15.02.1930
Efri deild: 26. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1836 í B-deild Alþingistíðinda. (2470)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Jón Þorláksson:

Mér finnst þetta mál, sem hér liggur fyrir, svo mikilvægt, að þurft hefði talsvert ítarlegri grg. fyrir því en hæstv. fjmrh. gerði í framsöguræðu sinni. Það má kannske virðast, að mér beri öðrum fremur að gera grein fyrir því, þar sem ég á sæti í bankaráðinu, en formaður þess, hæstv. forsrh., er hér eigi viðstaddur.

Ég ætla þá fyrst að fara nokkrum orðum um stöðu bankans í þjóðfélaginu. Íslandsbanki var stofnaður með lögum 7. júní 1902, er síðan voru endurnýjuð með dálitlum breyt. 10. nóv. 1905, Reglugerð fyrir bankann var gefin út 25. nóv. 1903. Samkv. stofnlögunum og reglugerð bankans var æðsta stj. hans í höndum 7 manna fulltrúaráðs, ráðherra Íslands sjálfkjörinn formaður, 3 fulltrúar kosnir af Alþingi og 3 af hluthöfum. Meiri hl. yfirstjórnarinnar var þannig skipaður af íslenzkum stjórnarvöldum, minni hl. af eigendum hlutafjárins. Um framkvæmdarstjórn bankans var svo ákveðið (24. gr. reglug.), að fulltrúaráðið kýs hana og ákveður, hve margir séu í henni. Þó skyldi hin fyrsta framkvæmdarstjórn kosin af stofnendum bankans til 9 ára. Ráðherranum (formanni bankaráðsins) var veitt sérstakt vald til eftirlits með bankanum, þ. á. m. til að fella úr gildi sérhverja ályktun aðalfundar, er honum þykir koma í bága við tilgang bankans. Bankinn fékk einkarétt til seðlaútgáfu, umfram tiltekna litla upphæð, sem Landsbankanum var leyfð. Hann var þannig seðlabanki undir opinberri stjórn að meiri hluta. Með heiti bankana var þessi staða hans sem opinber banki enn frekar undirstrikuð og auglýst út á við.

Á þessum grundvelli starfaði bankinn til 1921. Þá var hann kominn í kröggur, og var með lögum nr. 6, 31. maí 1921, ákveðið, hvernig ráða skyldi fram úr þeim. Ráðgert var að auka hlutafé bankans, sem þá var orðið 4½ millj. kr., um 100% með framlagi úr ríkissjóði, að undangengnu mati. Úr því varð þó ekki, en í stað þess veitti ríkissjóður bankanum lán, um 280 þús. sterlingspd., af „enska láninu“ frá 1921. En jafnframt veitingu þessara hlunninda var vald íslenzkra stjórnarvalda yfir bankanum enn aukið með því að ákveða, að 2 af þrem framkvæmdarstjórum bankans skyldu skipaðir af ríkisstj. beinlínis. Seðlaútgáfuréttinum var bankinn látinn halda, en ákvæði sett um það, á hvern hátt hann smámsaman skyldi hverfa úr höndum bankans, unz leyfistíminn væri á enda í árslok 1933. Bankinn er þannig ennþá seðlabanki, og er nú svo algerlega undir opinberri stjórn, að íslenzk stjórnarvöld skipa fulltrúaráð hans að meiri hluta; þetta fulltrúaráð skipar einn bankastjórann, en ríkisstjórnin beinlínis hina tvo.

Í frv. því, sem hér liggur fyrir, er þessi afstaða bankans, sem opinber íslenzk stofnun, ennþá undirstrikuð svo kröftuglega sem unnt er. Frv., sem ráðuneytið hefir látið semja og fylgt fram sem stjórnarfrv. væri, ákveður, að öll skiptameðferð bankans skuli framkvæmd af 3 mönnum, sem fjármálaráðherra skipar. Hvorki hluthöfum né kröfuhöfum er ætlaður nokkur réttur. Hina siðferðislegu ábyrgð á þeim töpum, sem hljóta að koma fram við skiptin og stafa beinlínis af því, að bankinn er ekki látinn lifa, heldur tekinn til skipta, þá ábyrgð á eftir frv. að leggja algerlega og eingöngu á bak íslenzku stjórnarinnar. Auðvitað getur þetta ekki réttlætzt af neinu öðru en því, að bankinn sé einnig hér heima skoðaður sem algerlega opinbert fyrirtæki. Að sú skoðun sé ríkjandi í fjármálaheiminum utan Íslands, er alveg ljóst af símskeytum þeim, sem borizt hafa út af bankalokuninni, og síðar verður vikið að.

Þá vil ég næst minnast á áhrif stöðvunar bankans á atvinnulífið.

