07.03.1930
Neðri deild: 47. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2013 í B-deild Alþingistíðinda. (2539)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Magnús Torfason:

Ég ætla ekki að skemmta áheyrendum í þetta sinn, heldur beina nokkrum orðum til hv. þdm. út af till. hv. þm. V.-Húnv., sem ég hefi talað lítilsháttar um áður. Mér þótti leitt, að hv. þm. V.-Ísf. skyldi ekki geta fallizt á hana, þótt ég hinsvegar verði að taka fram, að ástæður þær, sem hann færði fyrir því, virtust ekki mikils virði. Hann sagðist ekki geta fylgt brtt., af því að samþ. hennar mundi geta spillt fyrir hlutafjársöfnuninni. En ég get ekki gert neitt úr þessu. Rófan er nú einu sinni föst aftan við frv. þetta. Og þeir, sem eiga fé í Íslandsbanka, bjarga bezt sínum hag með því að leggja það fram bankanum til styrktar.

Annað, sem hv. þm. V.-Ísf. bar fyrir sig, var það, að samtök væru um það gerð að láta frv. ná fram að ganga óbreytt í því formi, sem það er nú. Ég þekki ekkert til þessara samtaka og get fullyrt, að ekki hefir það verið borið undir Framsóknarflokkinn. Sé um einhverja samninga að ræða í þessu efni, þá eru þeir á milli hv. þm. V.-Ísf. og einhverra manna, en alls ekki Framsóknarflokksins sem slíks.

Þá fór hann mörgum fögrum orðum um þetta nýja gróðafyrirtæki, sem hér væri í uppsiglingu. Ef það er rétt hjá honum, að þetta verði gróðafyrirtæki — sem ég ætla hvorki að sanna né afsanna —, þá er það eitt út af fyrir sig ein ástæðan enn til þess að samþ. brtt. hv. þm. V.-Húnv.

Hv. 1. þm. Skagf. spurði mig, eftir hverjum ég hefði það, að frv. mundi óhætt í hv. Ed., ef brtt. yrði samþ. Ég hefi ekki leyfi til að skýra frá því, sem hv. þm. Ed. hafa við mig talað, og mun heldur ekki hafa það í hávaða, sem sagt er við mig einslega. Annars hélt ég, að hv. 1. þm. Skagf. hefði verið auðvelt að afla sér upplýsinga um þetta, því að þeir fáu hv. þm., sem þetta veltur á, hafa verið hér í kvöld. Auk þess mætti benda honum á, að 6 þm. í hv. Ed. vildu samþ. till., sem var miklu harðari og gekk lengra en þessi brtt. hv. þm. V.-Húnv.

Hv. 1. þm. Skagf. lét í veðri vaka, að mig hefði verið að dreyma. Ég held, að ég hafi ekki farið með neitt draumarugl eða slegið út í fyrir mér á neinn hátt. En ég held, að þetta orsakist af því, að hann sjálfan hafi verið að dreyma um það, að þetta mál mundi geta orðið hæstv. stj. að falli, en vaknar svo við þann skelfilega veruleika, að svo muni ekki verða.

Það er játað af ýmsum hv. þdm., og hæstv. fjmrh. hefir einnig lýst því yfir, að brtt. væri til bóta. Þess vegna fæ ég ekki skilið, hvers vegna ekki má þá samþykkja hana. Mér finnst, að í þessu liggi vantraust til hv. þm. Ed. um, að þeir mundu seinka málinu og neita um afbrigði, ef málið yrði endursent þangað. En slíkt vantraust verð ég að telja óverðskuldað á meðan annað kemur ekki í ljós. Ef brtt. yrði samþ., mætti taka málið þegar til meðferðar á morgun í hv. Ed. og ganga þá endanlega frá því.