07.03.1930
Neðri deild: 47. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1993 í B-deild Alþingistíðinda. (2532)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Sigurður Eggerz:

Ég ætla að svara með nokkrum orðum aths., sem komið hafa fram í garð bankans. En áður en ég geri það, vil ég minnast á það atriði í ræðu hv. þm. Ísaf., þegar hann talaði um það sem fjvnm., hversu þungar byrðar það væru fyrir ríkissjóð, ef bankanum yrði lagt fé, hve mikið vaxtabyrðin yrði aukin. Ef hv. þm. hefði litið á hina hliðina og athugað, hversu mikið það getur dregið úr framleiðslu landsins, ef bankinn verður stöðvaður, býst ég við, að honum hefði þótt ríkissjóðstekjurnar minnka allmikið meira en svarar útgjaldaaukanum af vaxtabyrðinni. Framleiðslan getur minnkað svo milljónum skiptir á fyrstu árunum eftir stöðvun bankans. Það er hin mesta skammsýni að láta sér detta í hug, að vextir þeir, er hv. þm. minntist á, vegi nokkuð á móti því tjóni, sem af því hlýzt, ef bankinn verður ekki endurreistur. Og hér kemur annað atriði til greina, nefnilega aðstaða þeirra, sem unnið hafa að því að útvega hlutafé í hinn fyrirhugaða nýja banka. Megnið af því hlutafé er framlag frá sparisjóðseigendum, og þeir hafa ekki einungis lagt það fram til að bjarga sínu eigin fé, heldur líka af því, að þeir hafa séð, hvílík ógæfa það yrði fyrir land og þjóð, ef bankinn yrði stöðvaður. Þessir menn eiga sannarlega miklar þakkir skilið fyrir það, að framlag þeirra er ein af höfuðástæðunum fyrir því, að hægt verður að endurreisa bankann.

Það kom illa við hv. þm. Ísaf., að ég minntist á þá fátæku og hversu ráð jafnaðarmannaleiðtoganna væru köld í þeirra garð, þar sem þeir leggja svo mikla áherzlu á að drepa bankann. Hv. þm. sagði, að mér færist ekki að tala djarft um þetta, mér væri nær að vera ekki að lokka inn sparisjóðsfé með háum vöxtum. Ég neita því, að bankastj. hafi nokkurntíma gert tilraun til að lokka inn sparisjóðsfé. Þetta, sem bæjarsjóður lagði inn í bankann, var sagt í skýrslunni, að hefðu verið 750 þús. Það er rétt, að þessi upphæð kom inn í bankann, en bæjarsjóður var áður búinn að fá yfirdrátt á hlaupareikning, sem nam 268 þús. og var samtímis borgað út. Ennfremur voru borgaðar út 2 upphæðir, sem námu 70–80 þús., og þetta fé var með sömu kjörum og fé á innlánsskírteini, enda sögðum við, að við tækjum ekki við því, nema það væri látið standa ákveðinn tíma inni í bankanum.

Hv. þm. hneykslaðist mjög á þeim ummælum, sem ég hefi einu sinni haft, að á fyrri tímabilum hafi stundum verið svo ástatt í bankanum, að bankastj. hafi ekki vitað á morgnana, hvort hún gæti annað greiðslum dagsins. En þetta er hreinn og beinn sannleikur. Það hefir ekki alltaf verið tekið út með sitjandi sælunni að vera bankastjóri í Íslandsbanka. En sannleikurinn er sá, að bankinn gat unnið áfram þrátt fyrir allt, og hefði enn getað það, ef hann hefði fengið sjálfsagðan stuðning. Ég hefi áður rakið aðdragandann að stöðvun bankans og ætla ekki að endurtaka hann hér. Aðeins vil ég enn einu sinni benda á það, að óróinn um bankann skapaðist ekki fyrr en á seinustu stundu, og bankastjórarnir trúðu því fram til seinustu stundar, að bankinn mundi fá stuðning. Bankinn átti heimtingu á að fá endurkeypta víxla af Landsbankanum vegna inndráttarins fyrir 625 þús. kr. Þessu neitaði Landsbankinn. Og þessi neitun var aðalorsökin til stöðvunarinnar. Ég hefi skýrt frá því, að 1926 komst bankinn fram úr vandræðunum, sem hann þá var í, er hann fékk eina millj. frá Landsbankanum, og því skyldu þá ekki 625 þúsundirnar hafa dugað nú?

