12.02.1930
Neðri deild: 22. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1793 í B-deild Alþingistíðinda. (2437)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Magnús Guðmundsson:

Er ekki hæstv. fjmrh. við? Það var hann, sem ég ætlaði aðallega að svara.

Það væri synd að segja, að þessi brtt. mín hefði fengið góðar viðtökur hjá hv. stjórnarliði, og bjóst ég reyndar ekki við því fyrirfram, því að það er auðséð af meðferð þessa máls, hverjum tökum það er tekið og hvert stefnir.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri auðséð, að ég vildi hafa skilanefndina pólitískt litaða. Það sagði ég nú ekki neitt um, og kosningar í sameinuðu þingi geta verið ólitaðar af pólitík. (Fjmrh.: Svo!). Já, það getur vel verið, og slíkar kosningar hafa farið hér fram, en þegar sagt er, að hún verði pólitískt lituð, þá verð ég að svara því, að hún mundi víst verða eins mikið lituð, þótt hæstv. ráðh. skipaði n., vegna þess að maður á ekki að venjast því úr garði hæstv. stj., að n. séu skipaðar án tillits til stjórnmálaskoðana, svo að ég held, að hæstv. ráðh. hefði allra sízt átt að nefna þetta sem rök á móti minni till. Ég veit, að þessi till. tekur dálítið vald af hæstv. ráðh, en ég hélt, satt að segja, að honum myndi ekki vera svo sérlega annt um það. (Forsrh.: Þá er ekki löngunin mikil til að beita því pólitískt!). Ég hélt, sagði ég, en það virðist vera dálítið sárt, og maður fær kannske að sjá, hvernig útnefningin fer.

Ég var ekki að tala um það við 2. umr., hvort ég fengi að flytja brtt. Ég vissi að ég hafði fulla heimild til þess sem þm. að gera það, og þótt hæstv. fjmrh. hafi lofað því að veita afbrigði, er það einskis virði, því að það þurfti afbrigði um málið í heild sinni, og þó að við minnihl.menn séum ekki sterkir í d., getum við þó fyrirbyggt, að öll afbrigði verði leyfð, svo að það getur ekki hafa verið það, sem hann var að gefa mér undir fótinn með, þegar hann var að tala um flutning þessarar till. Um síðari till. sagði hæstv. ráðh. það, að hann gæti ekki gengið að henni vegna þess, að hún myndi valda svo miklum truflunum í viðskiptalífinu, skildist mér, og sagði, að maður gæti logið sig út úr því, sýnt einum og öðrum sömu bókina, og þannig logið sig frá skyldum sínum. Mér er það að sönnu ljóst, að svo má fara að í einstöku tilfellum, en ég hélt, að hæstv. ráðh. væri nokkurn veginn sannfærður um það, að margir hljóta að komast í kröggur vegna lokunar bankans, og ég hélt, að það væri meira virði að geta verndað dálítið þá menn heldur en þó menn vissu, að nokkrir óráðvandir menn kynnu að geta notað sér þetta um leið.

Þá er að athuga, um hvað langan tíma hér getur verið að ræða. Það er talað hér eins og það sé verið að losa menn við allar skuldbindingar til eilífðar. En það er eitthvað annað. Tíminn er tveir mánuðir, og þótt sá aðili, sem skuldina á, fari í mál undir eins, þá fengi hann ekki sína skuld fyrr þrátt fyrir það, en hann getur gert sínum skuldunaut mikinn óhag, og jafnvel gert hann gjaldþrota, með því að hann hefir undirtökin á honum og getur stimplað hann sem óskilamann. Þetta vill till. fyrirbyggja, og það er satt að segja það minnsta, sem ætti að vera heimtandi af hv. meiri hl. í þessu máli, að hann vildi vernda þá menn, sem hafa alveg án eigin tilverknaðar komizt í slíkt öngþveiti. Það er þó svo, að tveggja mánaða tími gefur mönnum talsvert svigrúm til að leita eftir láni annarsstaðar, og þar sem auðsætt er, að alstaðar þar, sem hlutaðeigandi getur ekki borgað, fær skuldareigandi hana ekki greidda fyrr, þó að þetta sé ekki samþ., og hjálpin í þessu liggur þá í því, og eingöngu í því, að honum sé ekki gert erfiðara fyrir heldur en þörf er á, og hann eigi það ekki yfir höfði sér að verða talinn vanskilamaður þessa tvo mánuði, sem um er að ræða.

