12.04.1930
Efri deild: 76. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1013 í B-deild Alþingistíðinda. (253)

1. mál, fjárlög 1931

Ingvar Pálmason:

Mitt nafn er tengt við nokkrar brtt. á þskj. 497, og þykir mér rétt að gera ofurlitla grein fyrir því, hvernig á því stendur.

Það er þá fyrst brtt. XIII., um utanfararstyrk til Unnar Jónsdóttur. Þessi styrkur til hennar, sem var 1.500 kr., var felldur niður við 2. umr. og, að því er mér virtist, við dálítið óljósa atvgr. Það var dálítill hiti í mönnum, og var ég þess vegna ekki alveg viss um, að þeir vildu fella þennan styrk niður. Þetta gaf mér tilefni til að flytja samskonar styrk aftur, en hafa upphæðina lægri.

Ég þarf ekki að bæta miklu við það, sem ég sagði við 2. umr. þessa máls. Ég skal þó geta þess, að stúlka þessi er fyrir skömmu komin úr utanför frá því að nema þennan starfa. Því var ekki talin þörf á að veita henni þennan styrk. Þessu vil ég mótmæla. Þótt það sé rétt, að hún hafi verið að námi utanlands, þá var námstíminn ekki svo langur sem æskilegt hefði verið. Það er víst, að hún hefir fengið fulla viðurkenningu fyrir hæfileikum sínum, en hún óskar að eiga kost á meðan hún er ung að fullkomna sig betur.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta en vænti þess, eftir atkvgr. við 2. umr. að dæma, að þessi styrkur verði aftur tekinn upp.

Þá á ég næst brtt. XVII., um að veita Sigurði Skagfield 1.500 kr. til lokanáms í, sönglist.

Hv. þdm. munu, eins og svo fjölmargir Íslendingar, hafa heyrt þennan efnilega söngmann syngja og fundið, að hér er um einn af okkar efnilegustu söngmönnum að ræða. Hann byrjaði söngnám um 1920 með góðum meðmælum frá séra Geir Sæmundssyni. Hygg ég, að hann hafi hvatt hann til þessa náms. En allir vita, að söngnám er dýrt, tekur langan tíma og kostar mikla ástundun. Þessi maður mun nú allmiklum skuldum hlaðinn vegna námsins. Ég hefi heyrt, að hann hafi gert sér vonir um að fá styrk frá menntamálaráðinu, en það mun hafa brugðizt, og er hann nú vondaufur um að geta haldið áfram þessu námi. Er það því ömurlegra, þar sem þessi maður er nú að enda sitt langa og dýra nám. Hefi ég það eftir góðum heimildum, að hann ætli nú að dvelja í Prag til þess að njóta að síðustu kennslu mjög frægra söngmanna.

Ég tel rétt að geta þess, að mér er ekki kunnugt um, að þessi maður hafi notið nokkurs opinbers styrks nema einu sinni, og mun það þá hafa verið 800 kr.

Ég vona því, að þessari kröfu sé svo í hóf stillt, að hv. d. geti fallizt á hana.

Þá á ég brtt. XXII. Hún er þess efnis, að af fé því, sem Búnaðarfélagi Íslands er ætlað, verði ákveðnar 8.000 kr. til Kvenfélagasambands Íslands.

Ég flyt þessa till. í samráði við annan búnaðarmálastjórann, og hefi ekkert um hana að segja annað en það, að ég hygg að Búnaðarfélagið hafi lagt þetta fram til að styðja þetta samband, og því hygg ég fara vel á því, að Búnaðarfélagið, sem hefir ríflegan styrk úr ríkissjóði, leggi nú fram 8.000 til Kvenfélagasambandsins, sem það telur sig vanta. Annars er ég málinu ókunnugur, en legg það nú undir úrskurð hv. d. Þetta er engin hækkun á fjárl., heldur aðeins tilfærsla og að mínum dómi sanngjarnt, því það verkefni, sem þetta samband hefir, virðist mér heyra undir búnaðarmál landsins.

Þá á ég brtt. XXV., um að framlagið til að gera lagastiga í Lagarfoss hækki úr 1/3 kostnaðar upp í 3/5 kostnaðar, eða verði allt að 6.000 kr.

Ég flutti brtt. við þennan sama lið við 2. umr., en hún var þá hærri. Ég lýsti þá, hver ástæða væri fyrir því, að ég fer hér fram á hærra framlag úr ríkissjóði en venja er til um samskonar fyrirtæki. Tel ég óþarft að færa þau rök hér fram aftur.

Svo óheppilega vildi til við 2. umr., að þá var prentvilla í till., og getur það hafa valdið nokkru um atkvgr.

Þá á ég brtt. XXX., um að heimila stj. að endurgreiða Jónasi Lárussyni 4.000 kr. upp í kostnað við sýningu íslenzkra matvæla í Kaupmannahöfn 1926.

Sýning Jónasar Lárussonar var kunn á sínum tíma, og heyrði ég ekki annað en að allir tækju þá undir það, að þessi tilraun hans væri lofsamleg og virðingarverð. Ummæli danskra blaða sýna líka, að þessi sýning vakti mikla eftirtekt og varð landinu til sóma.

Kostnaðurinn við þessa sýningu varð um 6.000 kr., og varð Jónas að greiða hann úr sínum vasa.

Þessi tilraun hans var gerð til þess að kynna vöru landsins og auka skilyrðin fyrir afurðasölunni. Mér virðist því sanngjarnt að láta hann ekki einan bera hallann af þessari sýningu.

Ég var í nokkrum vafa um, hvar ég ætti að setja þetta. Það hefði að vísu farið vel að setja það hliðstætt markaðsleit, því að ég hygg, að þessi sýning hafi ekki verið þýðingarminni fyrir þjóðina í heild sinni og markað fyrir framleiðsluvörur okkar, en þótt gerður hefði verið út maður út um lönd til þess að kynna þar vörur okkar. Ég tel því alla sanngirni mæla með þessari till., því að ég lít svo á, að maður verði að grípa hvert tækifæri, sem gefst, til þess að auka markað fyrir vörur okkar. Og þar sem aðalútflutningsvörur okkar eru matvörur, hygg ég það vel vert fyrir það opinbera að athuga, hvort sú aðferð, sem Jónas Lárusson fyrstur manna tók upp, ætti ekki að vera meira notuð en verið hefir.

Ég læt þetta svo nægja til skýringar þessari brtt. minni. Vænti ég þess, að hv. þdm. taki till. með skilningi og samþ. hana, og verði þessi aðferð Jónasar Lárussonar meira notuð framvegis en hingað til.