13.03.1930
Efri deild: 50. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2019 í B-deild Alþingistíðinda. (2554)

42. mál, rafmagnsdeild við vélstjórnaskólann

Frsm. (Jón Þorláksson):

N. hefir orðið sammála um nauðsyn þeirrar rafmagnsdeildar við vélstjóraskólann í Reykjavík, sem frv. þetta fer fram á, og leggur til, að það verði samþ. óbreytt að efni til. En n. hefir leyft sér að bera fram nokkrar brtt. á þskj. 252, sem eru þó aðeins orðabreyt. og hníga í sömu átt, að breyta orðinu „raf“ í samsettum orðum í „rafmagn“, t. d. að í staðinn fyrir „rafvélar“, eins og stendur í frv., komi rafmagnsvélar.

Þessi orðabreyting á sér dýpri rætur en í fljótu bragði virðist. Orðið „raf“ táknar efni, sem fundizt hefir á sjávarströndum norðlægari landa og er kunnugt allt frá fornöld. Þetta efni ætla menn að sé hörðnuð viðarkvoða, og var snemma notað til kvenskrauts og annara smáhluta.

En menn tóku eftir því snemma á öldum, að með því að núa þetta efni með tilteknum öðrum efnum, þá kom fram einskonar afl eða orka í rafinu, og þetta afl eða orku nefnum vér rafmagn. Á grísku nefnist rafið „elektron“ og á flestum Norðurálfumálunum heitir rafmagnið „elektricitet“, sem þýðir aðeins einhvern eiginleika ótiltekinnar tegundar, sem fylgir rafinu.

Íslenzk tunga hefir komizt þarna fram úr tungum annara þjóða og búið til orð, sem hún ein á út af fyrir sig, og lýsir með gleggri hugsun en aðrar tungur þeim eiginleika rafsins, sem hér um ræðir.

Nú hefir það verið svo alltaf, að Íslendingar hafa viljað geyma og vernda verðmæti og eiginleika tungunnar og sízt viljað slíta rökfestu og rökvísi hennar og skarpa hugsun í myndun samsettra orða. Þó hefir verið uppi önnur stefna og hún vaðið sérstaklega uppi í öðrum tungum, sem lýsir sér í því, að leyfa að nota orð og orðmyndir, sem hentug þykja í bili, eftir því sem hver vill. Þessi stefna hefir teygt anga sína hingað og lýst sér m. a. í því, hvernig ruglað hefir verið með réttritun okkar. Nú að síðustu hefir þó verið tekið af skarið í þessu efni og fyrirskipuð réttritun, sem sýnir vilja til að varðveita uppruna og samhengi tungumáls okkar.

N. hefir verið sammála um að nema á brott latmæli þetta, sem slæðzt hefir inn í frv., og vill halda fast í að glata ekki þeirri rökréttu hugsun tungunnar um þetta efni, sem geymzt hefir fram á okkar daga.

Vona ég svo, að þessar brtt. finni náð fyrir augum hv. þdm. og að ekki þurfi frekar að mæla fyrir þeim.