12.04.1930
Efri deild: 76. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1022 í B-deild Alþingistíðinda. (258)

1. mál, fjárlög 1931

Jónas Kristjánsson:

Ég hefi nokkrar brtt. á þskj. 497 og 499, sem ég vona, að hv. þdm. líti með velvild á. Er það hvorttveggja, að hér er aðeins um smáar fjárhæðir að ræða, enda hefi ég ekki verið kröfufrekur í fjárstyrkjum til einstakra manna, hvorki á þessu þingi eða áður.

Fyrsta till. er á þskj. 497, IX., og er um 3.000 kr. styrk til Kristins Björnssonar læknis, til þess að ljúka skurðlækninganámi í París.

Um mann þennan er það að segja, að hann byrjaði tiltölulega ungur á námi og fór óvenjulega hratt bæði í gegnum menntaskólann og Háskóla Íslands. Sýndi hann, að hann var bæði bráðþroska og ötull og áhugasamur námsmaður með því að ljúka báðum þessum prófum — menntaskóla- og háskóla — á tiltölulega skömmum tíma, og þó með hárri 1 einkunn.

Sem ungur kandidat var hann settur héraðslæknir í Hofsós nokkra mánuði og kynntist ég honum þá, auk þess sem hann var hjá mér dálítinn tíma.

Skömmu síðar sigldi Kristinn Björnsson til Danmerkur og gekk þar í fæðingarstofnanir og spítala. En áhugi hans stefndi í þá átt að fullkomna sig sem bezt í skurðlækningum, og hvarf hann því von bráðar til Parísar, enda eru þar álitnir beztir og fullkomnastir skólar í þessum efnum. Stríðið gaf læknum þar mikla æfingu í skurðlækningum, enda hafa franskir læknar þótt um langt skeið skara fram úr í „teknik“.

Í París hefir Kristinn Björnsson dvalið nálægt fjórum árum og getið sér hinn bezta orðstír, sem má sjá á ágætum meðmælum, er frægir skurðlæknar hafa gefið honum. Hann hafði ætlað sér að geta lokið við námið á næsta sumri, og býst við hann mundi gera það, ef efni væru fyrir hendi, en nú er einmitt efnaskortur farinn að sverfa mjög tilfinnanlega að honum. Faðir hans var í meðallagi efnaður bóndi til að byrja með, en það þarf stórt bú til að kosta mann við nám í París svona langan tíma, eða um fjögra ára bil. Allan þennan tíma hefir Kristinn engan styrk fengið nema frá föður sínum, sem nú er orðinn skuldugur, auk þess, sem nokkrir vinir hans hafa eitthvað hlaupið undir bagga með honum. Hann sótti um styrk til þingsins í fyrra, en fékk þá enga áheyrn. En nú er svo komið fyrir honum, að tvísýnt er um, að hann nái þessu langþráða marki, sem hann hefir sett sér, nema að honum komi hjálp einhversstaðar frá. Ég þekki þennan mann vel og hefi skrifazt á við hann og veit með vissu, að það hefir sorfið svo að honum efnaskortur upp á síðkastið, að hann hefir ekki notið sín til fullnustu við námið. En hann hefir sýnt fram að þessu, að hann er framúrskarandi viljafastur maður, sem ekki gugnar, þó ýmislegt blási á móti. Því hefir hann stundað námið af mesta kappi eins og ég hefi áður sagt, enda er ég viss um, eftir því sem ég þekki til mannsins, að árangurinn af þessu námi hans verður hinn bezti. Það er heldur ekki þýðingarlaust fyrir land og þjóð að fá í læknahóp sinn jafn lærðan og menntaðan mann eins og Kristinn Björnsson. Það getur orðið til mikils góðs fyrir marga. Okkar góðu skurðlæknar fara senn að eldast. Þetta starf slítur mönnum svo að þeir endast illa. Alþingi þarf ekki að, sjá eftir þessum litla styrk og það til manns, sem aldrei hefir notið opinbers styrks áður. Ég vona því, að hv. d. líti með velvilja til þessa manns, er sýnt hefir svo mikinn áhuga og þol að berjast við fátækt árum saman til þess að ná þeirri fullkomnun, sem keppt er að, og veiti þennan styrk. Ég ætla svo ekki að fjölyrða frekar um þessa brtt. en vænti sem sagt, að þessi maður fái þennan umbeðna styrk.

