05.03.1930
Efri deild: 43. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1905 í B-deild Alþingistíðinda. (2499)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Fjmrh. (Einar Árnason):

Ég get þakkað hv. fjhn. fyrir það, að hún hefir lagt á sig töluverða vinnu til að athuga brtt. mínar í þessu máli, á þeim stutta tíma, sem hv. n. hefir haft yfir að ráða í þessu skyni. Annars þykist ég ekki þurfa að fara langt út í málið á þessu stigi. Hér liggja fyrir ýmsar brtt., ýmist frá meiri hl. hv. fjhn. eða einstökum meðlimum hennar. Sumar þeirra eru mjög smávægilegar, ekki efnisbreyt., og get ég fallizt á, að ýmsar þeirra séu til bóta. Sé ég ekki ástæðu til að fara út í einstakar þeirra, en mun aðeins snúa mér að þeim brtt., sem ég get helzt búizt við, að verði ágreiningur um. Eru það einkum 3 brtt., sem mér finnst snerta efni málsins.

Vil ég þá fyrst snúa mér að 7. brtt., þar sem tveir hv. fjhn.-menn leggja til, að 13. gr. falli niður, og inn komi ný gr. annars eðlis. Hv. 3. landsk. talaði nokkuð um brtt. þessa. Taldi hann varhugavert að fara þá leið, sem farin er í brtt. mínum, til að fella úr gildi gömlu hlutabréfin í Íslandsbanka. Vildi hann halda því fram, að ekki hefði farið fram sannprófun á því, hve mikils virði hlutabréfin væru, en taldi það þó sína skoðun, að þau væru einskis virði. En hv. þm. hélt því fram, að það mundi geta haft óþægileg eftirköst að fara þá leið, sem ég hefi stungið upp á. — Nú get ég upplýst það, að 13. gr. í brtt. mínum er samin af einum gleggsta lögfræðingi þessa lands, manni, sem hefir einna bezt traust af öllum lagamönnum okkar. Þessi lögfræðingur telur öruggt, að 13. gr. geti haldið, eins og hún er í brtt. mínum. Mun hann telja hana vera í fullu samræmi við l. þau og reglugerðir, sem í gildi eru um Íslandsbanka. — Vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér upp 44. gr. úr reglugerð bankans, nr. 52, 6. júní 1923:

„Meðan einkarétturinn til seðlaútgáfu varir, verður bankinn ekki lagður niður eftir neinni ráðstöfun af hálfu hluthafa. En landstjórninni er heimilt að ganga að honum og gera þær ráðstafanir, er þörf kann að vera á, svo framarlega sem hann fullnægir ekki skyldum þeim, er á honum hvíla samkv. gildandi lögum og reglugerð þessari. En ef nokkru sinni skyldi raskast hlutfall það, er ákveðið er um grundvallan bankans, skal honum þó veittur eins mánaðar frestur til að koma því í lag“.

Í þessari gr. er það nú fyrst og fremst ákveðið, að hluthafar bankans hafa ekki einu sinni leyfi til að leggja hann niður, meðan einkarétturinn til seðlaútg. stendur. Er þetta ákvæði sýnilega þarna sett til að koma í veg fyrir það, að hluthafarnir geti eftir eigin geðþótta gert ráðstafanir, sem yrðu til tjóns fyrir ríkið. Hinsvegar er síðar í gr. ákvæði um ráðstafanir, sem ríkisstj. er heimilt að gera, ef eigendur bankans standa ekki við þær skuldbindingar, sem á þeim hvíla.

Þó að till. mín yrði samþ., sé ég ekki að annað hættulegra gæti komið fyrir en að hluthafar Íslandsbanka færu í mál við ríkissjóð eða hinn nýja banka. Við því er auðvitað ekkert að gera. Hv. 3. landsk. sagði, að óheppilegt væri, ef gömlu hluthafarnir fengju sér til dæmdan atkvæðisrétt í bankanum. En þeir geta engan atkvæðisrétt fengið nema þeir sanni, að hlutabréf þeirra séu einhvers virði. Ég vil taka fram, að ég segi þetta ekki alveg út í bláinn. Lögfræðingur sá, sem ég nefndi áðan, hefir sagt þetta sama við mig sem sína skoðun. — Hv. 3. landsk. var að tala um mat á bankanum. Ég vil minn hv. þm. á, að það hefir farið fram mat á bankanum, og að það var ekki miðað við, að hætt væri að starfrækja bankann, heldur að hann héldi áfram starfsemi sinni. En þegar eigendur bankans geta ekki sjálfir haldið áfram starfsemi hans, er ekki hægt að meta verð hluta þeirra hærra en sem svarar því, hvað fengizt hefði upp í þá, ef bankinn hefði farið til skiptameðferðar. Því ímynda ég mér, að hluthafarnir hugsi sig a. m. k. tvisvar um, áður en þeir fara að leggja í kostnað til að ná svo vafasömum rétti, sem hér um ræðir. Af þessum ástæðum get ég hvorki fallizt á aðaltill. né varatill. hv þm. um þetta atriði.

Þá er 8. brtt. um að 15. gr. falli burt. Ég mun hafa látið það í ljós í hv. deild í gær, að ég héldi ekki fast í að hafa þessa gr. í frv. Það er alltaf vafamál, hvað gera á í þessu efni, hvort leysa skuli bankann undan greiðslu innstæðufjár um takmarkaðan tíma eða ekki. Ég mun því ekki andmæla þessari brtt., þótt hér sé um allmikla efnisbreyt. að ræða.

9. brtt. er einnig allmikil efnisbreyt. Hún er um það, að niður falli 2. mgr. 16. gr. í brtt. mínum. Þetta atriði í brtt. mínum er vitanlega þess eðlis, að um það geta orðið töluverðar deilur. En ég get ekki fallizt á annað en að það sé í mesta máta ósanngjarnt, að tapið á búi Íslandsbanka komi niður á því fé, sem hinum nýja banka verður lagt. Finnst mér tapið eiga að koma niður á þeim, sem fé eiga í Íslandsbanka, og öðrum ekki. Tel ég það mikinn galla, ef hagnaðurinn af þessum nýja banka á að fara til að borga þau töp, sem á Íslandsbanka hafa orðið. Geri ég ráð fyrir, að atkvgr. hv. þdm. verði að skera úr því, hvað gert verður um þetta atriði.