07.03.1930
Neðri deild: 47. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1998 í B-deild Alþingistíðinda. (2533)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Frsm. minni hl. (Héðinn Valdimarsson):

Vegna þess að ég hefi ekki nema stutta aths. eftir, nenni ég ekki að eltast við orð hv. þm. Dal., en langaði aðeins til að segja nokkur orð um hina stuttu ræðu hv. þm. Mýr. Í raun og veru væri nægilegt að segja, að sannleikanum verður hver sárreiðastur, því að öll sú vonzka, sem kom fram í ræðu hans, var einungis út af því, sem ég sagði satt um atferli hv. þm. V.-Ísf. og hans í þessu máli, — að þeir, að fornspurðum flokki sínum og í óþökk hans og hæstv. stj., sem þeir enn þykjast styðja, komu fram sem flugumenn á Alþingi, og að afleiðingarnar verða augsýnilega þær, að lánardrottnar Íslandsbanka fá miklu betri kjör — á kostnað almennings hér á landi — heldur en ella. Og hv. þm. Mýr. veit það ósköp vel, að eins og hefir verið sundurlyndi innan Framsóknarflokksins á þingi um þetta mál, eins er ekki síður óánægja meðal kjósenda þess flokks úti um sveitir landsins, vegna framkomu flugumannanna.

Það er satt að segja hlægilegt, þegar þyngsti landsómaginn, sem til er, fer að tala um bitlinga —, maður, sem meiri hl. þings og stjórnar hefir orðið að skapa embætti handa, hvert á fætur öðru, til þess að hann gæti lifað. Einn gagnkunnugur samflokksmaður hans sagði nýlega, þegar þetta bankamál var til umr. og þessi hv. þm. talaði: „Þú hefðir ekki talað svona, ef þú hefðir ekki verið orðinn bankastjóri Búnaðarbankans!“ — Þetta sýnir ákaflega vel það álit, sem er á honum innan flokks hans sjálfs. Það kannast allir við söguna um asnann, sem stóð milli tveggja jatna fullra af heyi og dó vegna þess að hann vissi ekki, úr hvorri jötunni hann ætti að éta. En hv. þm., sem fyrrum var svipaðastur þessu vesalings dýri, er þó nú orðinn svo mikill fjármálamaður, sem enginn hefði trúað honum til áður, að hann er farinn að éta úr báðum jötunum í einu.