07.03.1930
Neðri deild: 47. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1924 í B-deild Alþingistíðinda. (2515)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Frsm. minni hl. (Héðinn Valdimarsson):

Ég er í minni hl. í n., og þar sem líklegt er að þetta verði síðasta umr. um málið hér í d., þykir mér ekki fara illa á að rekja hér nokkuð forsögu málsins hér á þinginu. Verð ég fyrst að taka það fram, að við jafnaðarmenn vorum ekki ánægðir með, hvernig stj. tók þessu máli í upphafi. Að vísu bar hún fram frv. um skiptameðferð á bankanum, eins og sjálfsagt var, en hinsvegar gerði hún ekki ráðstafanir til þess, að rannsókn færi fram á hag bankans þá þegar, né heldur til þess að færa viðskipti bankans yfir í annan banka. Hvað stj. hefir hugsað sér í því efni, er ekki vel ljóst, nema hún hafi hugsað sér, að Landsbankinn hefði getað tekið viðskiptin að sér, sem þó var hæpið, eins og sakir stóðu.

Við jafnaðarmenn bárum því fram till. um rannsókn á hag Íslandsbanka. Hún komst tvisvar á dagskrá, en var tekin út í bæði skiptin, í síðara skiptið eftir ósk hæstv. stj., og um sama leyti var skipuð rannsóknarnefnd á bankann. Var að vísu gott og sjálfsagt, að svo var gert, en það hefði þurft að gera fyrr. Hinsvegar hefir stj. bankans ekki enn verið rannsökuð, en ég geri ráð fyrir, að till. um það komi bráðlega fram. Þegar einstakir menn eða fyrirtæki verða gjaldþrota, þá er svo fyrir mælt í lögunum, að réttarrannsókn fari fram yfir þeim, og hví skyldi hið sama ekki eiga við, þegar svo stórfellt fyrirtæki sem Íslandsbanki verður gjaldþrota? Erlendis, t. d. í Danmörku, fer slík rannsókn ávallt fram, ef banki verður gjaldþrota, og er þá ekki tekið persónulegt tillit til þeirra, sem hlut eiga að máli. Það er alls ekki tilætlunin, að níðzt sé á þessum mönnum, né þeir verði leiknir harðar en rétt er, en ég álít heppilegt fyrir land og lýð að gera hér hreint fyrir sínum dyrum. Það hefir komið fram í þessu máli, að bankastjórarnir hafa annaðhvort ekki vitað um hag bankans eða þeir hafa vísvitandi gefið falskar yfirlýsingar. Þessu til sönnunar má nefna skeytin til Hambrosbanka, viðskipti bankans og borgarstjórans í Reykjavík o. fl. Það hefir einnig komið fram við rannsóknina, að reikningar bankans hafa verið rangir í mörg ár og þessir röngu reikningar verið staðfestir af endurskoðendum, bankastjórum, bankaráði og bankaeftirlitsmanninum sjálfum.

Við jafnaðarmenn bárum hér fram frv. um peningastofnun, er skyldi heita „Útvegsbanki“ og taka skyldi við viðskiptum Íslandsbanka. Var ætlazt til, að þessi banki yrði hliðstæður Búnaðarbankanum, og tæki hann að sér þær atvinnugreinir, sem Búnaðarbankinn ekki styrkir, útveg, iðnað og verzlun. Gert var ráð fyrir, að bankinn yrði ríkisbanki, en þó var okkur jafnaðarmönnum enginn sérstakur þyrnir í augum, þótt einstakir menn legðu fé í bankann, ef ríkið hefði fullkomin yfirráð yfir honum. Við töldum heppilegast, að gert væri hreint borð í Íslandsbankamálinu, og Útvegsbankinn tæki að sér þau fyrirtæki, sem skipt hafa við Íslandsbanka og lífvænleg eru, en þau yrðu gerð upp, sem standa á óheilbrigðum grundvelli. Það er alkunna, að Íslandsbanki hefir haldið við allmörgum fyrirtækjum með því að ausa gegndarlaust í þau sparifé landsmanna, og hag margra þessara fyrirtækja er svo háttað, að alveg vonlaust er, að þau geti nokkurntíma greitt skuldir sínar. Það getur ekki verið gróði fyrir neinn að halda slíkum fyrirtækjum við, því að þó þau kunni að hafa pappírsgróða eitt ár, gengur sá gróði í vexti af lánum, sbr. „8% vaxtakontó“ Íslandsbanka. Fyrir verkamenn er ekki gróði heldur, að slík fyrirtæki lifi, því að þau geta ávallt sýnt fram á tap, vegna þess að of miklar skuldir hvíla á þeim.

