11.02.1930
Neðri deild: 21. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1784 í B-deild Alþingistíðinda. (2426)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Frsm. meiri hl. (Héðinn Valdimarsson):

Áður en hæstv. stj. svarar þessu, vil ég aðeins láta í ljós þá skoðun mína, að þetta er framhald á þeim drætti, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefir reynt að hafa á þessu máli frá því, er það fyrst kom til nefndar, og stöðugt síðan. Því að þetta símskeyti frá nokkrum hluta bankaráðs Íslandsbanka gerir enga breyt. á því, sem við vitum um skoðun Sveins Björnssonar, og hefir því engin áhrif á málið. Í öðru lagi myndi símskeyti, frá Sveini Björnssyni áreiðanlega koma áður en málið væri til lykta leitt, og er því ekkert til fyrirstöðu að halda því áfram. En svo virðist, sem það vaki fyrir hv. 1. þm. Skagf. og flokki hans, að ef bankinn stöðvast á annað borð, þá verði það með sem mestu tapi fyrir bankann, því að því lengri sem drátturinn verður, því meira verður tapið.