27.02.1930
Neðri deild: 38. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2022 í B-deild Alþingistíðinda. (2567)

45. mál, háskólakennarar

Hannes Jónsson:

Ég held, að það sé fremur hv. frsm., sem misskilur þetta frv., heldur en ég. Hv. 1. þm. Reykv., sem flutti þetta mál í fyrra, taldi það launamál eins og ég. Mér finnst það hefði átt að vera meira samræmi í skoðunum þeirra flm. á því, hvað í frv. felst, og að framsaga þess hefði mátt vera dálítið rækilegri.

Ég held, að það sé ekki prófessorsnafnbótin, sem er aðalatriði þessa frv. fyrir dócentana, heldur launahækkunin, sem henni fylgir. Og ef laun dócentanna eru of lág nú, er auðvitað rétt að hækka þau á sínum tíma; en mér finnst það ætti að bíða þangað til endurskoðun launalaganna í heild sinni fer fram, sem hlýtur að verða innan skamms.