07.03.1930
Neðri deild: 47. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1963 í B-deild Alþingistíðinda. (2524)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Magnús Torfason:

Ég ætla mér ekki að hætta mér út í þær almennu umr., sem orðið hafa um þetta mál, enda finnst mér margt af því, sem sagt hefir verið hér í hv. d. nú í dag, eiga betur heima við eldhúsdagsumr., en hans mun nú næsta skammt að bíða.

Það er þó eitt atriði, sem ég finn ástæðu til að mótmæla sérstaklega, og það er, að þetta frv. sé skylt þeim till., sem fyrst lágu fyrir í málinu, því að þær minntu mig á gamlan reykvískan málshátt, sem hljóðaði svo: „Robb borgar brúsann“. Þá átti ríkissjóður að standa ábyrgð á öllum skuldum Íslandsbanka, en nú er allt annað uppi á teningnum.

Ég var einn þeirra manna, sem í fyrstu vildu láta taka bú Íslandsbanka til skiptameðferðar, en áleit þó rétt að athuga, hvort einhverju væri ekki offrandi á hann. Ég hélt því fram, að sjálfsagt væri að endurreisa bankann, ef þeir menn, er ættu fé hjá honum, vildu fórna einhverju til að halda við starfsemi hans. Þetta hefir nú komið í ljós, og þeir menn eiga aðeins þakkir skilið fyrir að hafa sýnt fórnfýsi sína og áhuga í þessu vandræðamáli, en mestar þakkir álít ég þá eiga; sem stuðlað hafa að því, að ríkið leggur svo mikið fé fram og raun er á orðin. Ef ríkið á að hjálpa, þá verður upphæðin að vera svo rífleg, að bankinn geti orðið nógu sterkur til að leysa þau verkefni af hendi, sem fyrir honum liggja, og ávinna sér traust allra landsmanna.

Þetta hefir nú verið gert svo ríkmannlega, að hv. þm. V.-Ísf. lét þau orð falla, að bankinn yrði nú svo sterkur, að hann gerði meira en fullnægja þeim kröfum, sem gerðar væru erlendis til hliðstæðra banka, Þykir mér þetta gott að vita, þótt fjárhagur ríkisins sé nú hinsvegar svo þröngur, að það hafi ekki ráð á að láta meira fé af hendi en nauðsynlegt er. Till. hv. þm. V.-Húnv. gengur í þá átt, að þeir, sem leggja fram fé til bankans, geti fengið greiddan arð af því, og fengið með því nokkra uppbót. Segjum nú t. d., að ríkissjóður reikni sér 6% í vöxtu, þá myndi þetta nema 90 þús. kr. á ári, en það ætti ekki að spilla fyrir því, að aðrir hluthafar gætu fengið arð.

Mér virðist, að með þessu væri fé ríkissjóðs ekki kastað á glæ, og komið í veg fyrir, að hann legði fram meira fé eða dýrara en þörf er á. Þess vegna mæli ég fast fram með till. hv. þm. V.-Húnv. og vona, að sem flestir hv. þm. vilji ljá henni fylgi sitt, og sýna með því ríkissjóði þá linkind, sem í rauninni virðist sjálfsögð.

Þetta mál hefir borið brátt að og lítill tími hefir gefizt til vandlegrar íhugunar, og því er ekki að furða, þótt misspor hafi verið stigin, og það því fremur, sem ekkert tilfelli þessu líkt hefir komið hér fyrir áður. Ýmsar till. hafa komið fram, en ekki verið ræddar nógu vel áður en samþykktir hafa verið gerðar, enda hafa sumar þeirra þá ekki verið nægilega undirbúnar. Nú er það svo með þá till., sem hv. þm. V.-Húnv. ber fram, að hún var í undirbúningi, er þetta mál var til umr. í Ed., og það var meira að segja farið fram á, að málinu væri frestað þar vegna þessarar till., en af því varð þó ekki. Ég er þess fullviss, að ef þessi till. hefði komið fram við umr. í Ed., þá hefði hún verið samþ. þar og frv. ekki verið breytt hér í þessari hv. d. frá því, sem Ed. hefði afgreitt það. Vona ég því, að menn greiði till. þessari atkv. sitt, en sérstaklega vil ég beina því til hv. þm. V.-Ísf., því að ég veit, að ef hann leggst á eitt með hæstv. fjmrh., þá nái till. þessi fram að ganga.

Ég skal svo ekki fara fleirum orðum um þetta mál, en vil að endingu leggja sérstaka áherzlu á það, að till. þessi er svo sanngjörn, að enginn bíður tjón, þótt hún verði samþ., og ég vil bæta því við, að hún er hið eina merkilega, sem komið hefir fram í þessu máli við þessa umr.