Heyrzt hefir, að einstöku menn ímyndi sér, að stöðvun bankans muni ekki valda miklum erfiðleikum fyrir atvinnulíf þjóðarinnar, af því að bankinn hafi svo lítið laust starfsfé. Það litla, sem hann hafi, fái hann aðallega frá Landsbankanum; þetta geti Landsbankinn alveg eins lánað beint út frá sér, og þá muni atvinnulífið geta gengið svipað og áður.

En þetta er því miður herfilegasti misskilningur, alveg öfug hugsun. Ef Íslandsbanki ætti allt það fé, sem honum hefir verið trúað fyrir, laust sem kallað er, þ. e. ekki fast í innlendum fyrirtækjum, þá gæti hugsazt, að stöðvun bankans þyrfti ekki að lama atvinnulífið. En einmitt af því að fé bankans er fast, þ. e. stendur í útlánum til íslenzkra atvinnurekenda, þá hlýtur stöðvun bankans að valda stórkostlegu tjóni. Frv. fer fram á að taka bankann til skiptameðferðar, og það er sama sem að innheimta útlán hans og skila fénu til skuldheimtumanna bankans: Það er heimtað af atvinnuvegum landsins, að þeir á tiltölulega skömmum tíma standi skil á öllu því lánsfé frá Íslandsbanka, sem nú stendur fast í þeim. Það er vert að athuga, hve miklar upphæðir þetta eru, og hvað verður af fénu, ef skuldunautar bankans geta staðið skil á því.

Útlán Íslandsbanka hér innanlands voru í árslok 1928 um 32¼ millj. kr. Af þessu fé er sem næst 1/3 hluti, eða um 10 millj. ísl. kr., eign þriggja erlendra aðalskuldheimtumanna, sem eru ríkissjóður Danmerkur, Privatbanken í Khöfn og Hambrosbanki í London. Nálægt öðrum þriðja hluta, eða um 9–10 millj. kr., er eign tveggja innlendra aðalskuldheimtumanna, Landsbankans um 4–4½ millj. kr. og ríkissjóðs (af enska láninu) um 5½ millj. kr. Loks er síðasti þriðji hlutinn, um 10 millj. kr., eign almennings þess, sem skiptir við bankann og útibúin, þ. e. sparisjóðsfé, innlánsfé, innstæður á hlaupareikningum og innieignir á reikningslánum. Af þessum 10 millj. er sem stendur um 1 millj. eign erlendra banka (innieignir á hlaupareikningum þeirra). — Fyrir utan útlán sín á bankinn seðlatryggingu, verðbréf, fasteignir m. m. fyrir 6–7 millj. kr. eftir bankareikningunum, og nægja þessar eignir fyrir seðlaskuldinni og ýmsu smávegis, sem ekki er ástæða til að greina nánar í þessu sambandi.

Skiptin þýða þá fyrst og fremst það, að skuldunautar bankans verða að svara út yfir 30 millj. kr. á þeim tíma, er skiptin standa yfir, og væntanlega ætti þó ekki að vera nema 3–4 ár. Auðvitað getur þetta ekki gerzt nema á tvennan hátt: Annaðhvort verður að ganga að skuldunautunum og selja eignir þeirra (fasteignir, skip, verzlunarvörur o. s. frv.) til lúkningar skuldunum, eða þeir verða að fá ný lán til þess að geta greitt skuldir sínar til Íslandsbanka. Í báðum tilfellum ber að skila þriðjungi upphæðarinnar til útlanda jafnharðan. Yfirfærslur þessara upphæða leggjast á Landsbankann, í viðbót við allar venjulegar yfirfærslur, eða veltufé það, sem landsmenn hafa til umráða, minnkar í einni svipan um h. u. b. 10 millj. króna. Það er mjög mikil hætta á því, að þessi blóðtaka yrði Landsbankanum ofurefli, nema tekin yrðu ný erlend lán handa honum — en að því kem ég síðar.

Hinu þarf naumast að lýsa, hvílík gjaldþrot, stöðvun á heilbrigðum atvinnurekstri og atvinnuleysi fyrir starfsfólk og verkafólk leiðir þá af því, ef taka á eignir fyrir 30 millj. kr. og selja þær, jafnframt því sem eigendur þeirra verða sviptir öllu rekstrarfé meðan eigendaskipti eru að komast í kring. Enginn þarf að halda, að sú kreppa hitti þá eina, sem nú eru skuldunautar Íslandsbanka. Þegar önnur eins innheimta er á ferðinni, verður hver fyrst og fremst að ganga að sínum skuldunautum, og má óhætt fullyrða, að ekkert mannsbarn í landinu fer varhluta af þeim vandræðum — nema málaflutningsmennirnir. Það rennur upp ný gullöld fyrir þá. Verðhrun á eignum, atvinnuleysi, rýrnun ríkistekna og hverskonar fjárhagsböl, sem nafni tjáir að nefna, verður afleiðingin af starfi þeirrar „skilanefndar“, sem eftir þessu frv. á að taka bú bankans til skiptameðferðar.