Þá hefi ég leyft mér að bera fram brtt. um styrk til annars manns, og er það XX. brtt. á sama þskj.:

„Til Þórðar Kristleifssonar, utanfararstyrkur til söngfræði- og söngkennslunáms, 1.000 krónur“.

Það hefir verið sagt um íslenzku þjóðina, að hún væri bæði söngvin og sönghneigð. En það varðar miklu hér sem annarsstaðar, að þeir menn, sem ætla að gerast leiðtogar þjóðarinnar og kennarar á þessu sviði, séu starfi sínu vaxnir og sem bezt menntaðir í sinni grein. Ég skal játa, að ég þekki ekki mikið þennan mann, sem hér er um að ræða, en hann hefir fengið beztu meðmæli þeirra manna, er þekkja hann vel og gott skynbragð bera á þessa hluti. Skal ég þar til nefna Pálma rektor Hannesson, Freystein Gunnarsson kennaraskólastjóra, Ingimar Jónsson skólastjóra, fröken Ingibjörgu H. Bjarnason skólastjóra Kvennaskólans í Reykjavík og Pál Ísólfsson organleikara og listamann. Og með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa nokkrar línur úr meðmælum Páls Ísólfssonar. Þar segir svo um Þórð Kristleifsson:

„Mér er mjög ljúft að mæla með, að honum verði veittur styrkur til fararinnar. Hann er tvímælalaust lang áhugamesti maður á þessu sviði allra Íslendinga, sem ég hefi þekkt. Og þar sem þar við bætist; að hr. Þórður Kristleifsson er þegar mjög menntaður í sönglist og hefir með góðum árangri kennt þrjá undanfarna vetur tónmyndunarfræði og sýnt miklar gáfur samfara nákvæmni við það starf, virðist mér mega vænta mikils af honum í framtíðinni, ef hann nú fær tækifæri til að kynna sér söngkennsluaðferðir við skóla til hlítar, þar sem þær eru lengst á veg komnar“.

Og lík þessu eru flest hin meðmælin, og sé ég því ekki ástæðu til að lesa upp úr þeim. Vænti ég því hins bezta af hv. þdm., er þeir greiða atkv. um þessa litlu styrkveitingu.

Þá eru það tveir menn aðrir, sem ég hefi leyft mér að mæla með og gera brtt. um, sem borin er fram á þskj. 499.

Það er til Odds Oddssonar, til ritstarfa um íslenzka þjóðhætti, 600 krónur, og til Margeirs Jónssonar, til fræðistarfa, er snerta mál og menningarsögu Íslands, sömuleiðis 600 kr.

Báðir þessir menn höfðu sótt til þingsins um allt að 1.500 króna styrk, og voru teknir upp í hv. Nd., en felldir niður hér við 2. umr. Nú er farið fram á að veita þessum fræðimönnum örlitla áheyrn, eða 600 krónur hvorum.

Um Odd Oddsson er það að segja, að hann hefir undanfarin ár skrifað ýmislegt um íslenzka þjóðhætti, sem haft er að ágætum. Þeir, sem lesið hafa Eimreiðina undanfarin ár, vita þetta, svo að óþarft mun að fara frekar út í það nú. En maður þessi er aldurhniginn og fjárhagur hans þröngur. Ýmsir merkir menntamenn hafa hvatt hann til að sækja um styrk til þingsins, og fyrir þær hvatir og þörf, og svo af því að hann hefir löngun til að halda áfram að skrifa á meðan heilsan endist, hefir hann snúið sér til þingsins um allt að 1.500 kr. styrk. Og þar sem styrkur þessi hefir verið lækkaður niður í 600 kr., vænti ég, að hv. þdm. sjái sér fært að samþ. brtt. mína.