Við lítum svo á, að frá þingsins, ríkisins og almennings sjónarmiði væri ekki hægt að hugsa sér, að tapið á lokun bankans lenti á öðrum en viðskiptamönnum bankans, innieigendum, erlendum og innlendum.

En aðstaða íhaldsmanna var sú frá upphafi að endurreisa Íslandsbanka óbreyttan með hjálp ríkissjóðs, halda sömu bankastjórn og nú er og halda við ráðum hluthafanna í bankanum. Hv. frsm. meiri hl. sagði að vísu, að þeir hefðu ekki verið að hugsa um að bjarga hlutafélaginu Íslandsbanka, heldur viðskiptum hans. En hvernig stendur þá á því, hve mikla áherzlu flokkurinn lagði á það, að hlutabréfin væru metin, enda þótt allir vissu að þau væru raunverulega einskis virði? Það getur ekki stafað af öðru en því, að flokkurinn hefir ætlað sér að fá hagkvæmt mat á þeim, til þess að halda við ráðum hluthafanna gömlu og gæta þeirra hagsmuna. Þeir heimtuðu ekkert framlag af viðskiptamönnum bankans til að endurreisa hann. Öllu átti að demba á ríkissjóð. Stefnan var sem sagt sú, að ríkissjóði ætti algerlega að blæða fyrir Íslandsbanka, en annars ætti allt að sitja við það sama. Það leit nú ekki vænlega út fyrir framgangi þessa frv. Íhaldsins í fyrstu, enda var það fellt. En þá taka nokkrir menn úr Framsóknarflokknum sig út úr, skerast úr leik og fara á bak við flokk sinn og þá stj., er þeir þykjast styðja, og bera fram nýtt frv., sem samið var af hv. þm. V.-Ísf. og hv. 3. landsk.

Það var sagt, að nauðsynlegur undirbúningur hefði þegar verið gerður til þess að geta komið þessu frv. fram, og sá nauðsynlegi undirbúningur átti að hafa verið á þann hátt, bæði utanlands og innan, að fé hefði verið útvegað hjá lánardrottnum bankans. Nú er það rétt, að fé er lofað frá innlánseigendum bankans, og hygg ég, að það sé rétt, sem sagt er, að það séu vissir peningar. Það er rétt að viðurkenna það starf, sem á bak við liggur hjá þeim mönnum, sem safnað hafa fénu. Einnig er hægt að skilja, að menn hafi lofað fjárframlögum til þess að bjarga, þótt ekki væri nema nokkrum hluta af fé sínu, og meta það hjá mörgum, er gert hafa þetta jafnframt til þess að auðveldara væri að stofna nýjan banka, eða draga Íslandsbanka upp úr foraðinu. En aftur veit ég, að allt það skraf, sem verið hefir í útlöndum um föst loforð um fjárframlag, er hreint fals, og þá ekki síður mörg ummæli um málið, sem höfð hafa verið eftir útlendum mönnum, en tilgangurinn er auðséður.

