04.04.1930
Neðri deild: 71. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2058 í B-deild Alþingistíðinda. (2734)

64. mál, vigt á síld

Ólafur Thors:

Ég held það sé rangt með farið, að það sé venjulegt á Norðurlandi að vega síldina. Ég veit alveg fyrir víst, að um suma staðina er þetta með öllu rangt. Það getur verið, að á öðrum stöðum sé nokkuð af síldinni vegið. En ég veit, að hjá engri verksmiðju er það ófrávíkjanleg regla að vega síldina.

Hv. þm. hefir algerlega misskilið mig að því er snertir þyngd síldarmálanna. En það skiptir ekki ákaflega miklu máli, og ekki heldur hitt, hvort hv. 3. landsk. hefir í skýrslugerð sinni áætlað málið 139 kg.

Hv. 1. þm. S.-M. kvað það ófrávíkjanlega reglu, að öll vara væri vigtuð, og því væri það ekki óeðlilegt um þessa vöru líka. Það stendur nú einmitt mjög líkt á um þessa vöru og salt. Fyrirmæli eru til um það, að salt skuli vigtað, en þeim er sjaldan fylgt. (HG: Það er alltaf vegið). Það er í mesta lagi tíunda til fimmtugasta hvert mál vegið eða svo. Og ákaflega oft er það svo, að málið eitt er látið gilda.

Náttúrlega væri það nokkuð annað, ef um það væri að ræða að vigta aðeins fimmtugasta hvert mál síldar upp úr skipi. Það væri minni fyrirhöfn. En það, sem ég hefi á móti þessu fyrirkomulagi, sem frv. fer fram á, er aukin vinnutöf og kostnaður, sem af því leiddi. Það er algerlega rangt hjá þessum háu herrum, að þessu fylgi enginn kostnaður. Það þarf að hafa lögskipaða vigtarmenn, kaupdýra menn, til þess að líta eftir, og ég sé ekki annað en það verði þeirra eina starf. Og þessi aukni kostnaður hlýtur vitaskuld að lenda á framleiðendunum, en ekki á kaupendum.

Hugmyndir hv. 1. þm. S.-M. um afgreiðslu síldarskipa, þegar veitt er til bræðslu, eru ákaflega kyndugar. Hann virðist halda, að það sé eitthvað svipað að vigta síld eins og að láta úti eitt pund af neftóbaki.

En þetta gengur allt öðruvísi. Hér er um að ræða ákaflega mikið vörumagn, sem þarf á skömmum tíma að losa frá skipunum, ekki einu skipi í einu, heldur mörgum í einu. Hv. þm. á að vita það, úr því hann hefir óskað að gerast framsögumaður þessa máls, að það veldur óhjákvæmilega bæði töf og kostnaði að þurfa að vigta síldina. Og mér er nær að halda, að hv. 1. þm. S.-M. hefði aldrei átt frumkvæði að slíku frv., enda þótt hann hafi lagt því lið, eins og öllu, sem fram kemur í þessari hv. deild frá jafnaðarmönnum. Þetta frv. mun vera samið af hv. þm. Ak., enda með hans merki, þeim venjulegu lausatökum á öllu. „Bara ef lúsin íslenzk er“; bara ef eitthvað kemur frá jafnaðarmönnum, þá er þessi hv. þm. búinn að kokgleypa það, hvað mikil vitleysa sem það er.