Af þeim 2/3 hlutum hins innheimta fjár, sem ekki á beinlínis að fara til útlanda, er hluti ríkissjóðs, 5½ millj. kr., samningsbundið erlent lán, sem einnig verður að standa skil á til útlanda smám saman. Af innstæðufénu innlenda, um 9 millj. kr., fer sjálfsagt eitthvað í Landsbankann, en hin almenna kreppa, sem skiptameðferð bankans orsakar, mun þó gera það að verkum, að talsvert af þessu fé tapast, sumt gengur til þurrðar hjá eigendunum vegna örðugleika þeirra, og einhverjum kann að þykja vissara að flytja til útlanda þær leifar, sem bjargast úr hruninu.

Þá skal ég næst víkja að því, hver áhrif stöðvun bankans muni hafa á lánstraust landsins.

Lánstraust íslenzku þjóðarinnar hefir fram að þessu staðið á völtum fótum, og veldur þar margt um. Hnattstaða landsins þykir óhagstæð, hér er talin hætta á skemmdum af eldgosum og jarðskjálftum, og útlendingar telja þá hættu miklu meiri en hún í raun og veru er, því að símað er út um allan heim hvenær sem slíkt kemur fyrir, venjulega ýkt í fyrstu, en þess eigi gætt, að skemmdir koma sjaldan fyrir í byggð, og þá eigi stórfelldar. Þá er og alkunnugt, að hér hefir fram að þessu búið sárfátæk þjóð. Ástæðurnar geta verið fleiri, en til sönnunar þeirri staðhæfingu, að lánstraustið standi á völtum fótum, þarf ég ekki annað en minna á, hvernig ástatt var, þegar stjórnarskiptin urðu í marz 1924. Þá var nýbúið að semja um lán handa Landsbankanum í London, 200 þús. sterl.pund. Það gekk erfiðlega að fá þetta lán, og það fékkst einungis gegn ákveðnum loforðum þáverandi forsrh. (SE) um, að ekki skyldi verða beðið um meiri lán handa Íslandi á næstunni. Næstu árin batnaði lánstraustið, af því að hinar óvenjumiklu afborganir af ríkisskuldum 1924 og 1925 vöktu talsverða athygli í fjármálaheiminum, þóttu bera vott um, að við bæði vildum standa í skilum og gætum það.

Sýnilegur vottur hins aukna trausts var það, að þar sem hið enska lán Landsbankans frá ársbyrjun 1924 var með 6½% vöxtum og 6% afföllum auk nokkurs kostnaðar, eða útborgun lítið ofan við 90%, þá fengust lán þau, sem tekin voru til kaupa á veðdeildarbréfum Landsbankans árin 1926 og 1927, mestöll með vöxtum 5% og útborgun 93 til 90,75%.

Það er auðvelt að glata þessu lánstrausti aftur. Ég benti á hættuna fyrir lánstraust landsins, sem stafa mundi af stöðvun Íslandsbanka, þegar í byrjun næturfundarins í sameinuðu þingi aðfaranóttina 3. febr. Einar Árnason fjármálaráðherra reis þá upp til að lýsa því, að hann væri mér svo gersamlega ósammála um þetta, að hann áliti þvert á móti, að álit okkar út á við styrktist við þessa ráðstöfun. Ég verð að athuga þessa hlið málsins sérstaklega.

Þótt Íslandsbanki, eftir öllum upplýsingum, sem enn liggja fyrir, eigi fyrir skuldum, ef hann fær að lifa og halda áfram starfrækslu sinni, þá má telja víst, að tap verði undir þrotabússkiptum þeim, sem frv. fer fram á. Allir erlendu skuldheimtumennirnir munu bíða tjón við þetta, ríkissjóður Dana og bankar þeir, sem hér eiga samtals 1 millj. kr. á hlaupareikningi, tiltölulega mest, þar næst einnig Hambrosbanki og Privatbanken. Þetta verður í fyrsta skipti, sem útlendingar (ríki og bankar) bíða tjón af viðskiptum við opinbera íslenzka stofnun. Og ekki mun það auka traustið á okkur út á við, að hinir tveir innlendu aðalskuldheimtumenn, ríkisstjórnin og Landsbankinn, hafa notað vald sitt yfir bankanum og aðstöðu sína til þess að tryggja sínar kröfur að fullu með handveðum, svo að þeir taka engan þátt í tapi bankans, þótt hann verði tekinn til skiptameðferðar. Slík aðferð mun tæpast verða álitin heiðarleg meðal fjármálamanna.

Sannanir fyrir því, að stöðvun bankans muni stórspilla lánstrausti landsins og innlendra stofnana eru því miður komnar fram.

Sejersted Bödtker bankaráðsmaður í Oslo, einn af velmetnustu fjármálamönnum í Noregi og umboðsmaður Hambrosbanka þar í landi, símar 3. febr. þannig til stjórnar Íslandsbanka:

„Bankens indstillning vil anrette ubotelig skade for Islands kredit her. Dette er mit alvorlige indtryk efter at ha konfereret med ledende banker her“.