Að gera þá kröfu, að bankinn neiti að taka við sparisjóðsfé, nær engri átt; það væri sama og að loka bankanum. Sú krafa felur í sér svo mikið ofsóknaræði, að ég get ekki tekið hana alvarlega.

Hv. þm. gat ekki hrakið það, sem stóð í skjölum matsnefndar, að bókhald allt hafi verið í góðu lagi í bankanum. Hann vildi þá dvelja við það, að ógreiddir vextir af kontó hafi verið færðir á ýmsa liði. En þessu var matsnefndinni skýrt frá, og hvernig á því stóð. Í öðru lagi tilnefndi hv. þm. gengismuninn á dönskum og íslenzkum krónum. Ég hefi margsinnis gert grein fyrir þessu. Þetta var póstfé, sem eftir samþykki dönsku ríkisstj. var lagt inn í Íslandsbanka. Þá var enginn munur á danskri og íslenzkri krónu. Svo kom gengismunurinn og Danir heimtuðu greiðslu á skuldinni í dönskum krónum. En samningar tókust á þann hátt, að danskar krónur voru viðurkenndar í orði, en lánskjörin voru að öðru leyti svo góð, að fyrir oss voru þetta raunverulega íslenzkar krónur, og vísa ég til samninga um þetta atriði.

Þá var hv. þm. að tala um þessar 5.700 þús. Hjá nefndinni eru tilfærðar 9.328.033, -2 kr. í tap. Svo eru dregnar frá eignir bankans og hlutafé, 4.500 þús. kr., það sem lagt er til hliðar fyrir tapi, 853.088,18 kr. og ágóði ársins 1929, sem er 441.870,82 kr.

Sjálfri matsnefndinni þykir rétt að setja þetta svona upp, enda bera reikningar bankans þetta með sér. Í þeim var mat bankaeftirlitsmannsins lagt til grundvallar. Það, sem ég sagði um þetta atriði, er það, að það mundi erfitt að finna nokkurn bankareikning, sem gerður væri þannig upp, að hann mundi svara til mats, sem gert er á einhverju augnabliki. Enda er það rétt, sem ég hefi skýrt frá, að ef farið væri að athuga þjóðbankann, þá mundi það sýna sig á ýmsum tímabilum, að reikningar bankans mundu gefa til kynna betri niðurstöðu en sú raunverulega niðurstaða er. Þessu mun enginn geta neitað. Hitt er líka víst, sem ég tók fram í fyrri ræðu minni, að þegar bankaumsjónarmaðurinn var búinn að meta Íslandsbanka, var strax skýrt frá matinu á reikningum bankans. En á reikningum Landsbankans hefir ekki verið skýrt frá niðurstöðu þess mats, sem fram fór á honum. Og það er þetta ósamræmi, sem ég saka hv. þm. jafnaðarmanna um í framkomu þeirra gegn bönkunum. Ef Íslandsbanki hefir ekki skýrt frá mati bankaumsjónarmannsins, þá er ég hræddur um, að sungið hefði í jafnaðarmönnum, en ekki dettur þeim í hug að hreyfa slíku ef Landsbankinn á í hlut. Alltaf sama falsið. Hv. þm. jafnaðarmanna viðurkenna Landsbankann fyrir það sama, sem þeir níða niður fyrir allar hellur hjá Íslandsbanka. Það er óheppileg aðstaða — það verður aldrei sagt of oft —, að vilja láta annan höfuðbanka þjóðarinnar hrynja, og það þrátt fyrir það, að matsnefndin, sem þeir eiga fulltrúa í, hefir komizt að þeirri niðurstöðu, að bankinn eigi nærri því fyrir skuldum. Hvað er það þá, sem er tapað? Það er þetta hlutafé, sem þeir hafa hatað eins og pestina, — það er nú annars skrítið, að þessir menn skuli hata danskt hlutafé.

Þá spurði hv. 2. þm. Reykv. um eina ákæru, hvort hún væri sönn, — hvort það hefði komið fram eftir lokunina, að 100 þús. kr., sem átti að borga inn á veð til Landsbankans, hafi ekki verið borgað inn á þetta veð. Sannleikurinn er sá, að eins og allir vita, hefir Íslandsbanki „kontó“ hjá Landsbankanum, 3.365.000 kr., og til tryggingar þessari „kontó“ hafa verið settir víxlar úr Íslandsbanka. Sá síður hefir verið um þessi viðskipti, að þegar víxlar eru fallnir í gjalddaga, er ekki farið með peninga í Landsbankann, heldur er farið með nýja víxla til tryggingar í stað þeirra, sem borgaðir voru. Þessi viðskipti fóru þannig fram, að einn viss maður úr Landsbankanum og annar viss maður úr Íslandsbanka gerðu þetta upp á nokkrum fresti. Þegar bankanum var lokað, hafði þessum mönnum yfirsézt um þetta, og því lentu þessir peningar ekki í Landsbankanum, eins og átti að vera. Bankastj. vissi ekki um þetta fyrst, en síðar skýrði hún matsnefndinni frá því.

