13.02.1930
Neðri deild: 23. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2051 í B-deild Alþingistíðinda. (2708)

25. mál, útflutningur hrossa

Gunnar Sigurðsson:

Með því að ég hélt enga framsöguræðu við flutning þessa frv. hér í deildinni, þykir mér nú rétt að segja nokkur orð, aðallega til þess að þakka hv. landbn. og hv. frsm. réttan skilning og ágætar undirtektir. Ég er að mestu leyti sammála brtt. n. um ákveðið lágmark, 48 þuml., enda hafa öll hross, sem ég hefi selt til Danm. upp á síðkastið, verið með þessu máli minnst. En eitt er þó vert að athuga í þessu sambandi, nefnilega ef tekst að koma á útflutningi íslenzkra hrossa til Írlands, eins og áður var gert. Er ekki með öllu vonlaust um, að það gæti tekizt. Ef það heppnaðist, þá væri þetta stærðarmark með öllu óþarft, en að öðru leyti get ég sætt mig við það.

Ég hefi svo litlu að bæta við hina skýru og greinagóðu ræðu hv. frsm. Ég vil aðeins benda hv. þdm. á, að Danir nota hesta öðruvísi en við, því þeir nota þá mest fyrir léttar kerrur. Til þess geta þeir notað röska tvævetra hesta. Danir þekkja orðið íslenzka hesta vel. Þeir vita, að ef þeir fá þá unga og ala þá eins og þeir ávallt gera, verða þeir mun sterkari en þeir, sem hér alast upp á útigangi, og svo er annað: tamning yngri hesta verður mun auðveldari en hinna eldri.