Á íslenzku: „Stöðvun bankans mun valda óbætanlegu tjóni fyrir lánstraust Íslands hér. Þetta er alvarleg skoðun mín eftir að ég hefi borið mig saman við forystubankana hér“.

Charles Hambro, annar forstjóri Hambrosbanka í London, símar Eggert Claessen bankastjóra s. d. (3/2): „Wish to impress the serious effect to countrys credit here if your bank with 3 nominees of government on board failed especially in a year so important to Iceland“.

Á íslenzku: „Ég vil leggja áherslu á hinar alvarlegu afleiðingar fyrir lánstraust landsins hér, ef banki yðar, með 3 stjórnskipuðum bankaráðsmönnum, fer yfir um, sérstaklega á ári, sem er svo þýðingarmikið fyrir Ísland“.

Sir Eric Hambro, eldri forstjóri Hambrosbanka, í röð fremstu fjármálamanna í London og herraður af Englandskonungi fyrir aðstoð brezku stjórninni til handa í fjármálum, símar forsætisráðherranum okkar 4. febr. þannig:

„Situation Islandsbanki very seriously regarded London and elsewhere owing to constitution of its board. Credit of government and all icelandic institutions are affected. Do most atrongly urge you in interest countrys credit to take strong measures immediately reopen bank and reassure foreign creditors. If we can be of assistanee in granting credit under government garantee .... in order keep bank open pending reorganisation please wire giving all details“.

Á íslenzku: „Í London og annarsstaðar þykir mjög ískyggilegt, hvernig komið er með Íslandsbanka, vegna þess hvernig fulltrúaráð hans er skipað. Þetta hefir áhrif á lánstraust ríkisstjórnarinnar og allra íslenzkra stofnana. Ég legg sem fastast að yður vegna lánstrausts landsins að gera öflugar ráðstafanir til þess að opna bankann aftur tafarlaust og gera hina erlendu skuldheimtumenn rólega. Ef vér getum verið til aðstoðar með því að veita lán gegn stjórnarábyrgð .... til þess að halda bankanum opnum meðan endurskipun hans stendur yfir, þá gerið svo vel að síma oss og gefa nánar upplýsingar“.

Sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn símar til forsætisráðherra 4. febr. m. a.: „Annars rökstutt álit mitt fullnaðarlokun bankans mundi valda stórtjóni lánstrausti Íslands hér (og í) öðrum löndum“.

Charles Hambro símar aftur 5. febr. til Eggerts Claessens bankastjóra:

„Our anxiety which we again express is that delay reopening bank may do irreparable harm to icelandic credit“.

Á íslenzku: „Vér viljum aftur láta í ljós, að það, sem vér óttumst, er, að frestun á opnun bankans kunni að valda óbætanlegum skaða fyrir lánstraust Íslands.

Loks er mér kunnugt um, að Charles Hambro hefir símað til Magnúsar Sigurðssonar bankastjóra við Landsbankann þess efnis, að í öllum fjármálamiðstöðvum Norðurálfunnar (centres) sé Íslandsbanki álitinn opinber stofnun, og að hrun hans muni hættulegt fyrir lánstraust Íslands og íslenzkra stofnana. Skeyti þetta get ég því miður ekki birt orðrétt að svo stöddu, og er þó sjálfsagt, að það komi fram.

Til frekari skýringar á þessum skeytum þarf ég svo einungis að geta þess, að Hambrosbanki í London er sérstaklega banki fyrir viðskiptin milli hins brezka fjármálaheims og Norðurlanda, þar á meðal Íslands. Engar lánveitingar fást frá Bretlandi til Norðurlanda, ef þessi banki setur sig á móti. Bankastjórarnir Sir Eric og Charles Hambro hafa alveg lyklaráðin að brezkum lánveitingum til Norðurlanda, og með þeirri nánu samvinnu, sem er á milli hins brezka og hins ameríska fjármagns, má reiða sig á, að þeir hafa einnig lyklavöldin að hinu síðastnefnda. Þessir menn hafa verið Íslandi sérstaklega velviljaðir, og þeim er það manna mest að þakka, að bein viðskipti milli bankanna hér og banka í London hafa gengið greiðlega hin síðari árin.

En hvað þýðir nú þetta tjón fyrir lánstraust Íslands, sem auðsjáanlega og eftir öllum þessum óvenjulega ákveðnu viðvörunarskeytum leiðir af fullnaðarlokun Íslandsbanka? Það getur þýtt tvennt: Annaðhvort, að traustið bili svo algerlega, að vér getum ekki fengið nauðsynleg lán, eða þá, að lán fást einungis gegn hækkuðum vöxtum og óvenjulegum tryggingum.

