07.03.1930
Neðri deild: 47. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1965 í B-deild Alþingistíðinda. (2525)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Frsm. meiri hl. (Magnús Guðmundsson):

Ég hefi ekki öðrum að svara en hæstv. fjmrh. Fannst mér hann svara mér í nokkuð öðrum tón en ég hafði búizt við. Virtist hann mjög óánægður með ræðu mína, sem þó var hæstv. ráðh. í vil og fylgjandi frv. hans. Hinsvegar var hæstv. ráðh. harðánægður með ræðu hv. 2. þm. Reykv., sem þó var frv. mótfallinn í öllum verulegum atriðum. Ég verð að segja það, að mér finnst hæstv. ráðh. gera helzt til mikinn mun sinna barna, enda þótt ég geti vel skilið það, að hann líti nokkuð öðrum augum á hv. 2. þm. Reykv. en mig. Hélt ég þó, að hann myndi ekki í þessu tilfelli gera svona mikið upp á milli okkar. (HV: Ég er með frv. með breytingum). Já, að vísu, en með þeim breyt., sem hæstv. ráðh. vill ekki ganga inn á. Virðist hæstv. ráðh. vilja sýna hv. 2. þm. Reykv. alla linkind í þessum viðskiptum, til þess að styggja hann ekki. Auðskilið er, hvers vegna hæstv. ráðh. gerir svona mikinn mun mín og hv. 2. þm. Reykv. Ég hefi ekki í hendi mér líf stj., en það hefir hv. 2. þm. Reykv.

Hæstv. ráðh. sagði, að ég legði of mikið upp úr því, hvort hægt væri að segja, að Íslandsbanki lifði áfram eða ekki, en að hann léti sig það engu skipta. Þetta er misskilningur. Ég legg enga höfuðáherzlu á það, hvort nafn stofnunarinnar er áfram Íslandsbanki eða ekki, ef starfsemin heldur áfram. Það er meginatriði málsins, og það hefir verið okkur sjálfstæðismönnum ljóst frá upphafi. En hitt er vitanlega fjarstæða, að Íslandsbanki deyi með samþykkt þessa frv., því ef svo væri í raun og veru, hvers vegna er þá ríkið að leggja 3 millj. kr. inn í deyjandi stofnun, og hvernig fer Alþingi að ætlast til þess, að útlendir menn og innlendir leggi stórfé til hennar, ef hún á að deyja? Nei, eins og sá maður lifir áfram, en deyr ekki, sem skiptir um nafn, eins lifir Íslandsbanki áfram þótt hann heiti framvegis Útvegsbanki. Það er viðskiptalíf landsins inn á við og út á við, sem lifir áfram með endurreisn Íslandsbanka.

Hæstv. ráðh. hélt því fram í sambandi við 13. gr., að matið, sem ég talaði um, væri með öllu þýðingarlaust. Ég hefi haldið því fram, að slíkt mat bæri fyrst og fremst að skoða sem öryggisráðstöfun. En úr því að hæstv. ráðh. þykist svo viss í sinni sök, skal ég ekki deila við hann um þetta að sinni, en tíminn mun leiða það í ljós síðar, hvor réttara hefir fyrir sér. Með þessu vil ég þó ekki halda því fram, að þetta þurfi endilega að koma að sök, en hitt sýnist mér þó viturlegra, að byrgja þegar í upphafi alla þá brunna, sem möguleikar eru á að detta ofan í.

Þá virtist hæstv. ráðh. taka það mjög illa upp við mig, er ég sagði, að samþykkt þessa frv. þýddi sama og að ríkið tæki ábyrgð á öllum skuldbindingum bankans. Ég sagði, að þetta væri svo í raun og veru, því að vitanlega bera hluthafar bankans ekki frekari ábyrgð en hlutafé þeirra nær, og ríkinu ber því ekki lagalega að ábyrgjast bankann, nema að því leyti, sem hlutafé ríkisins nemur. En það er annað, sem veldur því, að ríkið verður að halda bankanum áfram, ef illa fer. Ég hefi sterkar líkur á reiðum höndum fyrir þessu, þegar ég bendi á það, að ríkið, sem nú á ekki eina einustu krónu í Íslandsbanka, skuli þó ekki sjá sér annað fært en að hlaupa undir bagga með bankanum og leggja fram stórfé til þess að viðskipti hans geti haldið áfram.

