12.02.1930
Neðri deild: 22. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1804 í B-deild Alþingistíðinda. (2441)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Magnús Torfason:

Ég ætla ekki að fara út í efni frv. að svo stöddu. En drepa vildi ég á þau orð hv. 1. þm. Skagf., að vitanlegt sé um allan bæ, hverjir muni verða skipaðir í n. Ég veit það ekki. Þó sit ég við hlið eins þingnefndarmannsins, og hann getur ekki sagt mér það. Og ég veit, að stj. ætlar sér ekki þá dul að ráðgast ekki við samherja sína um það mál. Svo mikils varðandi sem viðfangsefnið er, mun stj. a. m. k. vilja heyra flokk sinn um val nefndarmanna.

Ég skil ekki það mikla vantraust, sem andstæðingar Framsóknarflokksins hafa á honum í þessu máli. Enginn framsóknarmaður hefir fengið svo mikið sem að líta inn um skráargat Íslandsbanka frá því að hann var stofnaður og allt til þessa dags. Og þegar stj. loks neyðist til að láta gera rannsókn, þá skipar hún til þess íhaldsmenn. Ég efast um, hvort fyrrv. stj. og núv. stjórnarandstæðingar yfirleitt hefðu fundið sér geðfelldari menn.

Mér finnst, að andstæðingarnir verði að líða sætt og súrt með okkur stjórnarstoðunum og reyna á þolinmæðina, unz málið er komið svo langt, að hægt sé að taka endanlega ákvörðun.