Ef lánstraustsspjöllin ganga svo langt; að ríkið og ríkisstofnanir geta eigi fengið lán erlendis, þá verður afleiðingin sú, að Landsbankinn fer sömu leiðina á eftir Íslandsbanka. Fjármálaráðherra leggur nú til að slátra Íslandsbanka eftir nærfellt þriggja ára óslitið góðæri. Nú er árferði atvinnuveganna hér á landi óvenjulega misjafnt. — Það má fullyrða, að Landsbankinn stenzt hvorki nú eða í náinni framtíð tveggja til þriggja ára örðugt árferði án þess að fá lán erlendis. Fáist það ekki, þá brestur geta hans til að halda gjaldeyri landsins í verði, krónan hrapar, hvort sem búið er að verðfesta hana með lögum eða ekki. Afleiðingarnar af slíku hruni vil ég ekki uppmála; þær eru svo hræðilegar.

En nái lánstraustsspjöllin ekki svona langt, heldur verði farið með okkur líkt og önnur ríki, sem lent hafa í vanskilum, en eru þó talin eiga sér viðreisnarvon, þá er að líta á þau fordæmin. Eitt þeirra ríkja í Norðurálfunni, sem þannig hefir farið fyrir, er Grikkland. Um sama leyti sem verið var að taka lánin til kaupa á veðdeildarbréfum 1927, fyrir nafnvexti 5% og raunverulega vexti liðlega 6%, var verið að taka lán í Englandi handa ríkisfasteignabanka Grikklands, fyrir raunverulega vexti kringum 10% og gegn sérstökum tryggingum. En þegar þessi vanskilaríki þurfa að fá lán handa ríkissjóðum sínum sjálfum, þá er heimtað veð í tilteknum tekjustofnum, og settur maður eða menn af hendi lánveitenda á ríkisins kostnað til eftirlits með fjármálum þeirra, og þá eru þau ekki lengur frjáls um skattalöggjöf sína eða útgjöld samkv. fjárlögum.

Því hefir verið hreyft, að komast mætti hjá þessu tjóni með því að ríkissjóður tæki að sér að greiða skuldir bankans til útlanda. Þessi leið, að drepa bankann fyrst og láta svo ríkissjóð borga erlendar skuldir hans, er alveg ófær. Í fyrsta lagi væru þetta útlát fyrir ríkissjóð, sennilega upp á nokkrar millj. Í öðru lagi mundi engin þingræðisstjórn treysta sér til að láta ca. 10 þús. innlenda innstæðueigendur tapa af innstæðufé sínu, og bæta því þar á ofan að láta þessa skattborgara taka á sig byrðar til að greiða útlendingunum að fullu. Og í þriðja lagi mundi þetta aldrei hafast í gegnum þingið fyrr en löngu eftir að lánstraustsspjöllin þættu orðin óbærileg, og þá mundi það ekki koma að notum til þess að bjarga heiðri vorum og trausti í framtíðinni. Við stæðum þá einungis eins og sá vanskilamaður, sem sýnt hefir fullan vilja á sviksemi, þótt greiðsla hafi kúgazt úr honum að lokum. Með slíkum skilum endurreisa menn ekki fallna tiltrú.

Stöðvun bankans leiðir út í ógöngur, frá hvaða hlið sem litið er á málið. Það verður að snúa til baka og bjarga bankanum, og þetta er unnt að gera án þess að nokkur þurfi að tapa neinum eyri, aðrir en hinir gömlu hluthafar, sem sjálfsagt hafa þegar tapað miklu af hlutafé sínu, hvernig sem fer — um það er ég sannfærður.

Ég skal reyna að vera stuttorður um aðdragandann að núverandi fjárþröng bankana, sem lokuninni olli, því að ýmislegt úr þeirri sögu hefir áður verið sagt.

Íslandsbanki hefir tvisvar áður komizt í kreppu. Fyrst árin 1920–21, og var ráðið fram úr því með lögunum um hlutafjáraukann frá 31. maí 1921, sem því miður voru ekki framkvæmd eins og helzt var til ætlazt, og komu bankanum því ekki að nægilegum notum. Það var bein afleiðing af ástandi bankans þá, og löggjöfinni, sem sett var um hann, að hann þurfti að draga sig saman, minnka útlán sín smám saman. Bankareikningarnir sýna, hvernig þetta hefir tekizt. Eiginleg útlán bankans og útibúanna voru:

31. des. 1921 .......... 42.9 millj. kr.

— — 1925 ............. 39.8 — —

— — 1926 ............. 37.1 — —

— — 1927 ............. 33.3 — —

— — 1928 ………. 32.2 — —

Það er auðséð, að bankinn hefir verið á réttri leið hvað þetta snertir, og mun lækkun útlánanna stafa jöfnum höndum af því, að arði bankans hefir verið varið til afskrifunar á ófáanlegum lánum, og af því, að dregið hefir verið inn af tryggum lánum.

