19.02.1930
Efri deild: 29. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1888 í B-deild Alþingistíðinda. (2486)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson):

Hæstv. fjmrh. spurði, hvaðan ég hefði það, sem ég hafði eftir stj. Landsbankans við 1. umr. Ég get ekki sagt honum nema það, að ég hefi það ekki eftir neinum bankastjóranna, en annars fær hann ekki að vita um mína heimild. Hafi ég hér ekki farið með rétt mál, verður að kalla bankastjórana til vitnis um það, hver sé þeirra skoðun á þessu máli.

Nú hefir hv. samþm. minn, 4. landsk., borið upp fyrirspurn fyrir mér, sem mér þykir leiðinlegt að geta ekki svarað til fulls, því ég hefi ekki við hendina það skeyti. Ef ég skil hv. samþm. minn rétt, hvað hann á við, vill hann fá að heyra símskeyti, sem sendiherra vorum í Kaupmannahöfn hefir verið sent frá bankaráðinu. En svarskeyti við því hefir víst verið lesið upp við 3. umr. í Nd. Ég var ekki við þá umr. í Nd. og veit því ekki, hvaða skeyti hafa verið lesin upp þar, nema hv. samþm. minn vilji gefa mér upplýsingar um það. Hið eina skeyti, sem ég veit til, að hafi verið afhent frá bankaráðinu til minni hl. n. í þessu máli í Nd., var svar upp á fyrirspurn um það, hvort afgreiðsla þessa frv. frá Nd. eða endanleg afgreiðsla þess úr þingi myndi spilla fyrir forgangshlutafjársöfnun. Ég veit ekki, hvort það er þetta skeyti, sem hv. 4. landsk. vill fá að vita um. Ég hefi ekki þetta skeyti og get því ekki lesið það. Þingmenn úr stjórnarflokknum hafa lesið það og geta borið um það, að fyrirspurnin er algerlega hlutlaus. — Hefi ég svo ekki meira að segja út af þessari fyrirspurn.