Ég verð að segja það, að þrátt fyrir undirtektir hæstv. ráðh. og hv. 2. þm. Reykv., sem nú fylgjast að eins og bræður, vona ég það fastlega, að þeir menn séu nógu margir í þessari hv. d., sem vilja rétta hjálparhönd til þessa sjálfsagða réttlætis.

Hæstv. ráðh. lét í veðri vaka, að það væri búið að kveða á um það, hverjir ættu að skipa þessa rannsóknarnefnd hér í Reykjavík. (Fjmrh.: Það er ekki búið að skipa hana hér; aðeins á tveim stöðum úti á landi). En þá vil ég spyrja hæstv. ráðh.: Er það ekki ráðið, hvaða menn eigi að skipa hana hér í Reykjavík á aðalsetri bankans? Það kemur mér mjög undarlega fyrir, að ekki skuli vera búið að skipa n. hér, því að í fyrrakvöld, þegar hæstv. ráðh. var að tala um þetta mál, lýsti hann yfir því, að n. þyrfti að fara að starfa sem fyrst, og get ég þá ekki skilið, hvers vegna hann lætur hana ekki þegar taka til starfa. En það gerir ekkert annað en að herða mig með brtt. hv. 2. þm. G.-K., að hæstv. ráðh. hefir ekki ennþá skipað þessa n., því að ég veit þá ekki yfir höfuð, hvort hún verður skipuð; það er engin skylda eftir lögunum að gera það. Hæstv. ráðh. hefir að vísu sagt, að það liggi á með þessa nefndarskipun, og ég vil þá spyrja, hvers vegna hann gerir ekkert í málinu. Bærinn er fullur með það, hverjir eigi að vera í n., bærinn nefnir ákveðin nöfn, og ég hefi enga ástæðu til annars en að nefna þau einnig, ef vill, því að það gengur staflaust um allan bæinn. Og ef það er meiningin, að n. eigi að fara að taka til starfa sem fyrst, lítur það undarlega út að vera ekki búinn að skipa hana. Nei, það er nefnil. annað, sem liggur á bak við; ég sé það vel nú, það er það, að hæstv. stj. vill hafa þetta mál út úr deildinni, áður en n. verður skipuð. Hún vill það af því, að hún veit, að í rauninni er það svo, að meiri hl. d. er á móti því að nota þessa aðferð, sem hér á að gera, og þess vegna er því hraðað svo. Ég spurði þrem sinnum um það í fyrrinótt, hvers vegna þessu máli lægi svo mjög á, á undan nefndarskipuninni, og ég fékk ekkert svar, enda er engu hægt að svara, því að það sjá allir, að ekkert er hægara fyrir n. en að fara að starfa áður en þetta mál er útkljáð hér í d.

Ég frétti það líka í gær, að bankaráð Íslandsbanka hefði ákveðið að fela Sveini Björnssyni sendiherra einhverjar samningaumleitanir fyrir hönd bankans, og mér er ennfremur kunnugt um það, að hæstv. ráðh. símaði sendiherranum og spurði hann um, hvort það myndi hafa ill áhrif á þessar samningaumleitanir hans, ef þetta mál yrði afgr. héðan úr d. Ég veit ekki til, að svar hafi komið frá sendiherra, enda tæpast við því að búast. En ef svo er, að það er verið að leita samninga þar ytra, og sendiherra óskar eftir að málið sé ekki látið ganga lengra fram á meðan, þá er það vitanlega það sama að láta málið ganga fram nú og að bregða fyrir það fæti. Og ef nokkur alvara fylgir um frestun þessa máls til 1. marz, þá þykir mér undarlegt að vera að keyra það út úr d. sem fyrst, þar sem sú n., sem á að skoða bankann, er enn ekki tekin til starfa, því að það er hennar starf, sem allt stendur á, en alls ekki lög frá þinginu.

