12.02.1930
Neðri deild: 22. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1790 í B-deild Alþingistíðinda. (2436)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Frsm. meiri hl. (Héðinn Valdimarsson):

Meiri hl. n. hefir talað um þessar brtt. sín á milli og leggur til, eins og hæstv. fjmrh., að þær verði allar felldar.

Mér virðist töluvert erfitt að skera úr, hvorar brtt. eru vitlausari, en báðar eru þær einstakar í sinni röð. Till. hv. 2. þm. G.-K. fer. fram á það, að bankastjórar Landsbankans skipi matsnefndina, en ekki bankaráðið, sem þó ber ábyrgðina út á við. Það ætti alls ekki að blanda þessum banka inn í þetta mál, hvorki bankaráði og enn síður undirmönnum þess, bankastjórunum, umfram það, sem óhjákvæmilegt er. Landsbankanum veitir ekki af öllu sínu trausti, þó að ekki sé vísvitandi verið að draga hann inn í þessar Íslandsbankadeilur. Þessi liður till. er því á fremur litlu viti byggður og af lítilli góðgirni gerður, en við öðru var reyndar ekki að búast úr þessari átt.

Þá er ákvæðið um starfsmenn n. Það virðist nú lítil þörf á því að kveða á um starfsmenn n., meðan sjálf n. er ekki skipuð. Annars segir það sig sjálft, að Jakob Möller er skyldugur til þess að vera n. til aðstoðar, ef það má verða n. að nokkru liði. Og ég geri ráð fyrir því, að n. snúi sér til hans til þess að fá upplýsingar, sem hann kynni að geta gefið, enda þótt það hafi nú greinilega komið í ljós, að hann hafi ekki fylgzt svo með þessum málum, sem ætla mætti og af honum mætti krefjast, og skýrslur hans séu harla tortryggilegar. Yrði n. þess vegna að taka upplýsingum þessa manns með hæfilegri varúð. Ég held því, að þetta ákvæði sé ástæðulaust, og því fremur ákvæði um, að Pétur Magnússon skuli vera n. til aðstoðar. Sá maður hefir ekkert sérstakt til brunns að bera, sem geri það nauðsynlegt að setja hann til hjálpar n., að honum þó ólöstuðum. Hann hefir ekkert komið nálægt þessu máli, nema þennan hálfa sólarhring, sem rannsóknin stóð yfir, og slíkt er engin ástæða til þess að lögfesta hann sem aðstoðarmann n. Enda er jafnvel mjög óvíst, að Alþingi hafi nokkurn rétt til að skipa einstökum borgara að taka að sér slíkt verk. Ég hygg, að þingið geti alls ekki skipað Pétur til þessa starfs, nema hann sjálfur vilji.

Um brtt. hv. 1. þm. Skagf. mætti tala langt mál, en ég mun þó leiða það hjá mér að mestu, því að þær eru, eða einkum síðari hluti þeirra, svo frámunalega vitlausar, að jafnvel hv. 1. þm. Skagf. var vart trúandi til þess að láta slíkt plagg frá sér fara. Um fyrri liðinn er það að segja, að það er oft heppilegra, að sameinað þing kjósi slíkar nefndir, en í þessu tilfelli held ég þó að sé bezt, að fjmrh. geri það.

Síðari ákvæði brtt. gengur út á það, að lögfesta almenna óskilvísi í landinu þangað til á hátíðardegi jafnaðarmanna, 1. maí; þá skal aftur taka upp almenna viðskiptaskilsemi að síðaðra þjóða hætti. Mig furðar á því, að þeir hv. þm., sem svo mjög þykjast bera lánstraust landsins fyrir brjósti, skuli láta sig henda annað eins og það, að vilja lögleiða, að enginn sé skyldugur til að borga skuldir sínar. Varla er hugsanlegt öllu sterkara meðal til þess að eyðileggja lánstraust landsins, bæði inn á við og út á við. Öll viðskipti, sem ekki færu fram gegn greiðslu peninga út í hönd, mundu tafarlaust stöðvast.

