03.02.1930
Efri deild: 12. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2026 í B-deild Alþingistíðinda. (2584)

50. mál, ríkisborgararéttur

Flm. (Ingvar Pálmason):

Svo stendur á þessu frv., að seint á þingi í fyrra bárust mér tilmæli frá manni þeim, er um ræðir í frv., um að flytja frv. þess efnis, að honum yrði veittur íslenzkur ríkisborgararéttur. Frv. um veitingu ríkisborgararéttar var þá til meðferðar í þinginu og komið til síðari deildar, og var með því fjórum mönnum veittur ríkisborgararéttur. En með því að mér bárust tilmæli þessi svo seint, taldi ég ekki rétt að bæta þessum manni við þá, þar sem það gat orðið til þess, að frv. næði ekki fram að ganga á því þingi, og væri skjólstæðingur minn þá engu bættari, enda voru plögg þau, er ég hafði frá honum þá, heldur eigi fullnægjandi.

Nú hefi ég flutt þetta frv. eftir beiðni hans, og vona ég, að deildin bregðist vel við ósk hans. Þessi maður hefir verið búsettur í Neskaupstað síðan 1924, er giftur íslenzkri konu, og eiga þau tvö börn. Hann skilur íslenzku allvel. Hann hefir eignazt hús þar í kaupstaðnum og óskar nú fyrir sína hönd og konu sinnar, sem misst hefir ríkisborgararétt við giftinguna, að mega gerast íslenzkur borgari. Þar sem ég á sæti í n. þeirri, er mun fá málið til meðferðar, mun ég gefa þar nánari upplýsingar. Ég skal aðeins bæta því við, að þessi maður hefir kynnt sig mjög vel og er hið bezta látinn af samborgurum sínum.