Margeir Jónsson er talsvert kunnur af ritstörfum sínum. Hann hefir meðal annars skrifað talsvert um örnefni, og einkum þó um bæjarnöfn fyrr og síðar. Hann sótti einnig um allt að 1.500 kr. styrk og hefir fengið ágætis meðmæli ýmsra þjóðkunnra fræðimanna, þar á meðal frá Ólafi prófessor Lárussyni, og vildi ég mega, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp þetta skjal:

„Alþingi hefir stundum að undanförnu styrkt lítilsháttar fræðimenn úr alþýðustétt, er við þjóðleg fræði hafa fengizt. Það mun ekki nema svo ýkja mikilli upphæð samlagt féð, sem lagt hefir verið af mörkum úr ríkissjóði í þessu skyni, en betur færi, að allar fjárveitingar þingsins hefðu borgað sig eins vel og þessar, því eftirtekjan af þeim hefir orðið mikil. Menn þessir hafa unnið starf sitt vel og trúlega og ekki unnið það vegna styrksins, heldur vegna ástar sinnar og áhuga á hinum þjóðlegu fræðum, sem þeir hafa verið að safna. Íslenzk fræði standa líka í óborganlegri þakklætisskuld til margra þessara manna, eins og Sigurðar Vigfússonar, Brynjúlfs frá Minna-Núpi og Sigfúsar á Eyvindará, sem hafa bjargað svo ótal mörgu, er annars hefði glatazt. Verkefnin eru ennþá mörg, sem eftirmanna þeirra bíða. Einn þeirra sækir nú um lítilsháttar styrk úr ríkissjóði til fræðiiðkana sinna. Það er Margeir kennari Jónsson á Ögmundarstöðum. Hann er fyrir löngu búinn að sýna það í verki, að hann er ágætlega til slíkra fræðiiðkana fallinn, svo að fyllsta ástæða er til að vænta þess, að hann verði hinn mesti nytsemdarmaður í þjóðlegum fræðum vorum, ef honum endist líf og heilsa, og ef hann efnahags síns vegna getur gefið sér tóm til að fást við þau. En hann er fátækur einyrki, og þess er engin von, að hann geti framvegis gefið sig við fræðistörfum, nema hann njóti til þess einhvers fjárstyrks. Ég vil því mæla hið bezta með umsókn hans. Ég er þess fullviss, að Margeir Jónsson vinnur margfaldlega fyrir styrknum, sem hann sækir um. Ég er þess jafnframt fullviss, að það væri mikið tjón fyrir þjóðleg fræði vor, ef maður með jafn miklum áhuga á þeim og Margeir Jónsson hefir, og jafnvel til þess fallinn að vinna þeim gagn, fengi vegna fjárskorts ekki notið sín við þau. Margeir Jónsson hefir sérstaklega haft áhuga á söfnun örnefna og unnið að henni eftir föngum. Geri ég ráð fyrir, að hann myndi einkum snúa sér að örnefnasöfnun framvegis, ef hann á þess nokkurn kost. Er það svið þjóðlegra fræða vorra, sem einna mest hefir verið vanrækt hingað til og þó er næsta mikilsvert. Týnast og örnefni nú sem óðast um landið, svo að ekki er seinna vænna að safna þeim. Geti Margeir Jónsson fengið tækifæri til að gefa sig að þeirri söfnun, þá er það víst, að síðari tímar munu telja mikinn feng að starfi hans og ekki sjá eftir fénu, sem honum hefir verið veitt til þess úr ríkissjóði“.

Það er nú um fátæka einyrkja úr bændastétt að segja, að það þarf ekki lítinn áhuga til að afkasta eins miklu í ritstörfum og Margeir Jónsson hefir gert. Það þarf mikla elju til þess að inna slík störf af höndum svo vel sé, því að öll vinna er svo dýr, að einyrkjabændur hafa ekki ráð á að kaupa hana. En áhuginn og dugnaðurinn hefir borið Margeir Jónsson áfram, og þess vegna hefir hann orðið jafn liðtækur við ritstörfin og raun ber vitni um.

Vona ég því, að hv. d. sjái sóma sinn í því að veita Margeiri Jónssyni þessa litlu viðurkenningu með því að samþ. brtt. mína. Upphæðin er þó aðeins tæpur helmingur af því, sem hann fór sjálfur fram á að sér væri veitt, og ætti hv. d. því fremur að geta fallizt á að veita þessa litlu upphæð.