Ræðu hv. 2. þm. Reykv. sé ég svo ekki í sjálfu sér ástæðu til að svara miklu meira en ég hefi gert, — get látið mér að mestu nægja að vísa til þess, sem ég sagði í ræðu minni í kvöld. Frá hans hendi kom ekkert nýtt fram. Hann nefndi bankastjóraskipunina. Það mál er svo gamalt, að mér þykir ekki ástæða til að fara að færa fram varnir, sem ég hefi áður fært fram, en þess má aðeins geta, að auðvitað var ég ekki einn um þá skipun, heldur annar ráðh. með. Mín undirskrift var aðeins formsatriði, enda svo ákveðið, að forsrh. undirritaði skipunarbréf í hin hærri embætti, enda þó veitingin eða till. um hana heyrði undir annan ráðh. En auðvitað réð fagráðherrann raunverulega mestu um skipunina. Hv. þm. sagði, að Nemesis hefði kveðið upp þann dóm yfir mér, að ég færi úr bankanum. Ég skal ekki um það segja, hvort forsjónin er að koma einhverri hefnd á hendur mér, ég get ekki sjálfur gert þann hlut upp. En það vil ég láta hv. þm. vita, að það hafa verið gerðar fleiri en ein atrenna til þess að koma mér burt úr bankanum. En ég hefi þrátt fyrir þetta haldið rólega áfram minni stefnu í stjórnmálunum og ekki kært mig um bankastjórastöðuna. Seinast nú, þegar bankanum var lokað, hefi ég sagt, að ef það yrði til þess,að stj. vildi bjarga bankanum, gæti mín bankastjórastaða verið laus hvenær sem væri. Og ég get líka sagt þessum hv. þm. það, að þann tíma, sem ég hefi verið bankastjóri, hefir verið margt annað að gera en að taka á móti laununum. Sannarlega eru það margar áhyggjustundir, sem fylgt hafa því starfi, og m. a. hafa skapazt af þeim óróa og ófriði, sem gerður var kringum bankann. En það er mér óhætt að fullyrða, að öll starfsemi bankastj. hefir miðað að því að leiða bankann gegnum þessar hættur. Og því er ekki að neita, að bankastj. tókst að leiða hann gegnum margar hættur. En þegar andstaðan að lokum kom frá þeim, sem maður bjóst við hjálp af, þá var ekki lengur á valdi bankastj. að leiða bankann gegnum brim og boða stjórnmálanna. Ég veit, að hv. þm. gleðst yfir, að ég fer úr bankanum — en verður gleðin seinna eins mikil og hún er nú?

Annars er vert að athuga einn hlut í þessu sambandi. Það er það, að fyrir starfsemi beggja bankanna — og ekki síður Íslandsbanka — hafa með þjóð vorri skapazt ákaflega sterkir atvinnuvegir. Útflutningur þeirra nemur 60–70 millj. króna. En þessi starfstími felur í sér mjög erfið ár, þegar bankar annarsstaðar hafa hrunið, svo að okkar bankar hafa tapað stórfé. En mikið af þessum töpum hefir runnið til atvinnuveganna og því ekki farið til einskis. Og nú er okkar atvinnulíf orðið svo margbrotið og stórfellt, að bankarnir eru orðnir allt of litlir til þess að geta fullnægt öllum þeim kröfum, sem útvegur, verzlun og landbúnaður gerir til slíkra stofnana. Atvinnuvegirnir hafa vaxið stórkostlega, en við höfum ekki gætt þess, að láta bankana vaxa líka. Þess vegna væri það sá háskalegasti misskilningur, þegar atvinnuvegirnir eru í vexti, að stöðva annan höfuðbankann. Fyrir atbeina góðra manna er líka verið að stýra hjá þessu skeri.

Ég þykist nú hafa svarað í höfuðdráttum þessum árásum og aths., sem hér hafa komið fram; og satt að segja er mér óljúft að þurfa að endurtaka það sama, sem ég er margbúinn að setja skýrt fram.