06.02.1930
Efri deild: 15. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2053 í B-deild Alþingistíðinda. (2720)

64. mál, vigt á síld

Þm. (Erlingur Friðjónsson):

Á síðasta þingi flutti ég frv. sama efnis og þetta. Hlaut það góðar viðtökur hér í deildinni og var afgr. með flestum atkv. til Nd., en þar dagaði það uppi. Nú flyt ég þetta frv. aftur, því að ég tel það skipta talsverðu máli, að núverandi ástand um sölu síldar til bræðslustöðvanna haldist ekki lengur. Þar, sem síldin er mæld, mun ekki vera fylgt fyrirmælum í tilskipun um mælitæki og vogaráhöld frá 13. marz 1925, sem þó ættu að gilda við mælinguna. Að vísu hafa allmargir tekið upp vigt á síld, en almennt er það ekki ennþá, enda ekki í lögum, og leiðir af þessu óreglu um afhendingu síldar til verksmiðjanna.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um mál þetta, þar sem það fékk svo góðar undirtektir í fyrra, en óska, að því verði að lokinni umr. vísað til sjútvn.