12.02.1930
Neðri deild: 22. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1825 í B-deild Alþingistíðinda. (2448)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Ég hefi engu að svara, þar sem mér hefir ekki verið svarað, síðan ég hélt mína ræðu í kvöld. En af því að ég hélt, að umr. væru að falla niður, fannst mér skylt að segja frá fréttum, sem borizt hafa af samningum á milli sendiherra Íslands og þeirra manna, sem bankaráðið hefir kosið til að semja fyrir hönd bankans. Þessir umboðsmenn bankans símuðu sendiherranum í gær, og hefir þeim nú borizt svar hans á þá leið, að sendiherra er hræddur um, að samþ. þessa frv. muni auka örðugleika þeirra manna, er standa fyrir samningum vegna Íslandsbanka. Sendiherra tekur — af eðlilegum ástæðum — ákaflega varlega á þessu máli, en ég vil leggja mikla áherzlu á, að hann hefir sent okkur viðvörun. Sendiherrann mundi vera óhyggnari maður en hann er, ef hann kvæði sterkara að orði. Ég verð því að mælast til þess, að þeir menn, sem áður hafa ekki verið ákveðnir í þessu máli, láti nú stjórnast af viðvörun Sveins Björnssonar sendiherra. Og þessi viðvörunarorð hafa því sterkari áhrif, sem ekkert liggur fyrir í málinu, sem bendir til þess, að þörf sé að samþykkja frv. í kvöld. Ef hæstv. stj. ætlar sjálfri sér að útnefna matsmennina, getur hún útnefnt þá nú þegar, án tillits til þess, hvort frv. verður samþ. nú eða málinu frestað.