Ég held, að það hafi verið hæstv. fjmrh., sem drap á, að það gæti farið svo, að það yrði gert fjárnám hjá bankanum, en það getur ekki orðið, af þeirri einföldu ástæðu, að enginn af skuldheimtumönnum bankans hefir þann grundvöll, sem þarf til að gera fjárnám. Enginn getur gert fjárnám, nema hann hafi dóm, sátt eða veðbréf, þar sem það er tiltekið, að það megi gera fjárnám án undanfarandi dóms. En það mætti hugsa sem svo, að einhver af skuldheimtumönnum bankans léti fara fram löggeymslu eða kyrrsetningu, en þar til er því að svara, að kyrrsetning fellur ætíð úr gildi, ef hlutaðeigandi verður gjaldþrota áður en skuldheimtumaður er búinn að fá dóm, gera fjárnám eða selja. Þess vegna myndu þeir menn, er svo færu að, alls ekkert hafa upp úr því, vegna þess að í frv. stendur, að allt skuli fara eftir gjaldþrotalögum, og þótt einhver hefði kyrrsett hjá bankanum fyrir 1. marz, og engin lög komið fyrr, þá hefði hans kyrrsetning fallið úr gildi, vegna þess að þetta frv. varð að lögum, sem vísar til gjaldþrotalaganna.

Fyrir mér stendur það alveg ljóst, að þessu frv. liggur ekki nokkurn skapaðan hlut á; það, sem á liggur, er nefndarskipunin, en hana dregur hæstv. stj. von úr viti; og ég skora á hæstv. ráðh. að skýra frá því, hvers vegna hann er að draga að skipa hana.

Þá er ég kominn að hv. 2. þm. Reykv., en honum þarf ég ekki miklu að svara. Hv. þm. sagði aðeins það um mínar till., að þær væru vitleysa, og ekkert annað, og það skildust mér vera hans höfuðrök, — og svo annað, að það bæri upp á 1. maí sá tími, er þessi frestur endaði. Það er kannske öll von til, að honum sé minnisstæður 1. maí, því að alltaf þynnast fylkingarnar hans á þeim degi, og ég get hugsað mér, að hv. þm. horfi með skelfingu fram til þess dags. Annars vil ég minna hv. þm. á það, að 1. maí er merkisdagur að fleiru en kröfugöngu jafnaðarmanna, það er t. d. fæðingardagur hæstv. dómsmrh. (MJ: Hæstv. dómsmrh. er fæddur sósíalisti. — HV: Er það í tilefni af því, að hv. 1. þm. Skagf. setti 1. maí?). Nei, það er ekki í því tilefni gert. Annars vil ég benda hv. 2. þm. Reykv. á, að þessi kröfuganga er orðin svo vesaldarleg, að hún er úr minni flestra liðin.

Um till. hv. 2. þm. G-K. sagði hv. þm., að það væri vitlaust að láta bankastjóra Landsbankans fara að útnefna rannsóknarnefndarmennina, þar sem bankastjórarnir bæru ábyrgð gagnvart bankaráðinu og engum öðrum. En þessi athöfn, sem yrði falin þeim með sérstökum lögum, kemur vitaskuld ekki neitt við bankaráðinu. Það er einungis á sínum bankastjórastörfum, sem þeir bera ábyrgð gagnvart bankaráðinu, og það er hægt að fela þeim ýms störf, sem þeir bera ekki ábyrgð á gagnvart bankaráðinu. Það er þess vegna misskilningur, þegar hv. 2. þm. Reykv. ber þessu við. Annars voru hans aðalmótbárur gagnvart minni till. þær, að menn myndu svíkja hver annan í viðskiptum eins og þeir gætu. Það getur vel verið, að svo yrði í einstökum undantekningatilfellum, en það er jafnan svo, að það er ekki hægt að fyrirbyggja, að menn svíki, en hitt er rétt og sjálfsagt, að reyna að verja þá menn, sem lenda í vanskilum af þeim algerlega óviðráðanlegum orsökum, og það er vitaskuld aðalatriðið, og eina atriðið í þessu máli, sem verulegu skiptir. Hitt þarf maður ekki að óttast, að fjöldi manna, sem í raun og veru getur borgað, muni slá sér undir þetta, því að þeir hafa sjálfir sönnunarskylduna um að þeir hafi komizt í vandræði af þessum ástæðum, og þar einmitt hefir hv. 2. þm. Reykv. nokkurn veginn fulla tryggingu fyrir því, að þessi ákvæði komi ekki öðrum að gagni heldur en þeim, sem hafa lent í vandræðum fyrir þessar orsakir. Svikararnir allir, sem hv. þm. er að tala um, myndu aðeins verða sér til minnkunar, ef jafnslyngur „forretnings“maður og hv. 2. þm. Reykv. færi að athuga þeirra framferði; hann mundi ekki verða lengi að reka þá „á stampinn“, sýna, að þeir væru svikarar, ef þeir gætu ekki sýnt fram á, að þeir væru komnir í vandræði vegna þess að bankinn lokaði.