22.03.1930
Efri deild: 58. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2031 í B-deild Alþingistíðinda. (2614)

223. mál, gengisviðauki

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Fjhn. hefir ekki orðið fyllilega sammála um þetta frv. Hv. 4. landsk. skrifaði ekki undir nál. á þskj. 306, tjáði sig ekki mundu skila nál., en gera grein fyrir afstöðu sinni við umr. málsins í deildinni. Meiri hl. n. lítur svo á, að ekki sé fært annað en að samþ. þetta frv., þar sem nú er svo áliðið þings og litlar líkur til, að nokkur veruleg tekjuaukafrv. geti gengið fram á þessu þingi. Að vísu hafa komið fram í Nd. frv. um tekjuauka, en ég tel litla von, að þau gangi fram. Hinsvegar gerir fjárlagafrv., sem nú er í meðferð, ráð fyrir þessum tekjustofni áfram. Og eftir því, sem út lítur með afgreiðslu fjárlagafrv., þá eru ekki líkur til, að ríkissjóður geti misst af þessum tekjum. Hinsvegar er rétt að taka fram, að það er aðeins af þessum ástæðum, að meiri hl. leggur til, að frv. verði samþ., en vildi helzt, að þessi tekjustofn væri numinn burt. En þar sem auðséð er, að það er ekki hægt á þessu þingi, nema því aðeins, að afkomu ríkissjóðs sé stefnt í óheillavænlegt horf, þá leggjum við til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.