12.04.1930
Efri deild: 76. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1020 í B-deild Alþingistíðinda. (257)

1. mál, fjárlög 1931

Guðmundur Ólafsson:

*) Ég flyt eina litla brtt., sem ég þarf ekki að fara mörgum orðum um til að skýra fyrir hv. d. En það, sem kom mér til að standa upp, var það, að mér fannst það á vanta, að hæstv. fjmrh. beiddi um orðið. Ráðh. eru vanir að gera það snemma, til að þakka fjvn. fyrir hennar gerðir. Nú held ég, að hv. n. hafi verið farið að leiðast eftir þakklæti frá hæstv. ráðh., en þó að mitt þakklæti sé lítils virði, get ég ekki annað en látið það í ljósi.

Í fjárl. var 51 þús. kr. halli og það er n. verk, að þetta var strax lagað, með því að hækka einn tekjulið um 60 þús. kr. Þegar þetta er búið, fer hv. n. að laga málið á sumum liðum í fjárl., og ég er henni þakklátur, því að á því var full þörf. En eitt hefir hv. n. skotizt yfir. Hún hefir ekki búizt við, að við dm. færum að auka útgjöldin, því að ef samþ. verður, þó að ekki sé nema minni hl. af hækkunartill. okkar dm., verða fjárl. ekki betri útlits en þau voru áður. En í staðinn fyrir þetta hefir það líklega átt að koma hjá hv. frsm n., að hann skýrði d. frá, hvernig farið hefði um tekjurnar undanfarin ár. Hann sagði, að þær hækkuðu alltaf, þær hefðu hækkað mest, síðastliðið ár og svo var á hv. frsm. að skilja, að við mættum vera vongóðir um, að þær héldu áfram að hækka. Ég vildi nú óska, að þetta yrði svo, þó að ég sé ekki eins bjartsýnn á það og hv. frsm. Brtt. hv. dm. sýna þó, að þetta er þeirra dómur. Það er ekki vandfarið með fjárl. ef alltaf má treysta þessu: Ég vona nú, að svo fari ekki, að þingið hrökkvi við og sjái, að ekki er takmarkalaust hægt að treysta á betra og betra árferði og meiri og meiri tekjur.

Þegar hv. fjvn. var búin að auka tekjurnar, svo að á stóðust tekjur og gjöld, og búin að laga málið, þá fór hún að ákveða, hvað ríkissjóður þyrfti að gefa fátæklingum eftir. Það hefði sjálfsagt ekki gert ríkissjóðnum mikið til, þó að n. hefði gleymt þessu. Mín skoðun er sú, að n. hefði frekar átt að taka einhvern gjaldalið út af fjárl., sem talsvert munaði um, til þess að vega á móti því, sem búast mátti við, að bættist í fjári. Einhver sagði, að hækkanir vegna brtt. dm. mundu nema 200 þús. kr. Þær ganga allar aftur, en eru þó ekki eins og uppvakningarnir, miklu verri viðfangs eftir að búið er að vekja þær upp en í lifanda lífi. Brtt. draga alltaf saman seglin, af þeirri hvimleiðu ástæðu í þingsköpum, að ekki má flytja sömu till. orðrétt aftur.

Ég verð að játa, að margar eru brtt. mjög sanngjarnar og eiga við rök að styðjast. En þetta er bara svo takmarkalaust. — Ég hugsa, að ég hafi ekki bætt fyrir mér hjá hv. n. með brtt. minni, en hún er svo ákaflega lágvaxin, að ég vona, að d. sjái sér fært að samþ. hana.

Ég fer fram á, að Fiskiræktarfélaginu Blöndu verði greiddur 1/3 kostnaðar við að lagfæra farveg Blöndu undan Enni. Form. félagsins vildi, að ég færi fram á 1/3 kostnaðar við rekstur þessara tilrauna í 4 ár. Við því hefi ég ekki getað orðið, og fer því ekki fram á styrk nema þetta eina ár og ekki hærri en 1/3 kostnaðar, sem kannske má segja um, að sé of lítið. Enda má eflaust segja, að þessir menn, sem standa að Fiskiræktarfélaginu Blöndu, geti orðið landinu til gagns og sóma, ef tilraunir þessar heppnast, engu síður en aðrir, sem hér hefir verið talað um.

Þetta mál kom fyrir á þingmálafundi á Blönduósi í vetur, og var þar vel tekið og samþ. með öllum greiddum atkv.

Og af því að það er siður hv. þm., þegar þeir þykjast ekki geta skýrt málin nógu vel, að lesa upp úr skjölum, sem þeir hafa með sér, þá ætla ég að lesa upp úr þingmálafundargerðinni það, sem um mál þetta er bókað — með leyfi hæstv. forseta:

„Út af tilraunum þeim, sem þegar eru byrjaðar til að koma lagagöngu í Blöndu og þverár hennar, skorar fundurinn á Alþingi að styrkja þær fyrstu fjögur árin, þannig að kostnaðurinn af þeim verði ekki tilfinnanlegur fyrir hlutaðeigendur. Till. samþ. með öllum greiddum atkv“.

Ég tel aldeilis víst, þó að hv. þdm. þekki ekki til hlítar, hvernig stendur af sér um þennan félagsskap norður þar, að þá sýni þeir svo mikla sanngirni og mikil hyggindi, að þessi brtt. mín fái flestöll atkv. hv. d.

Nenni ég svo ekki að hafa þessi orð fleiri, enda tel ég þýðingarlaust að halda langar ræður um einstakar brtt. við fjárl.

*) Ræðuhandrit óyfirlesið.