15.02.1930
Efri deild: 26. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1877 í B-deild Alþingistíðinda. (2475)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Fjmrh. (Einar Árnason):

Hv. 3. landsk. þm. var að andmæla því, sem hér hefir komið fram, að ef þetta frv. hefði verið komið í gildi, þá hefði ekki þurft að afgreiða þá ábyrgðarheimild, sem hér var afgr. í gær. Í þessu sambandi vildi ég þó enn benda hv. þm. á það, sem ég efast um, að hann hafi komið auga á, að ef skiptanefnd hefði verið komin og tekin við bankanum, þá hefði hún haft heimild til að gefa t. d. Landsbankanum eftir veð eða tryggingar (JÞ: Svo-o!), sem Íslandsbanki hefir, gegn því, að Landsbankinn láni þeim fyrirtækjum, sem hér er um að ræða. Það er auðvitað, að það þurfti eitthvert vald til þess, að geta gefið eftir veð í byrjun, meðan fyrirtækin voru að komast af stað og mynda þá framleiðslu, sem Landsbankinn gæti síðan fengið til tryggingar fyrir lánum, sem hann veitti þeim. Bankastjórn Landsbankans hefir lýst yfir því öll í einu hljóði, að hún treysti sér ekki til að taka nýja viðskiptamenn og lána þeim fé án þess að hafa nokkra tryggingu fyrir. Smám saman mundu þessar tryggingar geta horfið aftur til Íslandsbanka, þegar framleiðslufyrirtækin, t. d. bátaútgerðir, væru búin að koma afla sínum á land eða skapa aðrar seljanlegar afurðir, sem bankinn gæti tekið sem tryggingar fyrir rekstrarlánum. Annars legg ég enga áherzlu á þetta, en vildi aðeins drepa á þetta hv. 3. landsk. til skilningsauka.

Hv. þm. talaði dálítið um seðlaútgáfuna í ræðu sinni. Hann kvaðst hafa framkvæmt óhlutdræga og vísindalega rannsókn í því máli öllu, og er, að því er mér skildist, kominn að þeirri niðurstöðu, ég vil segja einkennilegu niðurstöðu — (JÞ: Óvæntu niðurstöðu.), já, „óvæntu“ má gjarnan segja, að þessi mikla seðlaútgáfa hafi ekki verið. völd að kreppunni, sem bankinn lenti í 1921. (JÞ: Ekki valdið verðfallinu). Já, en kreppan kemur af verðfallinu, svo að það er sama, hvort er nefnt. Hv. þm. vill sanna þetta með því, að verðhækkunin hafi verið á undan seðlaaukningunni. Mér finnst nú, að það sé ástæða til að grafa dálítið dýpra og leita að því, hvort þetta eru í rauninni full rök fyrir því, að seðlaútgáfan hafi ekki skapað verðfallið. Mér sýnist einmitt, að þetta atriði leiði gleggst í ljós, hvílík yfirsjón það var af löggjafarvaldinu að heimila Íslandsbanka seðlaútgáfuna, hvílík yfirsjón það var að fela honum þannig fjárhag landsins. Ef maður gengur inn á það, að verðhækkunin hafi farið á undan seðlaaukningunni, þá sannar það ekki annað en það, að Íslandsbanki hefir viljað elta verðfallið með seðlaútgáfu sinni. Og þannig styður bankinn verzlunarbraskið á ýmsa lund. Það hefði verið Íslandsbanka í lófa lagið að koma í veg fyrir braskið, áður en það var komið að því hámarki, sem það náði eftir lok styrjaldarinnar. Þetta er ljóst, því að hvenær sem bankinn stöðvaði seðlaútgáfuna, þá féll braskið niður. En gallinn var sá, að bankinn hélt áfram að elta braskið allt of lengi, og því varð verðfallið svona mikið. Og ef tekið hefði verið fyrir kverkarnar á þessu og fólk ekki látið fá í vasana eins mikið af seðlum og raun varð á, þá hefði aldrei komið svona langt. Það eru ekki þeir menn, sem fara út í allskonar fjármálabrall, sem eiga að ráða, og seðlabanki hefir alls enga heimild til að elta braskið með verðlausum pappírum. Nei, það er blátt áfram hlutverk hans og skylda að koma í veg fyrir það.

Þá vildi hv. þm. halda því fram, að Íslandsbanki hefði raunar alltaf haft traust út á við, og sem sönnun fyrir því væri það, að hann hefði fengið lán utanlands á síðustu árum. Hann benti á póstsjóðslánið, sem raunar er danskt ríkissjóðslán, og lán Privatbankans og lánið hjá Hambros Bank. En ég vil nú vekja athygli á, að þá peninga, sem danska ríkið á nú hjá Íslandsbanka, sem eru um 4 millj. króna, er ekki hægt að skoða sem venjulegt lán, lán, sem bankinn hafi útvegað sér, heldur var það fyrir 10 árum, sem þessir peningar söfnuðust fyrir hjá bankanum og hann gat ekki greitt þegar að skuldadögum kom. Þess vegna er það í raun og veru ekki annað en góðsemi hjá danska ríkinu að hafa ekki innheimt þetta lán, en það hefir gengið inn á, að bankinn fengi að greiða þessa skuld, sem vitanlega var öll fallin í gjalddaga, á löngum árafresti.

Það mætti tala langt mál líka í sambandi við kreppuna, sem bankinn komst í 1926. Þá lét ríkið Landsbankann lána honum eina millj. og studdi hann með undanþágu frá að draga inn seðla eftir gildandi lögum. En ekki hefði þessi hjálp frá íslenzka ríkinu komið að haldi, ef danska ríkið hefði ekki fengizt til að semja um, að bankinn þyrfti ekki að borga þessar 4 millj., sem hann skuldaði því. Annars hefði bankinn orðið að loka þá.

