12.04.1930
Efri deild: 76. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1053 í B-deild Alþingistíðinda. (267)

1. mál, fjárlög 1931

Erlingur Friðjónsson:

Þegar ég var að mæla fyrir till, mínum á þskj. 437, skildi ég af vangá eina eftir, sem sé XIV. till. á þskj. Hún fer fram á það, að veittar verði 35 þús. krónur handa bókasafni Norðuramtsins á Akureyri til byggingar yfir safnið, gegn jafnmiklu framlagi frá Akureyrarkaupstað. Ástand safnsins er svo, að í 30 ár hefir það orðið að vera í kjallara samkomuhússins, sem er eign kaupstaðarins. Þar hefir farið mjög illa um það, þrengsli mikil bæði í sjálfum bókaherbergjunum og á lesstofunni. Það er nú orðið langt síðan raddir heyrðust um, að brýna nauðsyn bæri til að byggja yfir safnið, og því hefi ég borið fram þessa till. mína. Eins og kunnugt er, er safnið eign Norðuramtsins. Aðstöðu til að nota það hafa allir, sem í Norðuramtinu búa, en vitanlega er það í raun og veru Akureyrarkaupstaður, sem mest góðs nýtur af safninu. Það er mjög mikið notað af þeim, sem sækja skóla til Akureyrar, og svo af almenningi í kaupstaðnum. Það er gert ráð fyrir, að sæmilegt hús muni kosta um 70 þús. kr.

Hv. frsm. fjvn. gat þess, að hæstv. fjmrh. hefði mælt á móti þessari till. og fleiri till., sem ég hefi flutt, m. a. um ríkissjóðsframlag til byggingar lesstofu fyrir nemendur menntaskólans á Akureyri og eldhúss fyrir heimavistina, og haft þau rök, að þessi mál væri lítt undirbúin. En ég verð að segja, að það er ekki ástæða til að undirbúa byggingu bókhlöðunnar frekar en orðið er. Safnið hefir verið í óhæfu húsi í 30 ár, og nú þarf ekki annan undirbúning en ákvörðun um að koma hinni nýju byggingu í framkvæmd. Sama má segja um byggingu lesstofunnar. Hennar er brýn þörf.

Þegar ég kom á fund fjvn. í dag, var hún búin að taka ákvörðun um að mæla á móti till. mínum. Það er að vísu ekki ástæða til að lá hv. meiri hl. n., þó að hann leggi á móti mikilli hækkun á fjárl., en ég vil benda á, að einmitt þeir sömu menn úr fjvn., sem leggja á móti till. mínum, vilja taka í fjárl. 75 þús. kr. til raforkuveitna. Mér finnst ekki svo mikið samræmi í störfum þessara nm., að ég geti borið respekt fyrir slíkum ályktunum. Þær bera það með sér, að þessir menn eru ekki að hugsa um fjárhag ríkissjóðs, heldur bæði það, hverjir bera till. fram, og hvort þjóðinni sé meiri nauðsyn á að fá fé til raforkuveitna eða þessara tveggja húsa. Þegar þess er síðan gætt, að nm. gera till. um þessar upphæðir allar, kemur það í ljós, að sá meiri hl., sem vill fella styrk til þessara tveggja húsa á Akureyri, er í raun og veru á móti því að taka út aftur 75 þús. kr. til raforkuveitna, og þá kem ég með mitt atkv. til að ýta út þeim pósti. Mér fannst það sanngjarnt, þegar nm. voru búnir að gera þær ráðstafanir, sem kunnar eru, um mínar till.

Ég hafði einu sinni hugsað mér að taka svolítið til eldhúsverka hér, og hafði búizt við — eftir því, sem heyrzt hafði undir væng — að íhaldsmenn létu eitthvað til sín heyra. Datt mér þá í hug að hjálpa svolítið til. En sá er ljóður á mínu ráði, að fyrri part nætur er ég frekar friðsamur og lítið gefinn fyrir að lengja umr. og tefja fyrir því, að ég og aðrir komist í bólið. Ég hefði því heldur kosið að hefja eldhúsdag kl. 6 að morgni, og þar sem svo er komið, að Íhaldið hefir alveg gefizt upp við að taka í hnakkadrambið á hæstv. stj., held ég, að ég gefist upp við það líka.

Ég verð að segja, að ég hefi ekkert sérstaklega mikið samvizkubit út af þeim útgjaldahækkunum, sem till. mínar fara fram á. Þegar ég sá, að jafngætinn maður í fjármálum og fyrrverandi sparnaðarbandalagsformaður (JÞ) kom með á einu bretti till. til hækkunar, sem nemur eins miklu og allar mínar samanlagðar, þá var ég ekkert óánægður yfir að hafa flutt mínar till.