19.02.1930
Efri deild: 29. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1891 í B-deild Alþingistíðinda. (2490)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson):

Út af því, sem hv. 4. landsk. minntist á. að flutt væru þau skilaboð til manna, að óhætt væri að treysta því, að ríkissjóður legði fram 3 millj. kr. í hlutafé, vil ég segja það, að ég hefi ekki orðið var við það. Hitt veit ég að farið hefir verið fram á það við menn að lofa forgangshlutafé, að því tilskildu, að ríkissjóður leggi fram tiltekna upphæð. En það er annað. Það er munur að stofna til fjársöfnunar meðal einstaklinga, sem hinda loforð sín vissu skilyrði.

Út af orðum hæstv. fjmrh. þarf ég lítið að segja. Ég hefi mína vitneskju ekki frá bankastj., en þar sem 6 menn eða fleiri sitja á fundi, geta auðveldlega borizt fréttir þaðan, og ég hygg, að ég hafi farið rétt með þær.

Ég hefi ekki sagt, að ríkisstj. hafi lagt þá spurningu fyrir landsbankastj. Hitt hefi ég sagt, að að gefnu tilefni hafi landsbankastj. látið þessa skoðun sína í ljós.

Svo ítreka ég það, sem ég sagði um landsbankastj. áðan, og veit, að rétt er frá því skýrt.