19.02.1930
Efri deild: 29. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1886 í B-deild Alþingistíðinda. (2483)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson):

Ég get tekið undir með hv. frsm. meiri hl., að þar sem ekki liggja fyrir aðrar till. um meðferð bankans, þá sé engin ástæða til langra umr. að svo stöddu. Ég get fyrir mína hönd og minni hl. látið nægja að vísa til nál., þar sem lagt er til að fresta endanlegri samþykkt þessa frv., meðan skoðun bankans er ólokið og verið er að undirbúa aðra meðferð á bankanum en þetta frv. gerir ráð fyrir.

Ég get þakkað hv. frsm. meiri hl. fyrir undirtektir hans um það, að afgreiða ekki málið endanlega, meðan skoðun bankans stæði yfir. Hann tók ekki afstöðu á móti því, og lét það skína í gegn, að ef ekkert nýtt kæmi í ljós, þá hefði hann ekkert við það að athuga, þótt afgreiðsla málsins drægist svo sem tveim dögum lengur en þingsköp heimila skemmst.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða um þetta meira að sinni, en vil aðeins drepa á eitt atriði í ræðu hv. frsm. meiri hl., sem ég hygg, að ekki hafi verið rétt með farið. Hann sagði, að bankinn hefði tilkynnt stj., að hann sæi sér ekki fært að opna nema því aðeins, að ríkið tæki fulla ábyrgð á honum. Ég held, að engin slík tilkynning hafi komið fram. Bankinn sendi landsstj. tvennar till., og sú till., sem lengra gekk, var slíks efnis, sem hv. frsm. gat um. En jafnframt var þess látið getið, að bankaráðið gæti hugsað sér aðrar leiðir til viðreisnar bankanum. Ég skal að öðru leyti láta þetta nægja að sinni, en samkv. nál. getum við ekki greitt atkv. með þessu frv. að svo stöddu.