07.03.1930
Neðri deild: 47. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1981 í B-deild Alþingistíðinda. (2528)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Gunnar Sigurðsson:

Ég get verið hæstv. fjmrh. þakklátur fyrir það, að hann hefir tekið eftir því, að þessi banki, sem væntanlega verður stofnaður, mundi þurfa rekstrarfé. Hann skilur þetta alveg rétt. Þessi 2½ millj. hrekkur mjög skammt. Ef bankinn á að vera bæði verzlunar- og útvegsbanki, þarf hann mikið rekstrarfé og fjármálastj. verður að hafa það hugfast að fá sem allra bezt kjör erlendis. Ég er alveg viss um, að þessar 12 millj., sem gert er ráð fyrir að taka að láni, hrökkva skammt til veðdeildar Búnaðarbankans, útvarps og fleira.

Ég minntist nokkuð á vexti í fyrri ræðu minni. Nú vil ég beina þeirri fyrirspurn til hæstv. fjmrh., hvort hann líti ekki svo á, að þegar maður er búinn að fá svo sterkan banka sem þennan, sé kominn tími til að lækka vextina. Þetta var mjög erfitt fyrir Íslandsbanka áður, en ætti að vera hægt nú. Hæstv. stj. getur nú ráðið þessu, þar sem Landsbankinn er ríkiseign.

Ég ætla ekki að fara að svara hv. þm. Ísaf. Það stendur öðrum nær. Þó þótti mér það einkennileg skoðun hjá honum, að telja það fé, sem einstaklingar og ríkið leggja í þessa stofnun, hálfgert tapað. En ég er viss um, að ekkert hlutafé er tryggara en hlutafé í þessum banka.

Úr því hér er farið að taka upp góðlátlega rabb um ýmsa hluti, get ég ekki komizt hjá því að svara hv. 2, þm. G.-K. nokkrum orðum. Ég skrifaði það orðrétt eftir hv. þm., þegar hann sagði: „Það er enginn, hvorki ég eða aðrir, sem kenna bankastjórum Íslandsbanka þessi töp“. — Ég vil þessum mönnum ekkert illt, en mér þykir mikið, ef þetta er ekki rangt. Ég og fleiri hafa tekið eftir því, að það, sem mestu tjóni hefir valdið, er það, hversu lítinn mun bankinn gerir á fasteignalánstrausti og persónulánstrausti.

Það er mikill munur að lána gegn 1. veðrétti í eignum Kveldúlfs eða gegn persónulegri ábyrgð hv. 2. þm. G.-K., þótt hann gæti það sem slíkur. (ÓTh: Heyr!). Á þessu hefir bankinn tapað mestu. Þetta vona ég, að nýju bankastjórarnir hafi hugfast. Það er einn reginmunur að lána gegn 2. veðrétti í fasteign eða gegn persónulegri ábyrgð, hvað þá ef það er 1. veðréttur.

Fasteignamat húsa í Reykjavík er um 90 millj. kr. Án þess að óska eftir því, að þessi eign væri öll veðsett, vil ég þó benda á það, hversu mikil trygging er í þessari eign. Og menn hafa tapað milljónum króna á því að lána á nöfn, en ekki gegn veði.

Ég get að nokkru leyti verið sammála hv. þm. Ísaf., að ég tel það afsökun bankastjóranna, að þeir hafi litið of björtum augum á hag bankans. Eftir mati þeirra á bankanum stóðu hlutabréfin í 92% nafnverðs, en síðar kom það í ljós, að þau voru einskis virði. Þeir hafa svo verið ógætnir með reikningana, svo ég noti ekki stærri orð. Þeir gátu ekki afskrifað töpin, af því bankinn stóð öðruvísi en þeir vildu vera láta. Þetta er þeirra stærsta afsökun.

Úr því að ég minntist á ræðu hv. 2. þm. G.-K., ætla ég aðeins að leiðrétta það ómerkilega atriði hjá hv. þm., að það voru aðeins 3 af sexmenningunum, en ekki þeir allir, eins og hv. þm. sagði, sem fluttu þetta frv. Ég vissi um undirbúning þess, en átti þar engan þátt í og hefði aldrei greitt því atkv. eins og það var. Það hefði verið vanvirða að stofna slíkan banka og hann hefði ekkert innstæðusparifé fengið. En nú álít ég, að málið sé komið á svo góðan rekspöl, að óhætt sé að fylgja því.