07.03.1930
Neðri deild: 47. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1950 í B-deild Alþingistíðinda. (2522)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Frsm. minni hl. (Héðinn Valdimarsson):

Ég ætla að svara hér nokkru af því, sem að mér hefir verið vikið af ýmsum hv. þm., sem talað hafa eftir mína fyrri ræðu.

Hv. þm. V.-Ísf. kvartaði mikið um, að ég grunaði sig um illar hvatir í þessu bankamáli. Mér fannst hann afarreiður yfir orðum mínum. Það var fjarri því, að ég ætti við illar hvatir, nema ef illt skal telja, að hann hefir þá stefnu í þessu máli, sem íhaldsmenn hafa. En það finnst mér hafa komið fram nógu glöggt. Enda hefir hann viðurkennt, að aðalráðamaður hans við samningu frv. hafi verið fyrrv. form. Íhaldsflokksins, hv. 3. landsk. Fleiri menn kunna að hafa komið þar að, en ég hygg, að það sé rétt, sem ég hélt fram fyrst, að hann mundi eiga mestan þátt í framkomu frv., þó að hv. þm. V.-Ísf. tæki á sig að koma því á framfæri og vera fyrsti flm.

Þá var annað atriði, sem ég lagði áherzlu á í fyrri ræðu minni. Ég efast um, að sá undirbúningur hafi farið fram erlendis, sem nauðsynlegur er til þess, að hv. þm. V.-Ísf. hafi nokkra vissu fyrir því, að fyrirmæli þessa frv., sem hann bar fram, muni geta fundið náð fyrir augum erlendra lánardrottna, eins og þó hv. þm. alltaf fullvissar okkur um. Hann talaði um, að hv. 3. landsk. þm. hafi staðið í samningum við erlenda lánardrottna fyrir milligöngu Sveins Björnssonar sendiherra, en hann vildi láta svo skilja, að hann sjálfur hafi sérstaklega fylgzt með þessum samningaumleitunum, svo að hann vissi fyrir víst, að erlendu lánardrottnarnir mundu ganga að þessu. Þetta verð ég að véfengja og mótmæla því, að Sveinn Björnsson komi fram sem sendiherra Íslands á þann hátt, sem hv. þm. lýsti. Hefir þá stj. fengið Jóni Þorlákssyni sendiherra landsins til að vinna með? Hvort er það þá lengur lögleg stj. landsins, sem stjórnar, eða Jón Þorláksson? Ég hygg, að Sveinn Björnsson hafi komið þar fram sem „prívat“-maður, en ekki á neinn hátt af landsins hálfu, og þess vegna ber landið ekki ábyrgð á því, og getur ekki veitt neinn stuðning því, sem hann hefir sagt fyrir hönd Jóns Þorlákssonar um þetta efni. Þetta var aðeins tilraun til að blekkja landslýð, að það hafi verið þegar fengnir samningar, og þess vegna komi frv. fram. Þetta kom líka fram í Morgunblaðinu, sem sérstaklega heldur fram íhaldsmálstaðnum hér í bænum, með líkum ummælum og hjá hv. þm. Og þó að hv. þm. V.-Ísf. þykist sitja inni með alla vizku í þessu máli, þá leyfi ég mér að segja, að það sé ósatt, sem hann hélt fram í þessu efni, og eingöngu gert í þeim tilgangi að tæla menn til þess að samþykkja frv. Og ég vil leyfa mér að skora á hæstv. forsrh. sem formann bankaráðsins að láta birta opinberlega öll þau símskeyti, sem farið hafa milli hans sjálfs og sendiherra Íslands eða send hafa verið til annara manna erlendis um þetta mál, og sömuleiðis þau símskeyti, sem Jón Þorláksson hefir sent Sveini Björnssyni, og þau svör, sem hann hefir fengið, því að þar hefir hann komið fram sem bankaráðsmaður. Það hafa komið fram svo mörg ósannindi í þessu máli, svo mikið verið gert til að rægja lánstraust landsins erlendis, og allt makkið við útlendingana er svo tortryggilegt, að ég hygg, að það eigi að verða lýðum ljóst, hvað gert hefir verið, og eins, hver árangurinn hefir orðið af þessum samningaumleitunum, sem hv. þm. V.- Ísf. gefur í skyn, að hafi verið fullgerðar, þegar frv. hans kom fram. Ég vænti þess, að hæstv. forsrh. taki þessa áskorun til greina og svari henni á þessum fundi, þegar hann talar. En til viðbótar vildi ég óska, að hv. þm. V.-Ísf. skýrði frá, hverju danska ríkisstj. hefir lofað, hverju Hambros Bank hefir lofað, hverju Privatbankinn hefir lofað. Hann hefir alla þekkinguna á þessu, svo að honum er auðvelt að gera það. Ég efast ekki um fyrir mitt leyti, að þessir tveir bankar muni vilja gera margt til að bjarga fé sínu og bankaviðskiptum hér, en ég véfengi, að ákveðin loforð hafi verið látin uppi.