Á árunum 1926 og 1927, aðallega fyrra árinu, varð bankinn fyrir því óláni, að vegna ógætilegs umtals og óróa minnkaði innlánsfé og hlaupareikningsinnstæður um 7 millj. kr. Árið 1928 hækkaði þetta aftur um 1 millj. kr. Út af þeirri kreppu, sem þetta bakaði bankanum, fékk hann snemma á árinu 1927 1 millj. kr. að láni frá Landsbankanum af hinu svonefnda dollaraláni, reikningsláni, sem Landsbankinn tók í New York snemma árs 1927. Sem trygging fyrir þessu láni fékk Landsbankinn víxil, sem nefndur hefir verið dollaravíxillinn, frá Íslandsbanka, og sem handveð fyrir honum víxla frá viðskiptamönnum Íslandsbanka. Ennfremur hafði bankinn fengið víxiltryggt hlaupareikningslán, að hámarki 3 millj. 365 þús. kr., hjá Landsbankanum á árunum 1922–'25, aðallega vegna inndráttar á 3 millj. kr. af seðlaveltunni.

Það hefir verið borið fram til stuðnings niðurlagningu Íslandsbanka nú, að hann hafi tvisvar komizt í kröggur áður. Þetta er nú ekkert einsdæmi. Landsbankinn hefir komizt jafnoft í kröggur og þurft jafnoft á ríkishjálp að halda áður en honum með landsbankalögunum 1928 var veitt fullkomin ríkisábyrgð. Það eru auðvitað skakkaföll atvinnuveganna, sem speglast í kröggum bankanna.

Síðustu árin hefir Íslandsbanki haft sem svarar h. u. b. 2/3 af hinni eiginlegu útlánafúlgu frá 5 aðallánveitendum: Tiltölulega eða alveg föst afborgunarlán frá ríkissjóði Íslands, ríkissjóði Danmerkur og Privatbanken, og hlaupareikningslán að miklu leyti eða hreyfanleg rekstrarlán frá Landsbankanum og Hambrosbanka. Þrjú föstu lánin og afborganir af þeim hafa verið frá árslokum 1926 til ársloka 1929:

Ríkissjóður Íslands (enska lánið):

Árslok 1926 ....... ísl. kr. 5.866.502,77

— 1929 ........ — — 5.567.985,68

Mismunur, afborgun kr. 298.517,09

Ríkissjóður Danmerkur (póstféð):

Árslok 1926 ........ d. kr. 4.565.024,70

— 1929 ......... — 3.900.000,00

Mismunur, afborgun kr. 665.024,70

Privatbanken :

Árslok 1926 ........ d. kr. 3.033.009,09

— 1929 ......... — 2.320.805,88

Mismunur, afborgun kr. 712.203,21

Um viðskiptalánin er það að segja, að hámark reikningslána hjá Hambrosbanka hefir eigi lækkað. Samningarnir um þau munu hafa verið þannig, að það skyldi borgast upp einu sinni á hverju ári, einhverntíma á tímabilinu frá 1. apríl til 1. apríl, en má svo fara upp í umsamið hámark aftur.

Um lán Landsbankans er það að segja, að á síðastl. ári krafðist Landsbankinn greiðslu á dollaravíxlinum svonefnda (1 millj. kr.). Hann fékk helminginn (500 þús. kr.) greiddan, en samþykkti síðustu dagana í janúar að framlengja hinn helminginn. En þess utan notaði Landsbankinn aðstöðu þá, er seðlainndráttur Íslandsbanka, 31. okt., veitti honum, til þess að færa niður eldri viðskiptaskuld og hlaupareikningsskuld, sem Íslandsbanki var í, um 625 þús. kr. Þegar ég segi þetta, gef ég þá skýringu á þessu atriði, sem Landsbankastjórnin heldur fram. Ég ætla ekki að fara út í það hér, hvort Landsbankinn hefir haft löglega aðstöðu um þessar 625 þús. nr., sem Íslandsbanki fór fram á við Landsbankann, að hann léti sig fá. Þar heldur hver fram sínum skilningi. En landsbankastjórnin álítur, að þetta eigi að nota til þess að lækka eldri hlaupareikningsskuldir um 625 þús. kr., sem Íslandsbanki dró inn af seðlum umfram seðlatryggingu.

Það er þá svo, að í viðskiptunum við Landsbankann hefir hámarkið lækkað á árinu um 1 millj. í 25 þús. kr. Þó skal ekki sagt nema önnur smávægileg viðskipti bankanna haggi þessari tölu ofurlítið.

