03.03.1930
Neðri deild: 42. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2039 í B-deild Alþingistíðinda. (2653)

195. mál, fiskveiðasamþykktir og lendingarsjóðir

Flm. (Pétur Ottesen):

Í 1. frá 1917 um fiskiveiðasamþykktir og lendingarsjóði er meðal annars kveðið á um það, að gera megi samþykktir í verstöðvum þess efnis, að allir bátar, sem stunda fiskveiðar þaðan, skuli róa á svipuðum tíma. Þetta þykir mjög hagkvæmt, sérstaklega á vetrarvertíðinni, og ber margt til þess. Meðal annars, að það er mikið öryggi í því, að allir bátar séu á sjó á sama tíma, og því fremur, sem bátar frá sömu verstöð sækja venjulega á sama mið. Auk þess er það mikið hagkvæmnisatriði gagnvart veiðarfærum, að þeir leggi þau á svipuðum tíma, því að þá verða þau miklu reglulegar lögð og flækjast því minna saman. En af því stafa oft miklir erfiðleikar og tjón. En þegar l. um þetta voru sett, þá náði heimild í þessu efni ekki til stærri báta en 30 smál., en þá var líka lítið til af stærri bátum. Eins og kunnugt er, hafa bátar mjög stækkað í seinni tíð, og fáist ekki samkomulag aðilja um þetta atriði, þá er ekki hægt að setja neinar bindandi reglur um stærri báta en 30 smál., nema lagaákvæði komi til. Þess vegna er hér farið fram á, fyrir uppástungu nokkurra útvegsmanna á Akranesi, að þessi ákvæði séu miðuð við núverandi aðstöðu, og stærð báta færð upp í 60 smál.

Það má fullkomlega gera ráð fyrir, að þessi breyt. komi sér víðar vel, þar sem svipað stendur á og á Akranesi. Ég vil þess vegna vænta þess, að hv. deild taki vel í þetta mál. Og þar sem það er svo einfalt, sé ég ekki ástæðu til að gera till. um, að það gangi í nefnd.