26.02.1930
Neðri deild: 37. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2042 í B-deild Alþingistíðinda. (2673)

142. mál, slysatryggingar

Flm. (Héðinn Valdimarsson):

Á þinginu 1928 var gerð töluverð breyt. á slysatryggingalögunum. Bætur hækkuðu, og annað, sem ekki var síður til bóta, var, að þá komu dagpeningar, þegar menn urðu fyrir slysum. Þó var það tímatakmark sett, að menn fengju ekkert fyrsta mánuðinn eftir slysið, þótt þeir væru ekki vinnufærir. En sjómenn hafa rétt til bóta og alls sjúkrakostnaðar mánuð frá því, að þeir eru skráðir úr skiprúmi eftir sjólögum. Að því, er snertir sjómannatryggingar, kemur nú ekki til hækkunar, því að þeir hafa bætur allan tímann. En fyrir fátæka verkamenn og iðnaðarmenn getur þessi bótalausi frestur valdið erfiðleikum, ef þeir verða fyrir slysum og verða að vera rúmfastir af þeirri ástæðu um langan tíma. Dagpeningarnir, sem menn fá eftir fyrsta mánuðinn, eru 5 kr. á dag, og munar talsvert um það. Frv. fer fram á, að styttur sé tíminn, sem menn verða bótalausir, niður í eina viku.

Ég get þess, að eftir því, hvernig slysatrygging ríkisins stendur sig nú, þá virðast allar líkur til, að hægt sé að gera þetta án þess að hækka nokkuð iðgjöld frá því, sem er. — Ég vonast eftir, að frv. gangi til 2. umr. og allshn.