12.02.1930
Neðri deild: 22. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1825 í B-deild Alþingistíðinda. (2449)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Gunnar Sigurðsson:

Við 2. umr. gat ég þess, að mér fyndist mjög mikið á skorta hjá hv. þm., að þeir tækju þetta mál sem hreint fjárhagsmál. Mörgum þeirra hættir við að líta á það einungis frá pólitísku sjónarmiði. Ég hefi áður lýst því, að það, sem sjálfsagt var að gera, þegar búið var að loka bankanum, var að skipa matsnefndina strax. Allir spurðu um það, hvernig bankinn stæði. Allir hlutu að véfengja það mat, sem fram fór á svo skömmum tíma. Á matinu á að byggja. Ef það sýnir, að bankinn er ekki langt frá því að eiga fyrir skuldum, vil ég, að við reynum að endurreisa. bankann, og ég hefi trú á, að það sé hægt. Reynist það aftur á móti, að bankinn sé langt frá því að eiga fyrir skuldum, getur skiptameðferð komið til greina. Hæstv. stj. hefir að mínum dómi vanrækt að gera þetta strax, og af því leiðir, að frv. það, sem hér liggur fyrir, er hálfgerður óskapningur. En frv. er fram komið til þess að bræða saman tvær ólíkar skoðanir, þeirra, sem vilja loka bankanum, og hinna, sem vilja það ekki. Enginn maður má skilja orð mín svo, að ég vilji bjarga Íslandsbanka á sama hátt og áður. Ég er að því leyti sammála hv. þm. Ísaf., að ég vildi láta gera bankann upp fyrir löngu, og það var hægt nú, þó að honum væri ekki lokað. Ég vil láta gera bankann upp á öðrum grundvelli en áður. Ég vil ekki styðja fyrirtæki, sem ekki eru lífvænleg, en hæstv. stj. hefir ráðin alveg í höndum sér að því er það snertir, með því að skipa stj. bankans eftir sínu höfði. Það er hægt að koma bankanum á tryggan grundvöll, bæði með hlutafé og láni, en hvernig sem málið fer, kemst ríkið aldrei hjá áhættu, t. d. af því fé, sem það á, beinlínis og óbeinlínis, í bankanum. Þó að ég greiði frv. atkv. til 2. umr., er langt á milli minnar skoðunar og hæstv. stj. í þessu máli. Ég verð þó að viðurkenna, að hæstv. stj. er á réttri leið, þar sem matið er.