Privatbankinn gekk allhart að Íslandsbanka um 1921, og nokkuð mikill hluti af enska láninu fór til að friða þann banka. Ekki virtist traustið ákaflega mikið þá. Svo hefir Íslandsbanki einhvernveginn staðið í þeirri meiningu, að hann hefði komizt inn á samninga við Privatbankann um þá skuld, sem hann stóð enn í við þann banka. En fyrir nokkru síðan var heimtað, að hann greiddi hana þannig, að Privatbankinn fengi þá afborgun, sem greiddist af þeim víxlum, sem Íslandsbanki hafði sett honum sem tryggingu fyrir skuldinni. En svo kemur það loks upp úr dúrnum, að Privatbankinn unir ekki lengur við þetta og vildi hafa lánið þannig laust, að hann geti sagt því upp hvenær sem er. Og mér hefir skilizt, að Íslandsbanki hafi gengið inn á þetta. Það sýnir ekki heldur traust, að einmitt nú í janúar segir Privatbankinn allri skuldinni upp, fer fram á, að hún sé greidd öll upp á þessu ári. Ég get því ekki séð betur en að það sé fráleitt, að Íslandsbanki hafi aukið lánstraust landsins út á við.

Hv. þm. kom inn á það, að Landsbankinn væri í rauninni ekkert betur stæður en Íslandsbanki. Ég held satt að segja, að hv. þm. geti ekkert fullyrt um þetta. Hann ætti a. m. k. að vera varkár um þessa hluti, því að hann veit ekki fyrir víst, hvernig Íslandsbanki stendur. Það hefði því verið miklu réttara, að hann hefði ekki fullyrt neitt um þetta hér, og mér finnst tæplega viðeigandi að kasta fram svo órökstuddum sleggjudómum um Landsbankann.

Hv. þm. minntist á, að Hambros Bank hefði haft ástæðu til að kveina. Já, það væri, ef hún er sönn, sagan, sem hér var sögð áðan í þingræðu og ég hafði raunar heyrt, en trúði ekki að væri sönn. Það var, að þegar Hambros Bank spurði Íslandsbanka, hvort nú væri nokkur óróleiki á ferðinni og hvernig standi á því, að hlutabréf bankans hafi allt í einu fallið í verði, þá er sagt, að Íslandsbankastjórnin hafi gert bankann rólegan með því að svara á þá lund, að hún vissi ekki neina ástæðu til þess, að hlutabréfin falli í verði, og að hún vissi ekki til, að hér innanlands væru neinir erfiðleikar. Ég segi aftur, að það er ekki undarlegt, að viðskiptabanki Íslandsbanka kveini, ef það er rétt, að hann hafi fengið slíka yfirlýsingu 2 eða 3 dögum áður en bankinn lokaði. Ég veit ekki, hvað er að spilla lánstrausti og áliti landsins út á við, ef það er ekki gert, þegar svona er farið að.

Þá voru það örfá orð um þessar umþráttuðu 625 þús. Það er sagt, að það hafi valdið örðugleikum fyrir Íslandsbanka að þurfa að draga inn úr umferð eina millj. króna í haust sem leið, en hann hafi átt heimtingu á að fá frá Landsbankanum sem svaraði 5/8 úr millj., sem hann dró inn, til þess að það yrði ekki bankanum ofvaxið að draga inn svona mikið í einu. En þetta er byggt á því, að í raun og veru hafi bankinn sama seðlamagn og áður. En þótt Íslandsbanki hafi ekki fengið nema 440 þús., þá hefir hann alveg sama fjármagn, vegna þess að gullið liggur honum óarðberandi heima fyrir. Hann fær gullið borgað í seðlum. Vitanlega hefir þetta engin áhrif í sjálfu sér, vegna þess að þetta er svo lítil upphæð, að hún gæti aldrei hjálpað í þeirri kreppu, sem bankinn komst í.

Ég held ég sjái ekki ástæðu til að fara út í fleiri atriði í ræðu hv. 3. landsk. Ég hefi að sönnu skrifað fleira, en vil ekki orðlengja það í þetta sinn. En þá er það fyrirspurn, sem hv. þm. bar fram. Hann spurði, við hvað matið á bankanum væri miðað. Ég get sagt honum, að það hefir verið talað um það milli mín og n., að matið væri alls ekki miðað við það, að bankinn væri látinn „likvidera“. Að öðru leyti hefir n. frjálsar hendur.

Hv. þm. minntist á það, að 2 af Landsbankastjórunum hefðu látið uppi við stj., að mér skildist, að sjálfsagt væri að endurreisa bankann. (JÞ: Ég sagði það ekki alveg með þessum orðum, að það væri sjálfsagt). Jæja, það hefir kannske verið eitthvað óákveðnara. En mér er óhætt að fullyrða það, að enginn af bankastjórunum hefir sagt þetta, eða neitt svo ákveðið við stjórnina.

Þá er eftir að tala um, hvort þetta frv., sem hér liggur fyrir, eigi að ganga til n. Ég lýsti yfir því, að ég mundi ekki vera því mótfallinn, ef töf verður ekki meiri á málinu en svo, að hægt verði að taka það til 2. umr. á miðvikudag afbrigðalaust. Ef ég fæ vísbendingu hjá hv. 3. landsk. fyrir hönd flokksbræðra hans og jafnframt frá hæstv. forseta um það, að hann taki málið á dagskrá þann dag. jafnvel þótt ekki verði komið nál. nema frá meiri hl. n., þá vil ég gjarnan, að málið fari í nefnd.