Það má skipta viðskiptamönnum Íslandsbanka í tvo flokka, þá, sem eiga inni, og þá, sem ekki eiga inni í bankanum. Samkv. lögum þeim, sem hér eru á ferð í þinginu, geta innstæðueigendur fengið lán út á innstæðurnar, eða a. m. k. nokkurn hluta þeirra. Það, sem þeir ekki fá út á, er þá álitið tapað, og ég get ekki séð neina skynsamlega ástæðu til þess að þeir, sem tapa fé á þessu fyrirtæki, séu með lögum undanþegnir að standa í skilum, fremur en þeir, sem tapa fé á annan hátt. Um það, hvort menn hafi fengið loforð um lán í bankanum, býst ég við, að oft geti orkað tvímælis. Sjaldnast er nokkuð skjalfest um slíka hluti, svo að örðugt yrði um sönnunargögn í slíkum málum. Auk þess er það lítil sönnun þess, að maður geti ekki borgað skuldir sínar, þótt hann hafi fengið munnlegt loforð hjá bankastjórunum — fyrrverandi auðvitað — um lán, sem svo hafi brugðizt. Þó að nú lán bregðist í Íslandsbanka, þá er það í rauninni ekkert tap, því sami maður getur þá því auðveldar fengið lán í Landsbankanum eða annari peningastofnun. Þessir menn þurfa því alls ekki að lenda í vanskilum, nema því aðeins, að Íslandsbanki eigi sama sem ekkert upp í skuldir sínar. Annars er það mjög varhugavert að lögleiða slík ákvæði, vegna þess hversu víðtækar afleiðingar þau hljóta að hafa. Ef t. d. hv. 2. þm. G-K. á að gjalda hv. 1. þm. Skagf. einhverja upphæð, en hv. 2. þm. G.-K. ber það fyrir sig, að hann hafi ætlað að fá víxil í Íslandsbanka, þá er hv. 1. þm. Skagf. ekki heldur skyldugur til þess að greiða sínum skuldheimtumönnum, og svo framvegis endalaust. Þar af leiðandi verður það auðvitað, að það verður sama sem enginn maður, sem fæst við viðskipti og verzlun, skyldugur til að borga sínar skuldir, því að flestir munu geta vísað til einhverrar fjárheimtu, sem þeir eiga á Íslandsbanka. Afleiðingin af því, ef þetta verður samþ., verður þá það, að enginn þorir að lána neinum neitt. Hvernig fer um framleiðendur yfirleitt, ef þeir geta skotið sér inn undir það, að þeir þurfi ekki að borga verkamönnum sínum, og hvernig ættu verkamenn að geta þolað að veita þeim 3–4 mánaða gjaldfrest? Þetta er svo vitlaust, að það er ekki eyðandi frekar orðum að því.

Þá ætla ég að beina einni fyrirspurn til hæstv. fjmrh. Ég sé, að brtt. sú, sem var samþ. á síðasta fundi, við 1. gr., er orðuð þannig, að fjmrh. sé heimilt að fresta upphafi skiptameðferðar til 1. marz 1930. En í gr. á undan stendur, að skilanefnd skuli framkvæma skiptin á bankanum frá lokunardegi bankans, 3. febr. síðastl. Þetta er ekki alveg glöggt orðað, en ég geng út frá, að hér sé verið að fresta því, að þessi lög komist í framkvæmd, en ekki að skiptameðferðin taki ekki til tímans frá 3. febrúar. Í því sambandi við ég ámálga það, sem hv. þm. Ísaf. talaði um á fundinum, að það er mjög óviðkunnanlegt, að bankastjórn Íslandsbanka haldi áfram störfum, eftir að bankanum hefir verið lokað. Það segir sig sjálft, að þeir verða að taka á móti þeim peningum, sem viðskiptamenn bankans ætla að greiða honum, en þar af leiðir ekki, að þeir hafi heimild til að veita mönnum gjaldfrest um fleiri mánaða skeið við langar framlengingar víxla o. s. frv. Ef skiptanefnd kemur að bankanum, ætti ekki að taka slíkt til greina. Ég vænti þess fastlega, að hæstv. fjmrh. taki þetta mál að sér og athugi, að hve miklu leyti bankastjórarnir halda áfram störfum sínum út á við, og stöðvi það, að svo miklu leyti sem það er ekki óhjákvæmilegt.