Því var haldið fram, m. a. í Morgunblaðinu, og hefir verið sagt af ýmsum hv. þm., að ríkissjóður Dana hefði fallizt á að játa fé sitt að áhættufé, og ég veit ekki betur en að hv. þm. V.-Ísf. hafi sérstaklega byggt á þessu, en mér er nú kunnugt um það, og einnig er komin yfirlýsing í Morgunblaðinu um það, að danska stj. muni ekki hafa gefið neinar yfirlýsingar um það, áður en íslenzka stj. fór að spyrja hana. Sama er mér kunnugt um, þar sem sagt er, að Privatbankinn hafi gefið föst loforð um að leggja fram hlutafé, að engin loforð höfðu verið gefin. Og eins er það með Hambrosbanka; hann hafði ekki gefið föst loforð í þessu efni, svo að sá undirbúningur, sem hv. flm. þessa frv. töluðu um, er algerlega haldlaus. Hann er sem sé enginn, svo að það var ekki ástæða til að flytja frv. af því, að allt væri í lagi.

Jafnframt vil ég tala um einstök atriði þessa frv., og ætla ég þá sérstaklega að minnast á. það, hve mikil ósvífni það er að vilja setja íslenzk lög um það, hvernig erlent ríki hagar sínum lánum, og á ég þar við greinina um að innieign póstsjóðsins danska skuli vera áhættufé. (ÓTh: Eru það skilaboð frá Stauning?). Mér þætti gaman að sjá hv. 2. þm. G.-K. koma fram með frv. um það, að enska ríkið skyldi leggja fram fé til þessa eða annars. Ætli hann yrði ekki lægri í loftinu, ef um annað land væri að ræða en föðurland hans, Danmörku?

Þá áttu hlutabréf bankans eftir frv. að vera metin eins og íhaldsmenn vildu, til þess að vernda hlunnindi hluthafanna. Svo átti seðlainndráttur bankans að fara fram þegar bankastj. óskaði þess, til þess að honum væri hægt að skjóta á frest, og svo loks þetta mikla atriði, að engin ábyrgð skyldi falla á neina innieigendur bankans.

Ég get nú að nokkru leyti skilið aðstöðu hæstv. stj., þegar þetta frv. kemur fram, þótt ég fallist ekki á hana. Sennilega hefir stj. viljað reyna að vernda sinn flokk og halda honum saman hér á þingi, en till. þær, sem komið hafa fram hjá hæstv. stj., eru sambland af till. þeim, sem komið hafa frá litla Íhaldinu, þ. e. klofningsmönnum Framsóknarflokksins, og því, sem við jafnaðarmenn komum fram með. Við gerðum okkar aths. við þetta frv., og ég verð að viðurkenna það, að hæstv. stj. tók þær að sumu leyti til greina, t. d. um það atriði, að Útvegsbankinn skyldi stofnaður og hefði ekki aðeins heimild til að setja tryggingu fyrir sparisjóðsfé, heldur skyldu, o. fl. þvílíkt, og að ríkissjóður hefði alltaf meirihlutaráð í bankanum.

En svo kom aðalatriðið, sem gerði það, að ég hefi ekki getað fylgt meiri hl. n. í þessu máli, og það er, hvernig töpin á bankanum skuli borin.

