08.03.1930
Neðri deild: 48. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2029 í B-deild Alþingistíðinda. (2605)

223. mál, gengisviðauki

Fjmrh. (Einar Árnason):

Eins og frv. ber með sér, hefir fjhn. flutt það fyrir mín tilmæli, og vil ég þakka henni fyrir að hafa orðið við því.

Ég býst við, að flestum þm. komi saman um, að eins og nú stendur um útgjöld ríkjssjóðs, geti hann ekki misst tekjurnar af gengisviðaukanum. Það hefir verið gert ráð fyrir, að milliþinganefndin, sem starfað hefir og starfar eitthvað áfram að skattalöggjöf og tollamálum, taki þetta mál fyrir, þegar henni vinnst tími til. Mþn. hefir nú afgr. frv. um tekjuskatt og eignarskatt og jafnframt frv. um verðtoll, en um önnur tollamál hefir hún ekki getað gert till. enn. Og því er þetta frv. nauðsynlegt, til þess að ríkissjóður geti haldið þessum tekjum, þangað til n. hefir fundið annan grundvöll undir tollalöggjöf.

Mér skilst, að þar sem fjhn. hefir flutt frv. þetta, þá sé þýðingarlaust að vísa því til n. aftur. Ég óska, að hv. deild láti málið ganga áfram sem greiðast.