Mér fannst það nú ekkert smáatriði, sem hv. þm. gat um, að seðlainndrátturinni ætti að fara eftir óskum stj. Landsbankans. Því að það er ekki verið að ræða um venjulegt framkvæmdaratriði innan bankans, heldur um vald Landsbankans gagnvart löggjafarvaldinu. Það er eðlilegra, að Alþingi ráði slíku, heldur en að vera að búa til nýtt vald yfir fjármálunum í landinu. Þetta veit ég, að hv. þm. skilur, þó að hann óski annars.

Um burtfellingu hluthafafjár vil ég ekki deila við hv. þm. Ef hann væri viss um, að hlutabréfin yrðu afskrifuð, hví þarf þá nýtt mat? Og hvernig vildi hann hafa það mat? Ég held, að hann tali móti betri vitund, og veit annars, að hann hugsar sér að hafa það mat þannig, að enginn, sem væri jafnaðarmaður, sæti í matsnefndinni. Slíka matsnefnd mun hann hafa heimtað af stj. Og auðvitað ætti nefndin að vera skipuð í þeim tilgangi að fá ákveðinn lit á matið.

Þá sagði hv. þm., að allir þeir, sem stjfrv. fylgi, vilji láta alla fá sitt. Það leit svo út, sem hann talaði fyrir sinn flokk, ekki aðeins fyrir þessa 5 eða 6 menn, sem nú er farið að kalla flokk, heldur fyrir þann flokk, sem hann telur sig ennþá að nafninu til, Framsóknarflokkinn. En mér er kunnugt persónulega, að mörgum mönnum úr Framsóknarflokknum er ekki vel við það ákvæði að skella allri ábyrgð á ríkið, þó að þeir hafi fallizt á að greiða frv. atkv. Enda talaði einn framsóknarmaður í þá átt í kvöld, að töpin ættu að færast yfir á hlutafé, sem kæmi úr Íslandsbanka. Það sýnir ekki sömu skoðun á málinu sem hv. þm. V.-Ísf. hefir. Hv. þm. V.-Húnv., sem ég á við og borið hefir fram brtt. um þetta, kvaðst samt mundu greiða frv. atkv., þó að sú brtt. næði ekki að ganga fram. Þetta sýnir, hve ólíkar skoðanir geta mætzt til að samþykkja frv. stj.

Hverjir „allir“ fá sitt? Innieigendur fá sitt. Þeir, sem leggja fram hlutafé, eiga að fá sitt, þó að gefið sé, að hlutabréfin verði í raun og veru ekki nema 53% að sannvirði í byrjun. Það má vera, að þeir fái sitt með tímanum, ef vel gengur. En ef illa gengur, fá þeir það ekki. Þeir hljóta að tapa í byrjun og hafa hlutafé sitt arðlaust. En ríkissjóður tapar þeim mun meiru, sem hann leggur meira fram en þeir. En þeir, sem fá sitt, eru erlendir og innlendir menn, sem leggja ekki fram neitt fé til stuðnings Útvegsbanka Íslands og flytja ekki viðskipti sín yfir í hann. Fyrir þá er þessi leiðin bezt. Ég er ekki á þeirri skoðun, að hægt sé að leysa öll vandamál og forðast öll töp með því einu að dengja þeim á ríkissjóð. Því að einhverjir verða að borga í ríkissjóð.

Hv. þm. Dal. var að tala um fátæku mennina, sem ættu inni í Íslandsbanka. Það er nú ekki almennt álitið, að þeir, sem allra fátækastir eru, hafi mikið af bankainnieignum. En hitt er áreiðanlegt, að það fé, sem þarf að afla ríkissjóði og sem notað verður til að greiða töp ríkissjóðs á Íslandsbanka, það er mikið til lagt á allra fátækustu mennina, eins og lýst er í greinargerðum fyrir frv., sem liggja fyrir þinginu um tekjuskatt og eignarskatt og um fasteignaskatt. Ég veit, að hv. þm. V.-Ísf. skilur það mál og hann gerir því vísvitandi þessa árás á fátæka alþýðuna í landinu.

