19.02.1930
Efri deild: 29. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1887 í B-deild Alþingistíðinda. (2484)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Fjmrh. (Einar Árnason):

Það var eitt atriði í ræðu hv. 3. landsk. við 1. umr., sem ég hefi sérstaka ástæðu til að minnast á, einkum vegna þess, að flokksblöð hans hafa birt þau ummæli hv. þm. og reynt að gera sér mat úr. Það, sem ég á við, er sú yfirlýsing hv. þm., að tveir af bankastjórum Landsbankans hefðu gefið þá yfirlýsingu í samtali við landsstj., að nauðsynlegt væri að endurreisa Íslandsbanka, og að þriðji bankastjórinn hefði ekki andmælt þessu. Nú er þessu máli svo háttað, að stj. hefir að vísu átt samtal um þetta mál við landsbankastjórnina, en niðurstaðan hefir orðið sú, að ekki skyldi birta neitt af því, sem þar hefir fram farið, og ekkert er bókað af því. Ég vil þess vegna spyrja hv. 3. landsk.: Hvaðan hefir hann þá fullyrðingu, að bankastjórarnir hafi lýst þessu yfir? Þegar ég hefi fengið svar við þessari spurningu, þá mun ég ræða þetta mál frekar við hv. þm.