Það hefir verið bent á þennan skuldainndrátt Landsbankans sem eina af ástæðunum, ef ekki aðalástæðuna, til þess að Íslandsbanki lenti í þeirri sjóðþröng nú um síðustu áramót, sem leiddi til lokunar hans. Ég ætla engan dóm að leggja á þetta. Það getur hafa verið af öðrum ástæðum. Þetta er hvorki upplýst eða rannsakað. Hugsanlegt er, en ekki upplýst, að bankastjórar Íslandsbanka hafi verið ríflegri á útlán en kringumstæður bankans leyfðu, án þess ég sé að gefa það í skyn, að þeir hafi veitt ótrygg lán. Um slíkt er ekkert upplýst, nema þau mistök, sem viðurkennt er, að hafi átt sér stað á síðastl. árum við útibúið á Seyðisfirði. Ég vil engan dóm leggja á þessa hlið málsins. Hún er ekki nægilega upplýst ennþá.

Eins og kunnugt er, bar lokun bankans þannig að, að mánudaginn 3. febr. treysti bankastjórnin sér ekki til þess að opna bankann, vegna þess, að sjóðurinn var þá því nær tómur, en nokkur ástæða til að óttast, að gerðar myndu verða venju fremur kröfur um útborganir, ef bankinn yrði opnaður.

Bankastjórarnir auglýstu því, upp á sitt eindæmi, að bankinn væri lokaður þann dag. Var svo haldinn bankaráðsfundur þann dag um það, hvort loka skyldi til fulls. En framkvæmdarstjórnin þóttist ekki hafa vald til þess. Fullnaðarlokun var ekki ákveðin, heldur samþ. bankaráðið einungis, að það gæti ekki ætlazt til þess, að bankastj. opnaði bankann aftur, nema hún fengi tryggingu fyrir því, að starfsemi bankans yrði haldið áfram óhindrað. Við þetta stendur ennþá af hálfu stjórnarvalda bankans. En það hafði þá sólarhring áður verið hafinn undirbúningur að því verki, sem sjálfsagt þótti að reyna að koma í kring, sem sé endurreisn bankans. Undirbúningur þessi byrjaði með því, að formaður bankaráðsins gekkst fyrir því að fá æfðan mann ásamt bankaeftirlitsmanninum til þess að skoða hag bankans. Þessi maður var Pétur Magnússon bankastjóri og hæstaréttarmálaflm. Hann áskildi sér, áður en hann gekk til starfsins, að það yrði leyfður til þess sá tími, sem hann teldi sig þurfa, og tók verkið að sér með því skilyrði. En það fór nú svo, að þessir menn skiluðu áliti eftir sólarhrings vinnu í bankanum, og hafa gert þá grein fyrir því, að þeir hafi getað komizt yfir það nauðsynlegasta á þessu tímabili, með því að styðjast við eldri skoðanir á bankanum og þau skjöl, sem fyrir lágu frá þeim, svo og við skoðun, sem nýlega hefir farið fram á útibúunum, sérstaklega á Seyðisfirði.

Að afloknu þessu verki gáfu þeir yfirlýsingu, sem ég leyfi mér að lesa upp í afriti :

„Samkvæmt tilmælum forsætisráðherra og bankastjórnar Íslandsbanka höfum við undirritaðir undanfarinn sólarhring athugað, svo sem föng voru á, viðskipti og skuldatryggingar allra meiriháttar viðskiptamanna við aðalsetur Íslandsbanka, með hliðsjón af rannsókn meðundirritaðs bankaeftirlitsmanns frá árinu 1926. Eftir þessa athugun á viðskiptum aðalbankans og samkv. upplýsingum bankastjórnar og því, sem að öðru leyti liggur fyrir um útibú bankans, þar á meðal skoðunargerð setts bankaeftirlitsmanns á útibúinu á Seyðisfirði frá síðastl. hausti, virðist okkur, að muni láta mjög nærri því, að bankinn eigi fyrir öllum skuldum að frátöldu hlutafé. Er þetta álit miðað við það, að bankinn geti haldið áfram störfum sínum á eðlilegan hátt.

Reykjavík, 2. febrúar 1930.

Jakob Möller. Pétur Magnússon“.

Ég þarf ekki að skýra frá því, sem gert hefir verið hér á þingi í þessu máli. Hæstv. fjmrh. lét þegar daginn áður en bankanum var lokað byrja á samningu frv. þess, sem nú liggur hér fyrir, og bar það svo undir þingflokkana um miðjan dag á mánudag 3. febrúar, fyrsta daginn, sem bankinn var lokaður. Úr annari átt hafði komið fram áður uppástunga, sem ekki náði samþ. Nd. og ég þarf ekki að fara frekar út i. En eftir að það þótti sýnt, að þær till. til viðreisnar bankanum, sem bornar hafa verið fram hér á þingi, mundu ekki ná framgangi, þá þóttist bankaráðið — eða fulltrúaráðið, sem það heitir — ekki geta annað gert heldur en reyna að taka í sínar hendur forgöngu að því að mynda einhvern grundvöll fyrir endurreisn bankans, sem von væri, að samkomulag næðist um. Sendiherra okkar í Kaupmannahöfn hafði ótilkvaddur — að því er ég bezt veit — eina af fyrstu dögunum eftir að bankanum var lokað hreyft því í símskeyti til hæstv. forsrh., mjög varlega og án allra skuldbindinga, hvort ekki væri hugsanlegt að endurreisa bankann á tilteknum grundvelli, sem hann þar gerði mjög lauslega grein fyrir. Út af þessu samþ. svo bankaráðið á fundi 10. þ. m. till. á þessa leið:

