04.04.1930
Neðri deild: 71. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2055 í B-deild Alþingistíðinda. (2731)

64. mál, vigt á síld

Ólafur Thors:

Það má að vísu segja, að þetta sé ekki stórvægilegt mál; en ég hygg þó, að þeir, sem hafa nokkurn kunnugleika til að bera um þennan atvinnurekstur, sem hér á hlut að máli, hljóti að koma auga á, að fyrirmæli frv. eru til óþæginda, ekki aðeins þeim, sem síld kaupa, heldur þeim, sem síldina selja.

Venjulega er það svo um þau skip, sem veiða síld til bræðslu, að þau koma inn mörg í einu, svo að oft þarf að losa 6–10 skip á sömu bræðslustöð á stuttum tíma. Fram að þessum tíma hefir það þannig gengið, að sjálfir skipverjar sjá um losun skipanna og síldin er mæld í vögnum eða kerum, þannig að engin töf hlýzt að, og eftirlit fer þannig fram, að sjómenn, sem losa skipin, telja vagnana.

Nú er svo mælt fyrir, að í staðinn fyrir þessa aðferð skuli vigta hvert einasta mál. Og til þess að hafa eftirlit með þeirri vigt þarf þá að löggilda svo og svo marga vigtarmenn o. s. frv. Það liggur í hlutarins eðli, að talsverðan aukinn kostnað leiðir af þessu fyrir framleiðandann. En auk þess er ég sannfærður um það, að ef slík fyrirmæli á að lögfesta, þá verður að gefa stöðvunum hæfilegan fyrirvara til þess að afla sér vigtartækja og koma þeim fyrir.

Ég vil ennfremur leyfa mér að benda á, að hér er ákveðið, að eitt mál af síld skuli vega 135 kg. Ég man, að í þeirri bræðslustöð, sem síldin var vigtuð síðastl. sumar, reyndist málið um l40 kg. Virðist því a. m. k. mjög orka tvímælis að slá föstu, að málið jafngildi 135 kg.

Ég held ég megi fullyrða, að þetta litla frv. muni mæta andmælum frá þeim, sem síld selja, og kaupendum síldarinnar líka. Það mun auka kostnað og óþægindi við móttöku síldarinnar.

Af þessum ástæðum er ég á móti þessu frv. Ef frv. hefði verið nokkuð rætt í n., býst ég við, að meiri hl. hefði verið á móti. Sjálfur gat ég ekki verið viðstaddur, þegar ákvörðun var tekin í n.