07.03.1930
Neðri deild: 47. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1942 í B-deild Alþingistíðinda. (2520)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Gunnar Sigurðsson:

Hæstv. fjmrh. lét nokkur orð falla til þeirra, sem greiddu atkv. á móti skiptafrv. hér úr hv. deild. Þótt mér væru ekki ætluð þessi ummæli sérstaklega, vil ég svara þeim fáeinum orðum. Ég greiddi atkv. gegn skiptafrv. hæstv. stj. á sínum tíma í þeirri trú, að ég væri að gera hið rétta í málinu, og síðan hefi ég sannfærzt æ betur og betur um það, að afstaða mín var rétt. Mér var það ljóst, að íslenzka ríkið mátti miklu fórna til að koma í veg fyrir þau lánstraustsspjöll, sem nú þegar eru fram komin. Í veitufjárlausu landi, eins og hér, er það einhver hættulegasti leikurinn að tefla lánstraustinu í voða. — Þegar á fyrsta næturfundinum um málið lá fyrir mat á bankanum frá bankaeftirlitsmanninum og öðrum manni til. Var vitanlegt, að talsvert mátti byggja á því mati, enda þótt það gæti ekki verið nákvæmt í öllum einstökum atriðum. Ég hefi aldrei viljað taka ábyrgð á öllum skuldbindingum bankans, og ég vildi, að bankinn yrði „gerður upp“, svo að það sannaðist, hvers virði hlutabréfin eru. Þetta hefi ég viljað ávallt síðan 1921, og það var þetta, sem fyrst og fremst þurfti að gera til þess að koma bankanum á heilbrigðan grundvöll. En þar fyrir var það alls engin nauðsyn að loka bankanum.

En þetta eru hlutir, sem ekki tjáir um að tala héðan af enda er ég að mestu sammála þeim till., sem hæstv. fjmrh. nú ber fram í málinu. Verð ég þó að játa, að mér þykir undarlega farið að formhlið þessa máls, þar sem hæstv. ráðh. flytur endurreisnartill. sínar sem brtt. við frv. það, er lá fyrir hv. Ed. Fær málið því í raun og veru aðeins eina umr. í hvorri deild, og hygg ég, að þessi aðferð megi kallast vera á takmörkum þess að vera lögleg. Ég mun þó ekki tala frekar um formhliðina, en snúa mér að því, sem meiru varðar, efnishliðinni.

Aðalatriðið er það, að hér á að koma upp tiltölulega traustum verzlunar- og útvegsbanka. En þótt þetta sé sterkasti banki, sem hér hefir verið stofnsettur, og hlutafé hans og tryggingarfé sé allmikið á pappírnum, fær hann í rauninni ekki nema 1½–2½ millj. króna sem nýjan höfuðstól. Hitt er „dautt kapital“, fé, sem nú stendur fast í bankanum. Því er það augljóst, þótt þetta frv. verði samþ., að veita verður í bankann nýju blóði, auka starfsfé hans til mikilla muna með innlendum eða erlendum peningum.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, finnst mér stórum aðgengilegra en frv. hv. þm. V.-Ísf. og félaga hans, sem nokkuð hefir komizt hér inn í umr. Bæði er bankanum ætlaður mun meiri höfuðstóll, og eins á að leysa út innstæður manna í Íslandsbanka, þegar er þess er óskað. Legg ég sérstaklega mikið upp úr hinu síðara atriði, því að það hlyti að verða til að draga til stórra muna úr trausti hins endurreista banka, ef hann byrjaði starfsemi sína þannig, að geta ekki leyst út innstæður manna.

Ég bar í upphafi lítið traust til hæstv. landsstj. í þessu máli, og skal ég játa, að það traust hefir frekar aukizt nú. En þó mun ég ekki bera fullt traust til hennar fyrr en ég sé, að hún leggur sig fram til að gera bankann trausta og sterka stofnun. Ef hæstv. stj. stendur vel í stöðu sinni, er ég viss um, að bankinn mun fljúga margefldur úr rústum hins, eins og fuglinn Fönix úr ösku sinni.

Frv. sjálft, sem hér á að fara að samþykkja, er í rauninni hálfgerður vanskapnaður, eins og oft vill verða, þegar öllum á að gera til geðs. Ég er sammála hv. frsm. meiri hl., að réttast væri að láta ekki sjást „ljósið í rófunni“ á frv., sem þar er sett lokunarmönnum til augnagamans. Eins er ég óánægður með heiti bankans. Í 1. gr. frv. er skýrt, hvert verkefni bankanum er ætlað, sem sé að „styðja sjávarútveg, iðnað og verzlun landsmanna“. Er mér óskiljanlegt, af hverju þetta má ómögulega sjást af heiti bankans. — Fleira er í frv., sem ég er ekki allskostar ánægður með. En þar sem mér líka vel stærstu atriði þess, mun ég ekki gera leiðrétting þessara galla að kappsmáli, en greiða frv. atkv. óbreyttu.

Loks vil ég áminna hæstv. stj. um að sjá til þess, að þessi banki verði til að lækka okurvexti þá, sem hér eru nú. Það er óneitanlega hjákátlegt, þegar fregnirnar um vaxtalækkanir berast utan úr löndum svo að segja í hverri viku, að Íslendingar verða enn að búa við hin allraverstu vaxtakjör, sem þeir hafa nokkurntíma haft. Vextirnir verða að lækka hér eins og annarsstaðar.