13.02.1930
Neðri deild: 23. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2050 í B-deild Alþingistíðinda. (2707)

25. mál, útflutningur hrossa

Frsm. (Jón Sigurðsson):

* Ég get sparað mér langa framsögu í þessu máli. N. hefir verið á einu máli um að styðja frv. með litlum breyt. Undanfarin ár hefir lítið verið hægt að selja af íslenzkum hrossum til útlanda, og hafa þau því fallið mjög í verði. N. finnst sjálfsagt, að öll ráð, sem líkleg eru til að greiða úr þessu máli, verði reynd, og þar á meðal þetta, sem frv. talar um. Útflutningur tveggja vetra hrossa er efalaust spor í áttina, að áliti nefndarinnar. Útlendingar eiga þess betri kost að auka þroska hestanna og ala þá upp eftir þeirra þörfum, ef þeir fá hestana tvævetra. Ætti þetta fremur að auka markaðinn fyrir hesta okkar. Hinsvegar er það svo með hesta þá, sem hingað til hafa einkum verið fluttir út, að þeir hafa verið þetta 4–5 vetra, og þess vegna búnir að fá nokkurnveginn þann þroska, sem þeir geta tekið á móti. Fyrir hrossaeigendur ætti þetta að vera fremur til bóta. Þar sem hrossarækt er komin í nokkurt lag, ganga tryppin undir hryssunum þar til þau eru tvævetur, og þess vegna verður þriðji veturinn langsamlega kostnaðarsamastur fyrir hrossaeigendur. Ef tekst að gera tvævetur hross að útflutningsvöru, þá losna hrossaeigendur við þennan kostnað. Það, sem n. telur þyí vinnast við þessa breyt., er í fyrsta lagi, að útlendingar fá betri hesta til eldis og við þeirra hæfi, og í öðru lagi, að bændur þurfa styttri tíma til þess að fá verð fyrir þessa framleiðsluvöru sína. Auk þess losna þeir þannig við áhættuna af hrossunum, bæði af vanhöldum og fóðurskorti, sem víða í hrossasveitum setur annan búpening í voða, ef hart er í ári.

Að þessu athuguðu leggur n. eindregið með frv., en þó með þeirri breyt., að sett sé ákveðið stærðarmark sem lágmark, 48 þuml. eða 126 cm., og megi ekki flytja út tvævetur hross, nema þau nái þessu máli. N. hefir borið þetta undir hrossa- ræktarráðunaut Búnaðarfélagsins, og er hann þessu meðmæltur. Tel ég svo ekki ástæðu til að tala lengur um þetta, nema sérstök andmæli komi fram.