05.03.1930
Efri deild: 43. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1911 í B-deild Alþingistíðinda. (2501)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Frsm. meiri hl. (Jón Jónsson):

Ég ætla að minnast svolítið á þær brtt., sem mælt hefir verið fyrir og ágreiningur hefir orðið um í n. Fyrsta brtt á þskj. 225 er um nafnið á bankanum. Mér finnst nafnið „Verzlunar- og útvegsbanki“, sem þar er lagt til, vera ákaflega óliðlegt í íslenzku máli. Hitt nafnið er miklu hentugra og svarar sæmilega til starfsemi bankans. Það er líka alveg hliðstætt nafninu á Búnaðarbankanum. — 2. brtt. er þess efnis, að strax í 2. gr. sé vitnað í hlutaféð, sem lagt er fram samkv. 11. og 12. gr. Þetta virðist vera hreinn óþarfi, þar sem það er skýrt tekið fram í 16. gr. Það er óviðfelldið að hafa þetta í lögum um útvegsbankann, ef svo færi, að ekki heppnaðist að framfylgja skilyrðum 12. gr. — 7. brtt. er um það, hvernig fara skuli um gömlu hlutabréfin. Hæstv. fjmrh. hefir þegar svarað því nógu skýrt. Mér finnst ákvæði reglugerðarinnar vera ótvíræð, og þannig leit líka sá lögfræðingur á, sem ég fór til.

Ég er eiginlega í vafa um, hvað ég á að segja um 8. brtt. Ég verð að játa, að það setur hálfgerðan vantraustsblæ á bankann, að setja megi sparisjóðsféð fast. Hinsvegar er, ef öllu er sleppt lausu, nokkur hætta á, að fyrst í stað verði sparisjóðsfé rifið út. Það er töluverður vandi að gera hér upp á milli, en ég teldi varlegra að halda heimildinni fyrst um sinn.

Um 9. brtt. a. skal ég geta þess, að ég álít alveg óþarft að bæta henni við fyrstu málsgr. 16. gr., ef brtt. meiri hl. við 6. gr. verður samþ. Þá er það nefnilega orðið skýrt, að nýju hluthafarnir í Íslandsbanka hafa fullan atkvæðisrétt. Það er því engin ástæða til að samþ. þá brtt.

Ég kem þá loks að aðaldeiluefninu, um burtfellingu 2. málsgr. 16. gr. Mér virðist báðir aðiljar hafa nokkuð til síns máls. Ég get fallizt á, að það væri í sjálfu sér mjög sanngjarnt, að það tap, sem þegar er orðið á Íslandsbanka, lendi fyrst og fremst á þeim, sem leggja hlutafé í hann. Og það er óheppilegt, að það tap þurfi líka að lenda á því hlutafé, sem lagt er beint í útvegsbankann. Það ætti heldur að ganga til varasjóðs handa bankastofnuninni. En hér er á fleiri hliðar að líta. Það er t. d. ekki ósennilegt, eins og hv. 3. landsk. sagði, að það, að setja þetta ákvæði, verði þess valdandi, að því skilyrði í 12. gr. verði aldrei fullnægt, að Íslandsbanki renni inn í nýja bankann. Menn verða að gera upp með sér, hvað sé heppilegast fyrir landið. Ég teldi illa farið, ef það strandaði á lítilfjörlegu atriði, að fyrirtækið komist upp.

Hverju skiptir fyrir ríkið, hvort till. er samþ. eða ekki, ef við vildum nú skipta tapinu, sem virðist vera um 3 millj., á hlutaféð? Ef till. er ekki samþ., ætti tapið að skiptast á hlutaféð eftir 11. og 12. gr., sem er 3 millj. frá ríkinu og að líkum 2½ frá öðrum, en sé till. samþ., skiptist tapið líka á 1½ millj. eftir 2. gr., þ. e. 4½ millj. alls frá ríkinu og 2½ frá öðrum. Þá sé ég ekki, að mismunurinn fyrir ríkið gæti orðið meira en 1/4 úr millj., þó að miðað sé við það tap, sem metið var af matsnefndinni. Þetta er að vísu nokkur upphæð. Þó er það álitamál — nei það er, tæpast álitamál —, á þessu má ekki láta málið stranda eða láta sparifjáreigendur eiga á hættu að tapa stórkostlega sínu fé og kannske að einhverju leyti að stofna lánstraustinu í voða. Ég tel það óverjandi að leggja svo mikla áherzlu á þetta atriði, að láta stranda á því. Þessir hluthafar eru líklega að mestu leyti sparifjáreigendur í Íslandsbanka, sem af fórnfýsi hafa lagt fram fé sitt. Og þá er tæpast sanngirni að ganga svo afskaplega ríkt eftir þessu atriði, þegar höfð er í huga hin till., sem á að tryggja öðrum sparifjáreigendum, að þeir fái allt sitt, og það meira að segja tafarlaust. Mér finnst það lítil sanngirni, ef gert er þannig upp á milli sparifjáreigenda, þeirra, sem vilja leggja af mörkum fé til bankans, og þeirra, sem heimta sitt út skilmálalaust. Ég held þess vegna, þó að ég að sumu leyti hafi ekki algerlega fallizt á það með ljúfu geði, að ég verði að greiða atkv. með því, að þetta atriði falli burt. Og ég vil taka það fram, að ég skoða það ekki, eins og hv. 4. landsk. vildi leggja svo ríka áherzlu á, sem aðalatriði í þessum brtt. hæstv. fjmrh. á þskj. 216, heldur er það vitanlega aðalatriðið að koma upp heilbrigðri lánsstofnun fyrir sjávarútveginn.

Ekki er því að neita, að með því að ríkið leggi svona mikið fram, fórnar það geysilega miklu, eins og hv. 4. landsk. benti á. Það er ákaflega sennilegt, að það verði mikil. vaxtabyrði, sem landið tekur á sig, fyrst um sinn a. m. k. Því að ég hefi ansi litla trú á því, sem hv. 3. landsk. var að segja, að töpin myndu vinnast upp á 2–3 árum. Og vegna þeirrar byrði verður að búast við, að minna fé fáist að öðru leyti til atvinnurekstrar. En þá er á það að líta, að atvinnuvegirnir eru líka allmikið styrktir með þessari stofnun. Hvort á heldur að velja? Á að hætta á að þyngja vaxtabyrðina fyrir ríkið eða eiga á hættu, að sjávarútvegurinn eigi enga örugga lánstofnun til, og að allt það fé, sem mundi fara forgörðum við hrun Íslandsbanka, tapist úr atvinnurekstrinum við gjaldþrotaskipti bankans? Þá held ég fyrir mitt leyti, að ekki megi hika við að færa þessa fórn; landið verði að leggja fram það, sem gert er ráð fyrir í till. stj.