„Bankaráðið samþykkir að gera tilraun til endurreisnar bankanum á þeim grundvelli, að leitað sé til hinna erlendu aðalskuldheimtumanna um stuðning til endurreisnarinnar, þar á meðal sérstaklega til Hambrosbanka og Privatbankans um framlög á forgangshlutafé. Jafnframt sé leitað til ríkisstjórnarinnar og Alþingis um nauðsynlega þátttöku í endurreisninni, þar á meðal um framlag forgangshlutafjár og útvegun nauðsynlegs rekstrarfjár einnig og að öðru leyti.

Jafnframt ber bankaráðið fram þau tilmæli til forsætisráðherra, að hann leyfi Sveini Björnssyni sendiherra að veita aðstoð sína sem milligöngumaður milli bankaráðsins og hinna erlendu aðalskuldheimtumanna“. — Þetta leyfði hæstv. forsrh. mjög greiðlega og góðfúslega, og það voru kosnir tveir menn úr bankaráðinu til þess fyrir bankaráðsins hönd að vera í fyrirsvari um þessa málaleitun. Þessar umleitanir gengu fyrst og fremst út á það, að útvega bankanum forgangshlutafé. Og ég get að svo stöddu ekki sagt annað eða meira en það, að það eru fremur góðar horfur á því, bæði utanlands og innanlands, að þetta muni takast. Það er ekki ennþá komið svo langt, að hægt sé að bera neinn samkomulagsgrundvöll í frv.formi fram í þinginu, en ég fyrir mitt leyti hefi fasta von um, að ekki líði á löngu áður en það verði unnt. Hinsvegar hefir nú hæstv. fjmrh., eins og kunnugt er, í gær látið byrja nýja skoðun á bankanum, af þremur mönnum, sem hann hefir til þess nefnt og ætlazt er til, að hafi rýmri tíma heldur en þeir menn, sem framkvæmdu skoðunina í byrjun febrúarmánaðar. Mér finnst ekki vera á nokkurn hátt nauðsynlegt — og ekki heldur forsvaranlegt af þinginu — að afgreiða lög eins og frv. það, sem hér liggur fyrir, um skiptameðferð á bankanum, meðan þessar umleitanir standa yfir og meðan enn er frekar góð von um, að þær muni bera árangur. Enda hefir bankaráðið, eins og ég gat um í gær, á þessum sama fundi sínum 10. febr. beint þeirri ósk til Alþingis, að það afgr. ekki endanlega frv. til laga um skiptameðferð bankans, meðan þessi rannsókn stendur yfir, sem nú er hafin. Og þótt það standi ekki í till., þá er það þó svo, að bankaráðið hafði einnig í huga þær umleitanir um framlög til endurreisnar bankans, sem það hefir til meðferðar.

Ég álít nú, að eftir því sem þessu máli er komið, væri því bezt stýrt með því, að frv. yrði vísað til n. hér í hv. deild. Sú nefnd gæti, þegar tímabært þætti, borið sig saman bæði við þá menn, sem nú eru að framkvæma skoðun á bankanum, og sömuleiðis við bankaráðið, að því er snertir þessar umleitanir um fjárframlög til viðreisnar bankanum, sem það hefir á hendi. Það mun — eftir því sem ég hefi heyrt — vera tilætlun hæstv. stj. hvort sem er að nota þá heimild, sem í frv. felst, til þess að láta skiptameðferð ekki byrja fyrr en 1. marz, eða a. m. k. ekki fyrr en skoðun er lokið, og þá væntanlega ekki heldur fyrr en séð er, hvort sómasamleg framlög fást til viðreisnar bankans, eftir að skoðunin er komin í ljós. Og ef það er svo, að hæstv. stj. hugsar sér ekki að byrja þessi skipti fyrr en 1. marz, þá. finnst mér ekki rétt að láta þetta frv. verða að lögum fyrr en til þess þarf að taka að nota það. Því að það er æðierfitt og umstangsmikið og þarf ákaflega gott samkomulag til þess að unnt verði svo aftur allra síðustu dagana í þessum mánuði að koma nýrri löggjöf í gegnum allt þingið, til þess að fella úr gildi ráðstafanir þessa frv., ef tekst að fá samtök um að endurreisa bankann.

Ég leyfi mér því að gera að till. minni, að þessu máli verði vísað til 2. umr. og nefndar. Sérstök n. var kosin í því í Nd. Ég legg enga áherzlu á, hvort það verður gert hér eða því vísað til þeirrar n., sem málið samkv. þingsköpum heyrir undir, sem er fjhn.