12.02.1930
Neðri deild: 22. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1802 í B-deild Alþingistíðinda. (2439)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Fjmrh. (Einar Árnason):

Ég verð að segja, að ég undrast það mjög, ef hv. 1. þm. Skagf. hefir gengið með þá flugu síðan í fyrrinótt; að ég hafi lofað að greiða atkv. með sérhverri brtt., sem hann kæmi fram með. Þetta eru draumórar hjá hv. þm. Ég tók það fram, að ég væri tilbúinn að skipa nefndina, ef hv. d. væri tilbúin að afgreiða frv. til 3. umr. þá um nóttina. Hv. 1. þm. Skagf. kvaðst ekki vera reiðubúinn til þess, af því að hann ætlaði sér að flytja brtt. Þá kom fram uppástunga um, að málið yrði tekið fyrir kl. 10 næsta morgun. Hv. þm. þótti það líka of snemmt, og niðurstaðan varð sú, að það var tekið fyrir kl. 1 í gær. Það er vitanlegt, að á hvaða tíma, sem málið var tekið fyrir, þurfti til þess afbrigði, og það eina, sem ég lofaði hv. þm., var, að hann fengi afbrigði fyrir till. Ég held, að a. m. k. margir hv. dm. hafi komið með þá hugsun á fundinn í gær, að engin fyrirstaða yrði um að leyfa afbrigði um frv. En þá kom annað hljóð í strokkinn. Hv. 1. þm. Skagf. óskaði þess, að málið yrði tekið af dagskrá, til þess að hann og hans flokksmenn þyrftu ekki að beita þeirri aðferð að neita um afbrigði.

Hv. þm. áfellist mig fyrir það, að ég skuli ekki vera búinn að skipa matsnefndina. En það er komin fram till. um að taka af fjmrh. það vald, að skipa nefndina. Hvernig getur nú fjmrh. skipað n. áður en hann veit, hvort honum er það leyfilegt eða ekki. Meðan þetta vofir yfir, er ekki hægt að skipa n. En þessi fundur hefir á valdi sínu, hvað gert verður í því efni.

Hv. 1. þm. Skagf. sagði frá því, að einhverjir samningar hefðu staðið yfir milli bankaráðs Íslandsbanka og Sveins Björnssonar sendiherra. Mér er alveg ókunnugt um það. Ég verð að segja, að meðan ég fæ enga vitneskju um, í hverju þær samningaumleitanir eru fólgnar, get ég ekkert tillit tekið til þeirra.

Ég skal ekki fara langt út í málflutningsflækjur um, að ekkert sé hægt að gera bankanum, þó að hann sé látinn liggja óuppgerður og óverndaður af lögum. Ég er enginn lögfræðingur, en ég hefi talað um þetta mjög rækilega við gleggstu lögfræðinga í bænum, og þeirra álit er allt annað en álit hv. 1. þm. Skagf.

Ég sé ekki ástæðu til að fara út í ræðu hv. þm. Dal. Ég efast ekki um, að hann meini allt vel, en hann gleymir því, að til eru tvær hliðar á þessu máli, og nú stendur einmitt svo á, að ekki liggur fyrir nein atkvgr. um það, hvort við eigum að endurreisa Íslandsbanka eða ekki. Það getur ekki orðið fyrr en eftir nokkra daga, og þá fyrst má taka málið á sama grundvelli og hv. þm. Dal. talar um.