10.04.1930
Efri deild: 74. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2067 í B-deild Alþingistíðinda. (2751)

64. mál, vigt á síld

Frsm. (Erlingur Friðjónsson):

Þetta frv., sem ég flutti hér í hv. deild snemma þings, er nú komið aftur frá hv. Nd., og hefir hún gert á því dálitlar breyt. Fyrst og fremst hefir sektarákvæðunum verið breytt þannig, að nú skulu menn sæta 20–2.000 kr. sektum fyrir brot á lögunum, í stað 50–5.000 kr. áður. Í annan stað er sú breyt. gerð á 1. gr., þar sem tekið er fram, að öll síld skuli vegin, að bætt er við: ef seljandi óskar þess. Þetta er að vísu allveruleg breyt. frá tilgangi frv., en ég geri þó ráð fyrir, að í framkvæmdinni skipti það ekki miklu máli, því að í hverju einstöku tilfelli verða stöðvarnar að vera við því búnar að geta vigtað, ef seljandi óskar þess. Þetta knýr þær til að hafa vogirnar til, og þá munu þær verða almennt notaðar. Að vísu get ég búizt við því, að það samkomulag verði milli kaupanda og seljanda, að ekki verði vegin hver tvö mæliker, eins og frv. gerir ráð fyrir, heldur verði látið nægja, að t. d. 10. hvert sé vegið. — Þótt ég sé nú ekki allskostar ánægður með þær breyt., sem á frv. hafa verið gerðar í hv. Nd., geri ég sem flm. þó ekki ráð fyrir að flytja hér brtt., en leyfi mér að óska, að frv. verði samþ. óbreytt, svo að það megi nú í dag verða afgr. sem lög frá Alþingi.

Skal ég nú ekki fara fleiri orðum um frv., en ég hefi ástæðu til að svara hér nokkrum ummælum, sem fram komu við umr. málsins í hv. Nd. Þótt það sé nú ekki vanalegt að svara á þennan hátt orðum, sem fallið hafa í hinni deildinni, þá getur þó staðið svo á, að það sé engu síður réttlætanlegt en það, sem oft á sér stað hér, að svara orðum, sem sögð hafa verið utan þings. — Svo stóð á, að sem tilheyrandi í hv. Nd. varð ég var við hinar gífurlegustu öfgar í sambandi við það, hver kostnaður mundi verða af því að kaupa vogir og vigta síldina. Var það hv. 2. þm. G.-K., sem lengst gekk í þessu efni. Hv. þm. hafði þau orð um mig, að hann kvað hv. þm. Ísaf. mundu hafa upplýsingar frá mér, en ég væri „ekki jafnvandur að heimildum og hv. þm. Ísaf“. Nú væri mér það raunar hin sæmilegasta lýsing, þótt ég yrði ekki talinn eins vandur að rökum eða heimildum eins og hv. þm. Ísaf., því að hann er kunnur að því að vera mjög rökvandur maður. En sakir þess, hve þetta var sagt af hv. 2, þm. G.- K., og hann lét engin rök fylgja máli sínu, vísa ég þessu frá mér sem tilraun til óhróðurs og ófrægingar. — Aftur á móti skal ég benda á, að þessi hv. þm. er sjálfur allt annað en vandur að rökum fyrir málstað sínum, eins og ljóslega kom fram í umr. um þetta mál. Hv. þm. N.-Ísf. stóð upp til að segja frá því, að vogirnar, sem nota skal, mundu kosta um 15 þús. kr. hver. Ég þóttist nú raunar vita, hver þessi kostnaður væri, en til frekari fullvissu sneri ég mér til hr. Guðm. Hlíðdals símaverkfræðings, sem hefir umsjón með byggingu síldarbræðslustöðvar ríkisins, og fékk það staðfest hjá honum, að hver vog kostar um 2.500 krónur norskar í innkaupi, og yrðu það því rúmar 3.000 kr. ísl., er þær væru hér komnar. Hv. þm. N.-Ísf. hefir þannig 5-faldað þennan eina kostnaðarlið í frásögn sinni.

Í lok ræðu hv. þm. N.-Ísf. skaut hv. 2. þm. G.-K. því inn í, að kostnaðurinn af þessum vogum myndi verða 70–80 þús. kr. fyrir síldarverksmiðju ríkisins á Siglufirði. Ég hefi nú aflað mér upplýsinga um það, að þarna mun þurfa 2 eða 3 vogir, og hefir hv. þm. þannig áttfaldað til tífaldað þennan kostnað. Er hér annaðhvort um að ræða einstakt þekkingarleysi eða dæmalausa óvandvirkni.

Ég vil skjóta því hér inn, að ég sagði hv. 2. þm. G.-K. frá því, að ég mundi svara honum hér, ef hann vildi hlýða á mál mitt, en hann hefir ekki sýnt sig.

Hv. þm. kom því að í máli sínu, að hann sæi þm. Ak. vera að halda ræðu þar í deildinni. Af því að hann hefir nú komið þessu í þingtíðindin, verð ég að svara þessum áburði. (JÞ: Vill ekki hv. þm. flytja sig og tala hinum megin við dyrnar?). Ég hefi því miður ekki málfrelsi nema hérna megin. — Ástæðan til þessara orða hv. 2. þm. G.-K. var sú, að þegar öfgarnar hjá hv. þm. keyrðu mest úr hófi, laut ég að hv. þm. Ísaf. og skaut orði í eyra honum. Ef þetta heitir nú „að halda ræður í deildinni“, þá verð ég að álíta, að hv. 2. þm. G.-K. hafi sjálfur gerzt sekur um þá ávirðingu ekki sjaldnar en ég. Ég tala ekki um það, að hv. þm. er mjög tamt að grípa fram í, og að hann hefir jafnvel í ræðu talað við utanþingsmann, sem staddur var í blaðamanna herberginu. En hér í hv. Ed. hefi ég oft séð hann eiga hljóðskraf við hv. þdm., og þar með hefir hann sjálfur orðið sekur um þau afbrot, er hann lýsti á hendur mér. Hinsvegar skal ég lýsa einni sök á hendur mér um hegðun mína í hv. Nd. Þegar þar átti að fara að ganga til atkv. við 2. umr. málsins og hv. 2. þm. G.-K. skaut inn staðleysum sínum um hinn mikla kostnað — 70–80 þús. kr. —, sem síldarverksmiðja ríkisins mundi hafa af því að kaupa vogirnar, þá greip ég fram í og sagði hreinlega, að þetta væri „lygi“. Ég skal viðurkenna, að þarna hagaði ég mér ekki allskostar þinglega, en ég færi það mér til afsökunar, að ég heyrði þarna farið með svo miklar öfgar, að ég vissi ekkert orð í íslenzkri tungu, nema þetta eina, sem hægt væri að nota um það.

Læt ég svo útrætt um þetta mál, en vil vona, að í öðrum málum megi hv. 2. þm. G.-K. auðnast að tala af meiri sannindum, heilli hug og með betri rökum en hann hefir gert í þessu.