Í frv. eins og það var borið fram af hæstv. fjmrh. var þó gert ráð fyrir því, að innieigendur bankans skyldu í raun og veru bera töpin, því að arðurinn af hlutafénu yrði meiri eða minni eftir því, hvort hlutaféð væri nýtt fé eða frá lánardrottnum bankans fyrir gjaldþrotið. Ef þetta hefði verið samþ., þá hefði ekki ábyrgðinni fyrir tap bankans verið skellt á ríkissjóð eins óþyrmilega og orðið er, en í annan stað hefði þetta verið nokkuð hart fyrir þá, sem hefðu lagt innieignir sínar í bankanum í nýtt hlutafé, samanborið við þá, sem ekkert lögðu fram. Þess vegna hefði okkur fundizt réttara, að svo sem 25% af allri innieign væri bundið handa sérstökum afskriftarsjóði. Tapið hefði á þann hátt verið tekið hlutfallslega jafnt af innieignum manna í bankanum. En þegar svo fer í hv. Ed., að ekki er gengið inn á þessa leið, heldur jafnvel með öllu tekin ábyrgðin af innieigendum bankans, að öðru leyti en þeim, sem leggja fram hlutafé, og einnig miklu meiri ábyrgð skellt á ríkissjóð heldur en hann hefði nokkurntíma þurft að bera, þá getum við ekki fylgt frv. Ég hefi lauslega verið að gera mér grein fyrir því, þótt ég hafi ekki nákvæmar tölur fyrir mér, hve miklu ríkissjóður myndi tapa á því, ef bankinn yrði gerður upp, og mér virðist það, þótt gert sé ráð fyrir 25% tapi á ótryggðu fé og þar á meðal af ótryggðum seðlum, og þar að auki tekið tillit til þess, hve miklu dýrara það yrði fyrir ríkissjóð að taka að sér brezka lánið heldur en að láta bankann ávaxta það, þá mundi þó tapið aldrei fara fram úr einni millj. kr. En sé frv. samþ. óbreytt með 3 millj. kr. framlagi frá ríkissjóði, 3 millj. kr. framlagi frá innlendum og erlendum lánardrottnum, og þar að auki 1½ millj. frá Útvegsbankanum nýja, þ. e. a. s. ríkissjóði, samtals 7½ millj. kr., þá kemur 47% tap á allt stofnfé, eftir nýja matinu á bankanum. Á stofnfjárhluta ríkissjóðs, 4½ millj. kr., verður tapið yfir 2 millj. kr. Á þennan hátt er yfir 1 millj. kr. bókstaflega kastað í sjóinn úr ríkissjóði á móts við það að láta gera bankabúið hreinlega upp: Það er ekki lítil upphæð, sem almenning á að blæða um til að hjálpa fáum einstaklingum. Það er ekkert að segja um þann hluta tapsins, sem ríkið var skyldugt til að taka á sig, en það er lagt miklu meira fram en nauðsyn krefur til þess að koma bankamálunum í gott horf. Það vil ég ekki samþykkja. Og fyrir hverja er þetta gert? Fyrir lánardrottna bankans. Hv. 1. þm. Skagf., kom með þá tölu, að 10.000 væru lánardrottnar bankans. Það getur vel verið, að það séu 10.000 menn, sem þar hafa einhverra hagsmuna að gæta, en hve margir af þeim eru það, sem munar sérstaklega um tap sitt. (MG: Þá fátæku munar um lítið). Þeir fátæku eiga ekki svo mikið þar inni. En það er sjáanlegt, að þegar 700 menn af þessum eiga yfir 10.000 kr. hver, að það eru þeir, sem á að hlífa með þessu. Mér finnst það vera nokkuð langt gengið að seilast svo mjög í ríkissjóð fyrir fáa menn. Við ættum að líta á það, að við erum þó fyrst og fremst fulltrúar allrar þjóðarinnar, en ekki þessara fáu manna sérstaklega, og ríkissjóðurinn er allra eign, en ekki þessara fáu.

Ég verð að segja hæstv. stj. það, sem fylgir þessu máli fram, eins og reyndar mestallt þingið virðist gera, að ég álít það í sjálfu sér merkilegt, hvernig hún bregzt við tiltektum sumra flokksmanna sinna. Sæmra hefði henni verið að standa eða falla með frv. eins og fjmrh. hafði loks gengið frá því, heldur en að látil beygja sig til að verja hagsmuni fárra manna gegn allrar þjóðarinnar, með hótun um vantraust. En stj. hefir verið kærara að sitja en leggja út í baráttu við Íhaldið og svikarana úr sínum eigin flokki og metið meira að geta sýnt út á við, á yfirborðinu, að Framsóknarflokkurinn væri einn og óskiptur heldur en að meiri hl. hans fylgdi réttum málum. Ég get sagt eins og Árni Pálsson sagði einu sinni við svipað tækifæri, að það væri mannlegt, en ekki mikilmannlegt.