Hversu miklu sterkari verður þá ekki „pressan“, sem þing og stj. liggur undir, er ríkið á að eiga 4½ millj. kr. sem hlutafé í bankanum. Þegar svona verður að fara að, þótt ríkissjóður eigi ekki einn eyri í bankanum, hvernig mundi þá verða farið að, er ríkissjóður á 4½ millj. kr. í honum? Þetta er stórfé á okkar mælikvarða, fé, sem við neyðumst til að leggja fram vegna viðskiptalífsins. Sú nauðsyn verður á öllum tímum jafnrík.

Þetta sáum við sjálfstæðismenn þegar á næturfundinum forðum. Okkur var það ljóst, að að því myndi reka fyrr eða síðar, að ríkið tæki ábyrgð á þessum banka að meira eða minna leyti, ekki vegna bankans sjálfs sem hlutafélags, heldur vegna viðskipta landsmanna.

Hæstv. ráðh. sagði, að till. okkar sjálfstæðismanna í þessu máli hafi gengið út á að taka ótakmarkaða ábyrgð á bankanum. Þetta er ekki rétt; því að í lok næturfundarins bárum við sjálfstæðismenn fram till. um það, að fela stj. að gera allt, sem hún teldi þurfa, til þess að bankinn lokaði ekki. Hétum við stj. stuðningi okkar flokks í því. En hæstv. stj. var þá ekki viðbúin því að taka ábyrgð á bankanum. Ég mun ekki að sinni fara frekar út í það, hvers vegna stj. tók þá afstöðu til málsins í upphafi. Ef hún hefði þá flutt till. eins og þær, sem hún nú flytur, þá hefði hún verið viss um stuðning okkar sjálfstæðismanna um þær.

Þá minntist hæstv. ráðh. á það, að tryggja þyrfti hinum nýja banka nægilegt rekstrarfé. Mér hefir skilizt, að þessa 1½ millj., sem ríkið leggur Útvegsbankanum, ætti að leggja fram strax þegar bankinn opnar, og sömuleiðis geri ég fastlega ráð fyrir því, að Íslandsbanki hafi síðan hann lokaði safnað töluverðum sjóði, því að síðan hafa einungis innborganir átt sér stað, en engar útborganir. Ég býst þess vegna við, að bankinn muni hafa nokkurnveginn nægilegt fé til þess að mæta þeirri eftirspurn af innlánsfé, sem ég viðurkenni, að muni verða fyrst eftir að bankinn opnar aftur. Það er vel, að hæstv. stj. sér, að tryggja þarf bankanum nægilegt rekstrarfé, og ég held, að hún hafi það nokkurnveginn í hendi sér, með tilstyrk Landsbankans.

Ég lagði þá spurningu fyrir hæstv. ráðh., hvenær hann byggist við, að bankinn opnaði á ný. Sagðist ég ekki heimta svar upp á ákveðinn dag, heldur vildi ég fá að vita þetta hér um bil. Ég verð að segja, að ég varð fyrir vonbrigðum af svari hæstv. ráðh. Og sérstaklega þótti mér einkennilegt, að hæstv. ráðh. skyldi ekki vilja segja neitt um það, hvort þessi 1½ millj., sem ríkið á að leggja Útvegsbankanum, væri til í reiðum peningum eða ekki. Mér hefir skilizt á hæstv. ráðh., að ekki væri enn búið að eyða öllu enska láninu frá því í haust, og að nokkuð af því lægi enn ónotað. Um fjárhag ríkissjóðs er mér hinsvegar ekki svo kunnugt, að ég viti, hvort laust fé sé nú fyrir hendi svo nokkru nemi.

