04.04.1930
Neðri deild: 71. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2059 í B-deild Alþingistíðinda. (2735)

64. mál, vigt á síld

Haraldur Guðmundsson:

Þetta eru þau venjulegu rök hv. 2. þm. G.-K. Uppástungan er frá jafnaðarmönnum og þess vegna er hún vitleysa og ég á móti henni. Ef til vill sæma þessi rök hv. þm., en þau sæmta ekki þessari hv. deild.

Út af því, sem hann sagði um það, að síldin væri ekki undantekningarlaust vegin á Norðurlandi, þá get ég bætt því við það, sem ég áður sagði, að síldin, sem Krossanesverksmiðja og dr. Paul kaupa, er undantekningarlaust vegin. Verksmiðja Goos á Siglufirði mun yfirleitt hafa vegið síldina, en hvort það er undantekningarlaust, er mér ekki fullkunnugt um. Og ég sé enga ástæðu til þess, að hv. 2. þm. G.-K. sé látinn sleppa við það að taka upp sömu reglu, sömu sjálfsögðu reglu, í hræðslustöð þeirri, sem hann og bræður hans eiga á Hesteyri. Hann sagði, að kostnaður hlyti að verða mikill af þessu og leggjast á framleiðendur. Þ. e. verða til þess að lækka verðið á síldinni. Ég geri ráð fyrir, að einhver kostnaður kunni að stafa af þessari breyt., en auðvitað verða verksmiðjurnar að bera hann. Það er kaupmannsins að vega vöruna, vega hana rétt.

Það geta ekki talizt heilbrigð viðskipti, ef seljandinn veit ekki nákvæmlega, hversu mikið af vörunni hann lætur af hendi. Þykir mér næsta undarlegt, að hv. 2. þm. G.-K. skuli snúast svo öndverður gegn þessu máli. Hann mætti þó muna atburðina í Krossanesi, þegar seljendur seldu síld sína eftir málum, sem þeir héldu, að tækju ekki nema 150 lítra, en tóku þó í raun og veru 170. Get ég satt að segja ekki trúað því, að hv. 2. þm. G.K. vilji halda verndarhendi yfir slíkum viðskiptamöguleikum.

Hv. þm. sagði, að það væri fjarri sanni, að allar vörur væru vegnar, t. d. væri salt ekki vegið. Það er rétt, að hver saltpoki er ekki veginn, en ég veit ekki betur en að 10.–20. hver poki sé venjulega veginn. (ÓTh: Ég get verið samþykkur frv. með þessum skilningi). Ég fæ ekki annað séð en að kostnaðurinn við að vega 10.–20. hvert mál sé sá sami og við að vega hvert mál, þar sem fella má vogirnar niður í sporin. (ÓTh: Það er óvíða hægt að koma þeim fyrir). Jú, það er hægðarleikur. Þegar síldinni er ekið í þró á annað borð, kostar það ekki mikið að setja dálitla lykkju á sporin út á vogina. Hefi ég séð þessum vogum þannig fyrir komið, og virtist mér sem vel færi á því.

Ég vænti þess, að þetta mál mæti þeim skilningi hér í þessari hv. deild, að það nái fram að ganga, því að það er frumskilyrðið fyrir heilbrigðu viðskiptalífi á þessu sviði, að seljendur síldarinnar viti, hve mikið þeir láta af hendi, og kaupendur hve mikið þeir fá.