10.04.1930
Efri deild: 74. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2071 í B-deild Alþingistíðinda. (2754)

64. mál, vigt á síld

Jón Þorláksson:

Hæstv. forseti leyfir mér kannske að víkja að þeim kafla æfisögu minnar, sem hv. þm. var nú að rekja, og skal ég stanza nákvæmlega á sama stað og hann.

Ég veit það vel, að sanngjarnir menn á Akureyri bera mér allt aðra sögu viðvíkjandi verkfræðistarfi mínu í þágu bæjarins en núverandi hv. þm. þaðan. Ég hefi góð rök fyrir því. Hinu get ég ekki gert við, þótt hv. þm. skilji ekki, að það getur verið mjög skynsamlegt að leggja vatnsleiðslu þannig, að nokkur hluti hennar sé í upphafi nægur fyrir næstu stækkun verksins, en annar hlutinn ekki gerður öðruvísi en svo, að hann þurfi að endurnýja, þegar næsta stækkun fer fram. Þannig stóð einmitt á um þessa vatnsveitu á Akureyri, að rétt þótti að leggja nægilega víða pípu frá Hesjuvallalindum til þess að nægði fyrir næstu stækkun vatnsveitunnar, því að það munaði svo litlu á kostnaði, að taka pípurnar þetta víðar strax; en þegar neðar dró, sýndi það sig, að ekki var heppilegt að taka víðari pípur en sem hæfðu fyrir fyrstu virkjun, vegna þess að við aðra virkjun var haganlegt að taka þær upp og láta dálítið víðari pípur í staðinn, en full not fyrir þessar pípur annarsstaðar.

Ég veit, að þetta liggur dálítið fyrir utan og ofan skilning hv. þm. Ak., enda get ég heldur ekki gert þær kröfur til hans, að hann standi mér jafnfætis um skilning á verkfræðilegum atriðum.

Ég fer ekki lengra eftir vatnsveitunni en að tala um miðkaflann og efsta kaflann, eins og hv. þm. Ak. gerði. (Forseti GÓ: Já, það er gott, að þingmenn gangi sem minnst í vatnið).