Hv. þm. gat um, að hann hefði mikla útreikninga um það, hverju ríkið hefði tapað, þó að bankinn hefði gengið til skipta. Mér er spurn: Hvers vegna koma þeir útreikningar ekki fram? Ég hygg, að orð hans sem reikningsmanns og fjármálamanns megi sín varla svo mikils, að óhætt sé að treysta, þó að hann gefi ekki upp neinar tölur, en fyrir honum virðist þetta vera svo einfalt mál, að hann hlýtur að eiga auðvelt með að finna, hvað beinn halli ríkissjóðs hefði orðið mikill, og láta það heyrast. En kannske útreikningarnir þoli ekki dagsins ljós frekar en „undirbúningurinn“?

Það var hv. þm. Dal., sem gladdist yfir niðurstöðunni og talaði um, að Íslandsbanki væri aðalstofninn í þessum nýja banka. Ég hefi ekki skilið gleði hans. Það er ekki hægt að segja, að eignir Íslandsbanka séu meginstofn í Útvegsbankanum, þegar maður veit, að þær eru minni en ekki neitt. Hann virtist afarreiður yfir því, að ég talaði um það sem sjálfsagðan hlut, að það færi fram réttarrannsókn, eins og tíðkast í svipuðum tilfellum, þegar bankar hrynja, og eins og lögskipað er um fyrirtæki einstakra manna. Fyrst sagði hann að vísu það, að hann vissi ekki neinar sakir á sér og sínum. Ef svo væri, þarf hann ekki að óttast réttarrannsókn. Hún gæfi honum tækifæri til að hreinsa sig af öllum ásökunum. En svo kom á eftir hjá honum, að slík sakamálsrannsókn þýði sama og tukthús. Hvernig getur hún þýtt, tukthús fyrir saklausan mann? Hv. þm. hefir þó margsinnis lýst trú sinni á hæstarétti. Hann sagði, að við, sem vildum réttarrannsókn í þessu máli, mundum ekki láta okkur nægja að taka af sér stöðuna, heldur líka æruna. Það er svo fjarri því. Við vildum aðeins vita, hvort bankastj. hafi sök í málinu, og hafi hún sök, þá hvort hún sé afsakanleg eða ekki. Þetta er ákaflega eðlilegt og ég held bezt fyrir alla aðila. Þessi skelfing hv. þm. er mjög svo furðuleg.

Hv. þm. fór að tala um töp Landsbankans, hversu mikil þau væru. Ég hygg, að varla sé tími til að blanda því inn í þetta mál. Og ég segi fyrir mitt leyti, að þetta „hámark hræsninnar“, sem hann talaði um, kemur mér ekki við. Ég hefi aldrei séð þetta mat á Landsbankanum og þeir, sem fengu að sjá það, voru bundnir þagnarloforði. En hinsvegar er mér kunnugt, að til þess mats var þannig stofnað, að niðurstaða þess hlaut að sýna tapið í mesta lagi, — einlitir fjandmenn bankans í matsnefndinni —, og ef Íslandsbanki hefði verið metinn á sama hátt, hefði hagur hans varla orðið fallegur, né glæsilegri en nú.

Hv. þm. talaði um auðvaldsdjöfulinn, sem væri allra djöfla verstur og lokkaði menn með hvísli sínu í bankastjórastöðuna. Hv. þm. þekkir þetta vel af eigin reynd. Raunaleg er saga hv. þm. og fyrrv. ráðherra. Nemesis hefir sannarlega verið að verki kringum hann.

Hver taldi sig beztan útvörð frelsis og sjálfstæðis okkar Íslendinga hér fyrrum, nema hv. þm.? Og hver hefir undirskrifað beiðni til Danastjórnar um, að danska ríkið legði póstféð fram sem hlutafé í hinum nýja íslenzka Íslandsbanka, er þm. vildi endurreisa, nema innlimunarmaðurinn hv. þm. Dal.?

Hver taldi sig mestan fjármálamanninn, fyrst til þess að stjórna fjármálum ríkissjóðs og síðan Íslandsbanka, nema hv. þm. Dal.? Og hver sökkti fyrst ríkissjóði í skuldaforað og setti síðan, með félögum sínum, Íslandsbanka á höfuðið með stjórn þeirra, nema hv. þm. Dal.?

Hver notaði sér aðstöðu sína sem ráðherra til að veita sjálfum sér hæstlaunuðu stöðuna í landinu, bankastjórastöðuna við Íslandsbanka? Og hver felldi sjálfan sig og liggur nú flatur í eigin gerðum nema hv. þm. Dal.? Skyldi hv. þm. ekki vera orðinn sæmilega kunnugur auðvaldsdjöflinum?

Ég held nú sannast að segja, eftir ræðum hv. þm. Dal. og framkomu hans í þessu máli fyrr og síðar, að hann beri minnur öðrum þm. skyn á stjórnmál, og væri honum bezt að þegja um þau framvegis.