankans álíti, að það geti spillt fyrir þeim málaleitunum, ef málið fer út úr deildinni hér. Ég sé heldur ekki, að þetta skipti neinu fyrir málið, en sennilegt er, að enginn hafi löngun til að spilla fyrir því, að bankinn verði opnaður.

Ég vona, að hæstv. stj. verði við þessari beiðni, enda hefi ég skilið hæstv. fjmrh. svo, að hann fari ekki að neyða okkur til þess að greiða atkv. á móti undanþágu frá þingsköpum.