Ég heyrði ekki, að hæstv. ráðh. svaraði fyrirspurn minni viðvíkjandi niðurlagi 15. gr., og þarf ég því engu að svara viðvíkjandi því atriði, en endurtek spurninguna.

Hv. þm. V.-Ísf. þarf ég litlu að svara, enda er það lítið, sem okkur ber á milli. Auk þess vil ég ekki deila við þann hv. þm.; ég er honum þakklátur fyrir þann hlut, sem hann á í lausn þessa máls. Ég get vel skilið það, að hv. 2. þm. Reykv. er mjög reiður við þennan hv. þm., því að skoðanir þeirra eru gagnólíkar og sömuleiðis þær leiðir, sem þeir vilja fara í þessu máli. Ég vil taka undir með hv. þm. V.-Ísf. um það, að ríkið tapi mestu, jafnvel beinlínis, á því að loka bankanum. Ég er hv. þm. fyllilega sammála um það, að endanleg lokun bankann væri eitthvað það versta, sem fyrir þessa þjóð gæti komið.

Ég þarf ekki að svara hv. þm. V.-Húnv. miklu. Hann var óánægður yfir því, að ég hefði sagt meira í framsöguræðu minni heldur en ég hefði haft leyfi til af hálfu n. eða meiri hl. hennar. Þessu vil ég mótmæla. Ég lauk því af máli mínu, sem ég talaði fyrir hönd meiri hl., á tæpum 5 mín., en það, sem fram yfir var, var frá eigin brjósti. Annars hefi ég enga löngun til þess að deila við þennan hv. þm. um það, hvort Íslandsbanki lifi eða ekki. Hann vildi snúa út úr orðum mínum og segja, að ég hefði sagt, að bankinn lifði þótt hann deyi. Ég vil aðeins spyrja hann, hvort hann álíti, að það sé dauð stofnun, sem gengur með 6 millj. kr. hlutafé yfir í aðra stofnun, sem hefir ekki nema 2½ millj. að hlutafé. Annars ræður það að líkindum, að ég get ekki fylgt brtt. hans, og held ég, að ég geti þar talað fyrir hönd meiri hl. n., því að okkur er það öllum ljóst, að samþykkt slíkrar till. hlyti að valda því, að þeir, sem þegar hafa lofað að leggja fram hlutafé, myndu draga sig til baka. Gæti þetta þannig orðið til þess, að þetta frv. næði ekki tilgangi sínum, og situr sízt á hv. þm. V.-Húnv. sem stuðningsmanni stj. að bregða fæti fyrir þetta fóstur hennar. Það kæmi úr hörðustu átt. Annars er það alkunnugt, að um þetta mál hefir orðið mikill reipdráttur innan stjórnarliðsins og ósamlyndi í mesta máta, og skal ég fyrir hlífðar sakir ekki fara frekar út í þá sálma við hv. þm. V.-Húnv.

Þá er eftir hv. 2. þm. Árn., og get ég verið stuttorður í svari mínu til hans. Mér skildist á byrjun ræðu hans, að nú væri að rætast einhver draumur, sem hann hefði dreymt endur fyrir löngu. Það er verst, að hv. þm. skuli ekki hafa sagt frá þessum draumi fyrr, til þess að hægt hefði verið að láta hann rætast fyrr. En svo var eins og það drægi úr dýrðarljómanum af þessum draumi, því að hv. þm. var óánægður með frv. eins og það liggur fyrir. Virtist hv. þm. standa geigur mikill af því, að þótt frv. væri breytt í það horf, sem hv. þm. V.-Húnv. vildi vera láta, þá myndi það eigi að síður verða samþ. í Ed. Annað hefir okkur verið sagt, því að það hefir ekki verið talið vænlegt að senda frv. aftur til Ed., heldur samþykkja það óbreytt hér. Væri því gott að fá skýringu á því, hvaðan hv. 2. þm. Árn. kemur þessi speki.