19.02.1930
Efri deild: 29. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1887 í B-deild Alþingistíðinda. (2485)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Jón Baldvinsson:

„Hvað höfðingjarnir hafast að, hinir ætla sér leyfist það“. Fyrst komið er hér fram með fyrirspurn, sem ekki snertir Íslandsbankafrv. sérstaklega, langar mig til að koma hér fram með eina fyrirspurn, eða helzt tvær. Önnur þeirra er til hæstv. fjmrh. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðh. um það, hvort hann, ríkisstj. eða flokkur þeirra, í sameiningu við Íhaldsflokkinn, hefir látið það boð út ganga, að hæstv. stj. væri tilbúin að láta 3 millj. króna fara til Íslandsbanka að vilja og yfirlýsingu meiri hl. Alþingis, ef loforð fengist hjá innieigendum í Íslandsbanka um hlutafé, er tekið væri af innieign þeirra?

Ég myndi ekki hafa farið út í þetta nú, ef hv. 3. landsk. hefði ekki við 1. umr. þessa máls komið fram með ýmsa þá hluti, sem sumpart var orðrómur og sumpart trúnaðarskeyti milli sendiherra og stjórnarinnar. Hinsvegar sleppti hv. 3. landsk. þeim skeytum, sem pössuðu ekki í kramið hjá honum. En það þykir lítið betra en að segja ósatt, að sleppa nokkru því, sem segja þarf. Það er því ekki úr vegi að spyrja hv. 3. landsk., hvernig þau símskeyti hljóðuðu, sem einstakir menn úr bankaráðinu hafa nýlega sent til Sveins Björnssonar sendiherra, sem hann svo svarar með skeytinu, sem lesið var upp við 3. umr. í Nd. Það væri ágætt, ef hv. 3. landsk. læsi þetta skeyti líka, fyrst hann er svo óbágur á það að lesa þau skeyti, sem borizt hafa í þessu máli. Ég óska gjarnan, að hæstv. ráðh. og hv. þm. svari báðum þessum fyrirspurnum.

Ég ætla ekki að fara að tala hér fyrir hönd n. Það hefir hv. frsm. meiri hl. gert. Mun ég svo greiða þessu frv. atkv. við þessa umr.