07.03.1930
Neðri deild: 47. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2015 í B-deild Alþingistíðinda. (2541)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég hefi ekki séð ástæðu til þess að tala um þetta mál, og liggja til þess þær ástæður, að hæstv. fjmrh. hefir talað af hálfu stj., og þarf ekki við það að bæta, og svo eru forlög þessa máls þegar ráðin. Það eru aðeins tvö smáatriði, sem ég vildi minnast lítilsháttar á.

Hv. frsm. minni hl. fór fram á, að öll skeyti væru birt, sem farið hafa á milli stj. og umboðsmanna hennar erlendis um þetta mál. Hv. þm. getur fengið að sjá þessi skeyti, og býst ég þá við, að við getum orðið sammála um, hvað af þeim skuli birta og hvað ekki.

Hitt atriðið er viðvíkjandi brtt. hv. þm. V.-Húnv., og get ég þá sagt, að fyrir mitt leyti hefði ég getað samþ. hana. En í hv. Ed. varð það að samkomulagi í fyrradag að afgreiða málið á þeim grundvelli, sem er í von um endanlegt samkomulag. Og þar sem ég átti minn þátt í þessu samkomulagi, mun ég standa við það með atkv. mínu nú.

Að síðustu vildi ég svo bæta við örfáum orðum út af þeim reipdrætti, sem hefir verið um þetta mál. Það hefir oft verið haft að orðtaki um okkur Íslendinga, að við værum helzt til oft ósammála um það, sem bezt má gegna, og það ekki hvað sízt nú á síðari tímum.

Þegar þetta mál kom fram, tóku menn strax eftir þeim deilum, sem út af því spunnust, og eins og áhorfðist, þá hefðu menn getað búizt við frekari deilum, sem ekki mundi lægja í bráð. En samt fer nú svo, að þegar binda á enda á þetta mál, þá fallast báðir aðalflokkar þingsins í faðma og taka saman höndum um afgreiðslu þess. Og þó að raddir heyrist frá þriðja flokknum — jafnaðarmönnum —, sem ganga á móti frv., þá er nú ekki ýkjamikið djúp staðfest þar á milli eða mikið, sem skilur. Enda fórust formanni Alþýðuflokksins (JBald) þannig orð í hv. Ed., að þetta frv. væri næstbezta lausnin á málinu, eins og því væri komið.

Ég verð því að segja, að það sé ánægjulegt að geta sýnt, að þó að við Íslendingar deilum innbyrðis, þá getum við þó orðið sammála og tekið höndum saman, þegar mikið liggur við. Í því sambandi vil ég minna á það, sem kveðið var til forna um Einherja:

„Val þeir kjósa

og ríða vígi frá

sitja meirr of sáttir saman“.

Þegar þetta mikla áfall, sem landið hefir orðið fyrir með lokun Íslandsbanka, er liðið hjá, vil ég vona, að upp úr rústunum rísi ný og öflug stofnun til mikillar farsældar fyrir þessa þjóð og atvinnuvegi hennar.